08.09.1915
Efri deild: 55. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 926 í B-deild Alþingistíðinda. (1020)

121. mál, þegnskylduvinna

Jósef Björnsson :

Jeg vil leyfa mjer að gjöra örstutta athugasemd. Mjer finst hv. 5. kgk. þm. (G. B.) alveg að óþörfu og ófyrirsynju beina því að mjer, að jeg sje svartsýnn. Það var miklu fremur hv. þm. Seyðf. (K. F.) en jeg, sem benti á agnúana við mál þetta, og lægi því fult svo nærri að bregða honum um svartsýni.

En hv. þm. (K. F. og G. B.) eru að tala um, að hjer sje að eins verið að ræða um að leita að skoðun manna á þegnskylduvinnumálinu, en alls eigi tilgangurinn að koma vinnunni á, eða lögbjóða hana, fyrr en einhvern tíma seint og síðar meir. Þegar þeir slá þessu fram, þá veit jeg ekki hvað þeir gjöra við sjón sína og lestrarkunnáttu, ef þeir geta ekki lesið, að í tillögunni stendur, að Alþingi skorar á landastjórnina að láta fara fram atkvæðagreiðslu í landinu um það, hvort lögbjóða skuli skylduvinnu fyrir alla heilbrigða karlmenn, við verk í þarfir hins opinbera. (Guðmundur Björnson og Karl Finnbogason : Ekkert talað um hve nær það skuli gjöra). Jeg vil skjóta því til hv. 5. kgk. þm. (G. B.), hvort hann haldi að betra tóm verði til að ræða og hugsa mál þetta, ásamt öllu öðru, er fyrir liggur, nú á einu misseri, heldur en um mörg undanfarin ár, og heldur en ef því er frestað um nokkra stund enn, að skjóta því undir atkvæðagreiðslu, og mönnum með því gefinn kostur á að íhuga það betur, áður en til atkvæða er gengið.

Jeg stend hjer kinnroðalaus með þá fullyrðingu, að þetta mál eigi það skilið, að það sje sem vandlegast rannsakað, og ekki hæfi að hleypa því á nokkurt hundavað. Og jeg læt það ekki hagga þessari skoðun minni, þótt jeg sje fyrir þær sakir kallaður svartsýnn, sem jeg tel sjálfsagða og hyggilega varfærni.