03.08.1914
Neðri deild: 33. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 966 í B-deild Alþingistíðinda. (939)

96. mál, bann gegn botnvörpuveiðum

Jón Magnússon:

Eg held, að það sé misskilningur hjá háttv. þm. Dal. (B. J.) að erlendir botnvörpungar sé óánægðir yfir því, að íslenzkir botnvörpungar hafi þessa undanþágu. Eg hefi heyrt marga útlendinga, bæði konsúlana hér og aðra, tala um þetta, og virðist það ekki nema sjálfsagt. Eg get vitanlega ekki tekið fyrir það, að einstaka maður kunni að hafa látið í ljós óánægju í þessu efni, en það get eg fullyrt, að sú óánægja er ekki almenn. Ég get fallist á uppástungu háttv. 2. þm. Árn. (E. A.), að ef ætlast er til að frv. gangi fram, þá sé það fengið nefnd til íhugunar hér í deildinni. Eg held t. d. að rétt sé að taka það til athugunar, hvort ástæða sé til að hækka sektarlágmarkið eins og farið er fram á í 2. gr. frv. Þessi brot eru svo fjarskalega mismunandi, að eg tel rétt að gera mikinn mun hegningarinnar. Það gæti vel komið til mála að hækka hámark sektarinnar, en eg hygg, að ekki eigi að hækka lágmarkið og tel æskilegt að málið verði athugað í nefnd, einnig í þessari deild, og skal eg svo ekki hafa fleiri orð um það, að þessu sinni.