08.08.1914
Neðri deild: 38. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 954 í B-deild Alþingistíðinda. (918)

115. mál, kaup á Þorlákshöfn

Matthías Ólafsson:

Mér kom nokkuð á óvart tillaga hæstv. ráðherra í þessu máli. Mér hefir áður heyrst á honum, að hann væri hrifinn af því, að nú væri loks farið að hugsa um Þorlákshöfn, og mér þótti gott til þess að vita, að þetta mál kæmist nú í hendur þess manns, sem lengi hefir haft áhuga á því.

Hæstv. ráðherra tók í sama strengina og þeir, sem sérstaklega hafa fundið frv. það til foráttu, að í því er ekki tiltekin nein upphæð. Það má nú segja um það, að ein pylsa í sláturtíðinni gerir ekki mikið. Það hafa verið samþ. frv. hér í deildinni, sem kostnað hafa haft í för með sér, og hefir ekkert verið tiltekið, hvað mestu mætti til kosta. T. d. má nefna frv. um heimflutning mynda Einars Jónssonar. Það má leiða að því skýr rök, að af heimflutningi þeirra muni leiða upp undir 100 þús. kr. kostnað.

Háttv. 2. þingm. N.-M. (J. J.) fór að hnippa í mig fyrir það, að eg skyldi bera þetta mál fram, þrátt fyrir það, að eg hefði álasað honum fyrir að fella fjáraukalögin, og þeim öðrum, sem að því unnu. Eg er hér hvorki að berjast fyrir hégómamáli, né heldur fyrir neinum bitlingi eða fyrir mitt kjördæmi. Þetta er þjóðnauðsynjamál, meira heldur en þau mál, sem hann hefir sjálfur flutt eftir að búið var að loka kjötpottinum, t. d. eins og frv. um heimflutning listaverka Einars Jónssonar. Það er vitaskuld hægt að fá þessa hluti geymda í K-höfn, svo að þeir skemmist ekki og mundi leigan naumast verða mjög há, en eigi að flytja þessi verk heim, þá er enginn efi á því, að yfir þau þarf að byggja hið allra fyrsta, og sú bygging verður dýr, ef hún á ekki að verða oss til vanvirðu. En þessi tvö mál er ekki hægt að bera saman. Annað er til gamans, en hitt til gagns. Því lengur, sem það dregst að koma upp höfninni í Þorlákshöfn, því meiri hætta er á líftjóni og jafnvel tekjutapi.

Eg get ekki mótmælt því, sem háttv. 1. þm. Húnv. (G. H.) sagði. Landsverkfræðingurinn hefir ekki sýnt mér þennan uppdrátt, þrátt fyrir ítrekaðar óskir mínar. Jafnvel þótt eg sé á því, að höfnina bæri að styrkja, þó að hún kostaði miklu meira en 75 þús. kr., þá held eg, að eg verði að segja, að ef garður úr landi kostar svo mikið, þá fari að renna á mig tvær grímur. En eg hefi skilið eigendur jarðarinnar svo, að þessi áætlaða höfn myndi koma að mjög góðu gagni, og geta orðið að skjóli fyrir 50 báta.

Eg get ekki séð, að þessu máli verði betur borgið með því, að afgreiða það með þessari rökstuddu dagskrá. Eg hefði heldur óskað fyrir mitt leyti, að málið yrði felt hér í deildinni, heldur en að hin rökstudda dagskrá næði samþykki.