06.08.1914
Neðri deild: 36. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 970 í B-deild Alþingistíðinda. (944)

96. mál, bann gegn botnvörpuveiðum

Framsm. meirihl. (Matthías Ólafsson):

Eins og nefndarálitið ber með sér, þá hefir nefndin ekki getað orðið á eitt mál sátt, því að meiri hl. vill láta fella frv.

Eg vil ekki tefja hv. deild með langri ræðu, en eg get þó ekki komist hjá að minnast á nefndarálit hv. minni hluta, þar sem að sagt er, að eg ráðist á þann garðinn, sem eg ætti að verja, og er þar líklega átt við það, að eg er fiskiveiðaráðunautur, en till. um það að hækka botnvörpusektirnar er komin frá fiskiveiðafélaginu.

Þar til er því að svara, að ef eg hefði einhverja skoðun sem þingmaður, þá mundi eg halda henni fram, jafnvel þótt sjómannastéttin teldi hana óheppilega, því að eg mundi að sjálfsögðu álíta mína skoðun réttari.

Í nefndinni var bent á, að líkindi eru sáralítil, að vér fáum nokkurar tekjur af botnvörpusektum á meðan ófriðurinn stendur yfir. Það eru lítil líkindi til þess, að nokkurir útlendir botnvörpungar verði að veiðum hér við land, og því fáum vér heldur engar tekjur af botnvörpusektum á meðan. En þegar ófriðnum léttir af, þá mun ekki lengi þurfa að bíða eftir því, að þing komi saman aftur, og væri þá hægt að samþykkja lög í þessa átt, ef ekkert verður því þá til fyrirstöðu. (Sigurður Sigurðsson: Því lá nefndin ekki á frumvarpinu?). Eg tel það ekki vel ráðið, að nefndir taki sér það vald, að drepa frumvörpin upp á eigin spýtur, en vilji deildin ekki fallast á frumvarpið, þá er henni innanhandar að fella það.

Eg sé, að hér er verið að meinbægjast við ísl. botnvörpungunum í frumvarpinu. Meiri hluti nefndarinnar var á þeirri skoðun, að ekki væri rétt að afnema undanþágu þá, er íslenzkir botnvörpungar hafa haft að undanförnu, um meðferð á veiðarfærum innan landhelginnar. Og telur hann slíkt enga ívilnun gagnvart útlendingum, þótt Íslendingum yrði sett jafnerfið skilyrði og þeim, því að útlendingar munu sætta sig allvel við þau ákvæði.

Annara sé eg ekki ástæðu til að halda langa ræðu að sinni og skal því láta úttalað um þetta mál nú.