08.07.1914
Neðri deild: 6. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 987 í B-deild Alþingistíðinda. (956)

8. mál, grasbýli

Flutningsm. (Jóhann Eyjólfsson):

Eg skal með örfáum orðum leyfa mér að leitast við að skýra þá hugsjón, sem fyrir mér vakti, þegar eg bjó til þetta frumv.

Mér fanst það koma fram í umræðunum, að fjölskyldumaður mundi ekki geta framfleytt lífinu af afurðum 30 dagsláttna grasbýlis, og eg vissi vel, að 30 dagsláttur eru oflítið, en hinsvegar mun þó ekki vera lakara að hafa land, þó ekki væri stærra, nálægt kaupstað, heldur en búa í kaupstaðnum sjálfum og hafa ekki svo mikið sem kálgarðsholu.

Eg leit svo á, að maður, sem hefði 30 dagsláttna land nálægt kaupstað, gæti haft töluverðan stuðning af vinnu í kaupstaðnum. En ef hann ætti að lifa af afurðum landsins eingöngu, mundi naumast veita af 100 dagsláttum, og eg þekki margar jarðir, sem ekki mundu verða mikið verri, þótt teknar væri af þeim 100 dagsláttur.

Tæki maður nú svo stórt land, 100 dagaláttur., og ræktaði helminginn af því, mundi það gefa af sér næga töðu til þess að framfleyta svo mörgum gripum, að fjölskyldu væri fært að lifa af því góðu lífi. Mín hugsun var ekki önnur en sú, að á þessum býlum yrði framleiddur nautpeningur, hænsn og svín, en alls ekki sauðfénaður. Þess vegna er í frumvarpinu lögð áherzla á, að býlin liggi nálægt braut eða kauptúni, til þess að sem hægast verði að koma afurðunum, mjólk, eggjum og öðru á markað.

Mér skildist á ræðu háttv. 1. þingm. Árn. (S. S.), að hann teldi óumflýjanlegt, að grasbýlin ætti afnot og ítök í aðaljörðinni, svo sem beit, og einnig ásamt henni ítak í afrétti. En það var meining mín að slíkt þyrfti ekki að vera, eg ætlast til, að þau býli sem hafa um 100 dagsláttur, geti orðið sérstæðar og sjálfstæðar jarðir, þar sem fjölskyldur geti lifað af afnotum jarðanna. En á landminni býlunum geri eg ráð fyrir að grasbýlisbóndinn verði að hafa einhverja aðra atvinnu sér til styrktar, svo sem handverk eða eitthvað því um líkt.

Þar sem eg heyrði orðfæri í þá átt, að varhugavert sé að »demba svona lögum yfir landið« alt í einu, þá get eg ekki séð, að slík ummæli sé réttmæt, því að hér er ekki farið fram á neitt meira en það, að veita heimild til að styrkja með landssjóðalánum stofnun 10 grasbýla að eins á ári. Þetta er ekki stórt stökk, en málið er þess vert, að því sé gaumur gefinn og reynt, hvort þessi litla tilraun getur tekist. Færi svo, að tilraunirnar gengi vel, fyrirtækin þrifist, þá mundi tala grasbýlanna fljótlega aukast — ekki einungis tvöfaldast, heldur þrefaldast, en kæmi hið gagnstæða í ljós, að þessi aðferð reyndist illa, þá er ekki annað en að hætta við hana. Þeir, sem eiga þess kost, að setjast á góðar jarðir, mundu heldur gera það, en hinir, sem ekki eiga um annað að velja en að fara í kaupstaðina, mundu fegnir vilja eiga þess kost, að fá að rækta sér grasbýli.

Það er nú kominn tími til að gera tilraun með þetta, og það ætti ekki að koata fjarskalega mikið. Hér er ekki talað um annað en heimild til lánveitinga til að gera tilraunir um hlut, sem ætti að geta orðið til sannra þjóðþrifa.