03.08.1914
Neðri deild: 33. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 968 í B-deild Alþingistíðinda. (942)

96. mál, bann gegn botnvörpuveiðum

Matthías Ólafsson:

Þrátt fyrir það, sem hv. þm. Dal. (B. J.) sagði, get ég ekki verið á annari skoðun, en ég lét áðan í ljós. Hann heldur, að Englendinga muni ekki mikið um það, þó að sektarlágmarkið verði hækkað eins og hér er farið fram á. Það getur vel verið, en það er andi laganna, sem eg legg mesta áherzluna á, og það er andi laganna, sem mundi verða til þess, að gera Englendinga óánægða með þessar ráðstafanir. Í 7. gr. frv. segir svo:

»Skipstjóra þann, sem gjörir sig sekan í ítrekuðu broti, eða broti, er mjög mikið kveður að, gegn 1. grein þessara laga, má auk hegningar þeirrar sem getur um í 2. gr. dæma í fangelsi«.

Ef þetta er vel fallið til þess að efla vinsamleg viðskifti milli landa, þá er flest fallið til að efla vinsamleg viðskifti. Eg verð enn að halda því fram, að það sé óvarkárt að herða á botnvörpungasektarákvæðunum nú, þegar einmitt sérstök ástæða er til þess, að vér komum oss sem allra bezt við Englendinga. Það veit enginn, hvað úr þessum ófriði kann að verða, og það veit enginn, hvort vér verðum eftir nokkra daga í sambandi við þá þjóð, sem vér erum nú í sambandi við. En hvernig sem alt veltur, þá verður oss ekki happadrýgra að vera í vinfengi við nokkra aðra þjóð en Englendinga. Hitt, að vér förum að nema úr gildi þá undanþágu, sem íslenzkir botnvörpungar hafa haft í mörg ár, er alt öðru máli að gegna.

Það er ekki nema sjálfsagt, og það viðurkenna aðrar þjóðir, að sé eðlilegt, að vér, sem þetta land byggjum, höfum ýms hlunnindi af því, sem vér veitum ekki framandi þjóðum. Englendingar hafa sýnt, að þeir líta þannig á þetta mál, með því að frá þeim hafa engar kvartanir borist í þessu efni. Eg hefði helzt óskað, að þetta frv. væri felt nú þegar, en að öðru leyti get eg sætt mig við, að nefnd verði kosin til að íhuga það, því að eg býst við, að hún komist að líkri niðurstöðu og við, eg og hv. þm. N.-Þing. (B. Sv.).