13.07.1914
Neðri deild: 10. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 996 í B-deild Alþingistíðinda. (972)

45. mál, ritsíma og talsímakerfi Íslands

Flutn.m. (Stefán Stefánsson):

Það kemur víst engum háttv. þm. á óvart, þó að þetta frumvarp komi fram, ef þeir hafa litið á skýrslu þá, sem landsímastjórinn hefir gefið um rekstur landsímans síðastliðið ár.

Þetta mál var einnig flutt á síðasta þingi og býst eg við að flestum háttv. deildarmönnum sé kunnar umræðurnar, sem þá fóru fram um það.

Nú í vor, á þingmálafundi, sem haldinn var í Siglufirði, var það eindregin ósk manna, að málið væri flutt af nýju á alþingi og þrátt fyrir mótspyrnu síðasta þings, gat eg ekki neitað að flytja svo eðlilega. og sjálfsagða kröfu fyrir kjósendur og þetta er. Af skýrslu land símastjórans fyrir síðastliðið ár, sem öllum þm. hefir verið afhent, sést, að þessi lína hefir gefið af sér í hreinar tekjur 11365 kr. 75 au. Nú var það svo, að þegar þessi lína var lögð fyrir 4 árum, þá var það með mestu erfiðismunum að þingið fékst til að viðurkenna að hún skyldi leggjast. Eg minnist þessa, af því, að eg og háttv. 1. þm. Skagf. (Ó. Br.) áttum talsvert erfitt uppdráttar með málið. Loksins fékst línan viðurkent, þó með því móti, að héraðið legði fram 10 þús. kr. eða fram að 1/3 af kostnaðinum við lagninguna. Línan öll kostaði um 35 þús. kr. Af þessu yfirliti yfir allan rekstur landsímans s. 1. ár, sést, að nú hefir ein einasta stöð, símastöðin í Siglufirði greitt til símans í hreinar tekjur, sennilega ekki minni upphæð, þegar teknar eru til greina tekjurnar yfir öll árin, en sem nemur lagning línunnar. Allar stöðvarnar gefa af sér sem sé rúmar 11 þús. kr., en mestur hlutinn kemur frá Siglufjarðarstöðinni. Hún er þess vegna ekkert óeðlileg þessi endurtekna ósk sveitarfélagsins, að símalínan til Siglufjarðar verði afhent landsímanum og gerð að 1. fl. lína, með öðrum orðum, að krafan um 10 þús. kr. greiðslu frá héruðunum falli niður, sér í lagi þegar á það er litið, að símastöðin á Siglufirði er að nokkru leyti rekin á kostnað sveitarinnar. Það kann að vera að þetta raski einhverjum »principum«. En þegar einhverjar fyrirfram gefnar reglur eða »princip« reynast að koma í bág við alt réttlæti og sanngirni, þá er eg þeirrar skoðunar að »principin« eigi og hljóti að víkja.

Því hefir verið haldið fram, að það væri einungis tímaspursmál, hvað þessar miklu tekjur af Siglufjarðarstöðinni héldist lengi, jafnvel þó sú hafi raunin orðið á, að tekjurnar hafa aukist árlega. En þessi mótbára er bygð á því, að það sé einungis tímaspursmál, hvað síldveiðin haldist lengi fyrir Norðurlandi og þegar hún hætti, þá sé úti um símatekjurnar. Þessar getgátur er alveg út í loftið. Það eru engar líkur til þess að síldargöngur haldi ekki áfram fyrir Norðurlandi 2–3 mánuði ársins eins og áður átt sér stað, sennilega um margar aldir. Og þó að svo færi, að forsjóninni þóknaðist að láta alla síldveiði hætta á Siglufirði, þá er sannarlega ekki öll sund lokuð hvað snertir sjávarútveginn þar, því enginn staður á öllu Norðurlandi hefir betri skilyrði til hverskonar veiðiskapar; jafnvel hefi eg heyrt, að komið hafi til tals, að þaðan yrði rekin selveiði í stórum stíl, og kunnugt er mér um það, að nú í vor sóttu þangað vélabátar úr fjarlægum héruðum til þess að stunda þar þorskveiðar. Það er því ekkert útlit fyrir annað, en að framhald verði á þessum miklu símatekjum.

Á þessu stigi málsins ætla eg mér ekki að hafa fleiri orð um það. Eg treysti því, að háttv. deild sýni því þá velvild, að frumvarpið gangi til nefndar. Og leyfi eg mér þess vegna að stinga upp á, að því verði vísað til nefndarinnar, sem áður hefir verið kosin til að íhuga samskonar mál.