08.09.1915
Efri deild: 55. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 924 í B-deild Alþingistíðinda. (1019)

121. mál, þegnskylduvinna

Guðmundur Björnson:

Hv. 2. þm. Skagf. (J. B.) gat þess í byrjun ræðu sinnar, að þótt tillaga þessi vært eigi stórvaxin, þá væri hjer þó um stórmál að ræða. Jeg er alveg samdóma hv. þm. (J. B.) um þetta. Í mínum augum er þetta langstærsta málið hjer á þingi í sumar. Mörgum þeirra er líkt farið og flugunum, sem sveima kring um okkur hjer í salnum; þau verða skammlíf og falla brátt í gleymskudjúpið. En þetta mál mun lifa, og lifa lengi. Hjer er að ræða um íslenskt þjóðernismál, um baráttu milli eigingirninnar annars vegar og þjóðernisástarinnar hins vegar. Hjer er að ræða um þá menningarbót, að ungt fólk venjist á að leggja ofurlitla vinnu í sölurnar fyrir ættjörðina, án þess að heimta beint endurgjald fyrir. Fyrir mjer er það aukaatriði, hvort þessi vinna verður beinn fjárgróði fyrir landssjóð eða ekki. Höfuðatriðið er það, að jeg er fulltrúa um, að þegnskylduvinnan geti orðið gróði fyrir íslenska menningu og íslenskt þjóðerni. Hjer hefir verið talað um frelsi, og tillaga þessi þótt stefna að því, að leggja höft á það. Víst er frelsið gott, en þó svo best, að því sje samfara fórnfýsi hjá þeim, er þess njóta. Því er svo ákaflega mikið undir því komið, að unga kynslóðin alist þannig upp, að hún verði jafnan fús á að leggja eitthvað í sölurnar fyrir ættjörðina, og telji sjer sæmd í því. Þá er það víst, að vjer eigum þjóðsældartíð fyrir höndum, ef sá andi kemst inn hjá æskulýðnum, og þessi tillaga stefnir beint að því, að leiða hann inn á þá farsældarbraut.

Hv. 2. þm. Skagf. (J. -B.) sá marga agnúa á máli þessu, og taldi þá helst til bjartsýna, sem fylgdu því fram. Alveg rjett. Hvaða mál er það, sem svartsýnir menn sjá ekki agnúa á? Og hvaðan eru framfarir þjóðanna runnar? Frá hverjum öðrum en bjartsýnum mönnum? Þeir hafa jafnan reynst frömuðir góðu málanna, en svartsýnismennirnir hangið fastir á tómum agnúum. Það hefir þegar verið rætt og ritað mikið um mál þetta, og það orðið svo mikið umhugsunarefni og áhugaefni, að tillaga þessi er nú hjer komin fram á þingi. Verði hún samþykt nú á þinginu, þá er það ljóst, að af því mun leiða, að þjóðin vaknar til enn nánari íhugunar og umhugsunar um það. Það mun verða rætt af alþjóð fram að næstu kosningu, og fólkið reyna að gjöra sjer sem allra glegsta grein fyrir því, áður en það gengur til atkvæða um það. Þótt meiri hluti kjósenda samþykki þegnskylduvinnuna, þá þýðir það ekki annað, en að stjórn landsins og Alþingi eru þá skyld til að rannsaka málið og undirbúa svo sem unt er. En af því leiðir alls eigi, að lög verði sett um það á næsta þingi eða næstu þingum. Það er sjálfsagt að átta sig sem best, áður en út í það er farið, og leggja ekki út í neina löggjöf um það, fyrr en vissa er fyrir, að mikill meiri hluti landsmanna sje því fylgjandi.

Verði málið lagt undir atkvæði, og meiri hluti atkvæðisbærra manna reynist því mótfallinn, þá segja þeir, sem þykjast hlyntir málinu, að slíkt muni tefja fyrir framgangi þess. Jeg segi nei; jeg fullyrði, að það muni þvert á móti flýta fyrir því. Það hlýtur þá samt að verða stöðugt og lifandi umtalsefni þjóðarinnar framvegis. Og ekki er annað hollara fyrir hana en að fá slík lifandi umtalsefni og umhugsun

arefni, er stefna beint að því, að vekja og glæða þjóðræknina. Mjer leikur grunur á, að vöknuð sje hjá sumum þeim, sem tefja vilja málið af tómri umhyggju fyrir því, að því er þeir segja, hræðsla um, að það hafi þegar fengið mikið fylgi, og því vilji þeir eigi hætta því undir þjóðaratkvæði. Þetta mál má heita eina framtíðar- og hugsjónamálið á þessu þingi. Þjóðin dofnar og deyr, ef hún hefir engin hugsjónamál við að fást; þjóðlífið þrífst ekki, ef því er ætlað að hanga á tómum agnúum, og nærast á tómum efasemdum. Því greiði jeg ekki af hálfum hug, heldur heilum, atkvæði með tillögu þessari.

Jeg skal svo ekki lengja umræðurnar mikið meira, en vona og óska að tillagan verði samþykt, og sú er spá mín, að hvaða orðstír, sem þetta þing kann að öðru leyti að geta sjer, þá muni það þó þess mesti heiður, að hafa samþykt þetta mál.