08.08.1914
Neðri deild: 38. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 956 í B-deild Alþingistíðinda. (920)

115. mál, kaup á Þorlákshöfn

Guðmundur Eggerz:

Eg stend aðallega upp út af fyrirspurnum þeirra háttv. 1. þm. Húnv. (G. H.) og háttv. þm. S -Þing. (P. J.) um það, hvort garðurinn sé á þurru landi eða sjó. Þetta er næsta einkennileg spurning og leitt að þurfa að svara henni í alvöru. Höfnin á að vera fyrir báta, en ekki fyrir naut eða fé, svo það er auðvitað, að garðurinn er úti í sjó, hann er til þess að veita bátum skjól.

Í tilefni af árásum þeim, sem nefndin hefir sætt fyrir það, hve ógætilega hún hafi farið að ráði sínu, þá vil eg taka það fram, að eg get ekki séð, að hún hafi farið neitt óvarlega í sakirnar, því að þótt landið verji talsverðu fé til að kaupa þessa jörð, þá er það bundið fé. Jörðin gefur af sér 5680 kr. á ári

Nefndinni hefir og verið legið á hálsi fyrir það, að ekkert verð er tiltekið í frumvarpinu. En þar til er því að svara, að nefndin bar það traust til núverandi stjórnar, að hún semdi ekki um kaup á jörðinni ef verðið næði engri átt. Vér nefndarmennirnir höfum líka slegið varnagla við þessu atriði, þar sem farið er fram á í frumv. að veita landastjórninni heimild til þess að taka jörðina eignarnámi.

Þá er hitt atriðið, sem um hefir verið talað, að menn viti ekki, hvað höfnin muni kosta. Nefndin bjóst við því, að áður en stjórnin legði út í að láta gera höfnina þá myndi hún fá teikningar hjá landsverkfræðingnum og áætlun um kostnaðinn og álykta af því, hvort ráðast bæri í þetta fyrirtæki. Ef stjórnin sæi, að ekki myndi hyggilegt að láta gera höfnina, eða það yrði dýrara en nú er ætlað, þá myndi hún auðvitað hætta við það. Enginn gæti þá ásakað hana fyrir að láta verkið bíða.

Háttv. 2. þm. N.-Múl. (J. J.) þótti það undarlegt, að menn, sem teldi sig sparnaðarmenn, skyldi geta verið hlyntir máli þessu. Eg tel mér það til hróss, að hann kallar mig sparnaðarmann, en þótt eg sé sparnaðarmaður, þá er eg ekkert hræddur við að greiða atkvæði með að fé sé lagt í þarfleg fyrirtæki. Eg vil líka benda hv. þm. á, að hann hefir sjálfur gerst flutningsmaður að fjárveitingu til tveggja fyrirtækja, Heilsuhælisins og vitana, sem eg auðvitað ámæli honum fyrir.

Mér finst það hafa komið í ljós við umræðurnar hér í deildinni, að allir álíti þessa höfn nauðsynlega og að það væri skylda að koma henni á á næsta alþingi. En mér er það ekki nóg, mér finst ekki mega láta verkið bíða. Eg álít það vera mikið samvizkuspursmál, að draga það um 1–2 ár, vegna hættu þeirrar, sem sjómönnum stafar af hafnleysinu. Samkvæmt upplýsingum þeim, sem eg hefi fengið, þá róa þarna um 30 bátar á vertíðinni og er eitthvað 10–12 manns á bát, það eru alt róðrarbátar, um mótorbáta er ekki að tala þar, af því höfnin er svo vond. Slys er þar ekki lengi að að bera, og eg gæti trúað því, að sumir þingmenn mundu fá vonda samvizku ef þeir frétti það, að 2–3 skipshafnir hefði farist þarna sakir hafnleysis. Okkur skilur á í því, háttv. 1. þm. Húnv. (G. H.) og mig, að eg álít sjómannslífið meira en 500 kr. virði.