13.07.1914
Neðri deild: 10. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 994 í B-deild Alþingistíðinda. (968)

44. mál, ritsíma og talsímakerfi Íslands

Flutningsm. (Jón Jónsson):

Eins og frv. ber með sér, erum vér 3 flutningsmennirnir, og allir að austan. Eg skal játa, að vér hefðum líklega ekki komið fram með þetta frv., ef samsk. frv. hefði ekki þegar verið framkomið og vér vitað til þess, að von var á fleirum. Vér gátum ekki sætt oss við, þar sem sú lína, sem frv. fjallar um, er ákveðin í 4. gr. ritsímalaganna, að bæði þær línur, sem þar eru ákveðnar og ýmsar aðrar línur, væri færðar í 2. fl., án þess að skifta oss af því. Það var aðallega þessvegna, að vér vissum, að slíkar breytingar átti að gera, að vér komum fram með þetta frv. Annars býst eg við, að það sé ekki ósanngjarnara, að þessi breyting, sem frv. fer fram á, verði gerð, en ýmsar aðrar breytingar, sem fyrr hafa verið gerðar, og nú er farið fram á að gera. Krafan um síma frá Egilsstöðum til Borgarfjarðar hefir við talsverð rök að styðjast. Bæði er það, að Borgarfjörður er talsverð veiðistöð og þó nokkur verzlunarstaður og hefir þessvegna æðimikla þörf fyrir síma. Svo er það einnig, að í Borgarfirði er læknislaust. Borgarfjörður er partur af Hróarstunguhéraði, og er illa settur í þessu tilliti, ekki sízt fyrir það, að lækni vantar í Hróarstunguhérað, svo að læknirinn á Brekku í Fljótsdal verður að þjóna því, ásamt sínu héraði. Er oft ekki hægt að ná, í hann, þó að brýna nauðsyn beri til. Eins og gefur að skilja., mundi það bæta mikið úr þessum vandræðum, ef síminn væri lagður alla leið til Borgarfjarðar.

Eg skal svo ekki hafa fleiri orð um málið. Eg geri ráð fyrir, að þessu frv. verði vísað til nefndar, eins og næsta frv. á undan, og þá til sömu nefndarinnar.