13.07.1914
Neðri deild: 10. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 990 í B-deild Alþingistíðinda. (962)

42. mál, ritsíma og talsímakerfi Íslands

Flutningsm. (Benedikt Sveinsson):

Þótt þetta sé ekki stórvægileg breyting, sem eg fer fram á, að gerð verði á ritsímalögunum, þá er hún þó engu að síður alveg nauðsynleg. Eg býst við, að þetta mál verði sett í nefnd, en vil þó leyfa mér að reifa það lítilsháttar nú.

Samkvæmt lögum um ritsíma og talsíma frá í fyrra, eru að eins taldar í 2. flokki hliðarlínur til þriggja kauptúnanna á leiðinni milli Vopnafjarðar og Húsavíkur, þ. e. til Bakkafjarðar, Þórshafnar og Kópaskers, en fjórða kauptúnið, Raufarhöfn, látið verða útundan.

Þetta kauptún, Raufarhöfn, hefir þó margt það sér til ágætis, að sjálfsagt hefði verið að leggja ritsímann þangað strax, engu síður en í hin kauptúnin. Þar er hin tryggasta höfn fyrir smærri skip á öllu svæðinu milli Eyjafjarðar og Seyðisfjarðar og liggur ágætlega við fiskveiðum, því að skamt er þaðan til hinna beztu miða. Vélarbátahöfn er þar ein hin bezta á öllu landinu. Þar er síldveiði mikil, svo að slaga mundi nokkuð upp í Siglufjörð, ef símanot hefði komið þar jafnsnemma. Þar er útgerð allmikil, bæði norskra síldveiðimanna og vélarbáta. Útflutningsgjaldið af sjávarafurðum var þar árið 1912 um 10 þús. kr. Af þessu má sjá, hvílíkur hnekkir það er þessu kauptúni, að ekki skuli vera þangað sími. Eg býst við því, að þegar Raufarhöfn er komin í gott símasamband, verði landssjóði það mikill gróði, því að þá mun útgerð þar aukast og fólksfjöldi vaxa. Menn mundu sækja þangað veiðar frá ýmsum stöðum þegar fiskigengd er þar. Mun þetta því verða bæði til hags landssjóði, kauptúninu sjálfu og útgerðarmönnum norðanlands og austan, sem þá gæti stundað þaðan veiðar á hagfeldustu tímum, en nú er varnað þess. Eins og menn vita, er landrými lítið á Siglufirði, og hart um lóðir. Öðru máli er að gegna um Raufarhöfn; þar er nóg landrými. Þegar líður á sumar, er oft langt að sækja síldveiði úr Siglufirði, því að oft verður þá að fara austur um Sléttu og Langanes eftir henni; að þessu leyti liggur Raufarhöfn betur við. En skilyrðið fyrir því, að höfnin komi að slíkum notum, er símalagning, því að fyrr geta menn ekki fengið að vita nægilega fljóti um fiskigöngur.

Eg sé ekki annað, en að alt mæli með því, að þessi kaupstaður, sem af slysni og hlutdrægni var ekki settur í annan flokk á síðasta þingi, sé nú færður til. Býst eg því við góðum undirtektum manna við þessari málaleitan minni.

Benda vil eg enn á það, að ódýrara er landssjóði að leggja þessa álmu samtímis því, sem aðrar álmur eru lagðar um þessar slóðir, því að þarmeð færist niður flutningskostnaður áhalda og fargjald verkamanna o. fl.

Eg býst hálfvegis við, að úlfaþytur kunni að verða vakinn út af því, að frv. þetta raski eitthvað við ritsímalögunum, sem sumir telja helgari en Móseslögmál. En eg bið þá, sem fastast halda í »principin« að hugleiða það, að »principi« Símalaganna verður betur fullnægt, ef þessi galli er lagfærður. Eg vona því, þótt menn sé »princip«-fastir, þá finni menn ekki samvizku sinni né sannfæringu misboðið með því að taka breyting þessa frumvarps til greina.