13.07.1914
Neðri deild: 10. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 992 í B-deild Alþingistíðinda. (963)

42. mál, ritsíma og talsímakerfi Íslands

Pétur Jónsson:

Hér liggja nú fyrir til umræðu 5 frumvörp, sem öll fara fram á breyting á símalögunum. Eg ætla ekki að fara út í það, hvað mælir með eða móti hverju þeirra um sig; eg býst við, að þau verði öll sett í nefnd, og þar rækilega íhuguð.

Eg vil samt gera almenna athugasemd:

Öll þau frv., sem ganga í þá átt að færa símalínur til, úr 3. flokki í 2. fl., eru þýðingarlaus. Símarnir verða ekki lagðir fyrr, nema þá jafnframt þokist aftar þær línur í 3. fl., sem kynni að eiga að standa framar. Með því að auka 2. flokk, yrði afleiðingin aðeina sú, að lánið, sem tekið er til símlagninganna, mundi ekki hrökkva til. Lánið er miðað við línur, sem nú eru í öðrum flokki, og er ekki sýnilegt, að nokkur afgangur verði. Ef menn hugsa sér, að þessar línur verði lagðar á næsta sumri, þá er það ekki hægt, vegna skorts á vinnukrafti.

Viðvíkjandi þessari línu til Raufarhafnar, skal eg taka það fram, að skýring háttvirts þm. N.-Þing. (B. Sv.) var villandi. Það var alls ekki fyrir gleymsku, að sú lína var ekki tekin í annan flokk, heldur hitt, að Raufarhöfn liggur svo miklu fjær aðallínunni, en Þórshöfn og Kópasker mjög nærri. Ef Raufarhöfn hefði legið nær, mundi síminn vafalaust hafa verið lagður þangað, þótt þar sé minni verzlun en á Þórshöfn og Kópaskeri.