08.08.1914
Neðri deild: 38. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 960 í B-deild Alþingistíðinda. (923)

115. mál, kaup á Þorlákshöfn

Björn Kristjánsson:

Eg held engan þurfi að furða, sem til þekkir, þó dálítið sé gert til að hrinda þessu máli áfram. Eg er uppalinn á Eyrarbakka og veit, að enginn fer þar á sjó svo á vetrarvertíð, að hann viti fyrir víst, að hann muni koma að aftur. Það stórbrimar þar svo fljótt, jafnvel í góðu veðri, að róðrarbátar geta ekki náð veiðarfærum sínum svo fljótt — sízt nú síðan farið var að nota net — að þeir geti komist inn sundin á vetrin, er snögglega brimar. Og þá er ekkert annað að gera en að leggja á sundin upp á von eða óvon að komast að landi, eða leggja til hafs. Eg hefi sjálfur horft á það með mínum eigin augum, að menn hafa druknað á sundunum þar í góðu veðri vegna brims.

Eg hefi stutt þetta mál, ekki svo mjög vegna Þorlákshafnar, heldur vegna Eyrarbakka og Stokkseyrar og Árnessýslu yfirhöfuð. Sjómenn þaðan eru altaf í hættu, og það er sjálfsagt að bjarga þeim ef mögulegt er.

Það getur vel verið, að frumv. þetta sé ekki eins vel sniðið og vera ætti. Það getur verið að betra væri að gefa stjórninni aðeins heimild til að kaupa jörðina, í staðinn fyrir að uppáleggja henni það, en það mætti laga við 2. umr. Það hefir verið fundið frumv. til foráttu, að ekki sé tekið til neitt verð þar. Vér nefndarmenn berum svo gott traust til stjórnarinnar, að hún gæti þar alls hófs. Það getur verið, að betra sé að setja eitthvert fast verð, t. d. 60 þús. Eg vil ekki byggja verðið á eftirgjöldunum, þau eru of há. Og það var eitt með öðru, sem kom mér til að ljá máli þessu fylgi, að eg vildi losa sjómenn undan því okurgjaldauppsátri, sem síðustu árin hefir verið lagt á þá, sem þangað verða að leita.

Hvernig á landssjóður að losa 50 þús. kr. á þessum tíma, munu menn spyrja. Það er auðvelt. Á jörðinni hvíla um 20 þús. kr. með 1. veðrétti til veðdeildar Landsbankans. Þær þarf ekki að borga fyrr en smátt og smátt. Næst á eftir munu hvíla á jörðinni 20 þús. kr. með 4% vöxtum. Lánið er óuppsegjanlegt og veðhafi útlendur. Þá eru eftir 20 þús. kr., sem þarf að reita saman og það er varla ókleift. Hygg eg, að ráðlegast væri, að setja 60 þús. kr. sem hæsta verð. Stjórnin hefir þá líka fyrir sér, það sem hún óskar eftir.

Þótt gert sé ráð fyrir í frumvarpinu, að gera skuli höfn í Þorlákshöfn, þá er ekki þar með lagt, að það skuli gera áður en fé er veitt til þess á fjárlögum. Lög hafa oft ákveðið, að eitthvert verk skyldi framkvæmt, t. d. eru lög um það, að brúa skuli Jökulsá á undan öllum öðrum ám, en það er ekki gert enn og verður ekki gert fyrr en fé til þess er veitt á fjárlögum.

Eg vil leyfa mér að benda þeim á það, sem eru að klifa á því, að eftirgjaldið muni verða svo lítið eftir Þorlákshöfn, að ef t. d. 50 mótorbátar bættist við útveginn austanfjalls vegna hafnarinnar, og hver þeirra aflaði 100 skippund á ári af fiski, þá mundi tollurinn af fiskinum einum saman auka tekjur landsins um 1600 krónur. Það eru því ekki eingöngu jarðarafgjöldin, sem í landssjóð kæmi, heldur líka auknar tekjur af fiskinum.

Enn er það, að Þorlákshöfn liggur á þeim stað, að hætta er á, að hún geti lent í höndum útlendinga og það hefir legið við borð. Það álít eg vera hið mesta skaðræði, og þess vegna á landið að flýta sér að kaupa hana.

Enn vil eg benda á það, að auk Eyrarbakka og Stokkseyrar getur Selvogur notað Þorlákshöfn sem neyðarhöfn.