02.09.1915
Efri deild: 49. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 938 í B-deild Alþingistíðinda. (1034)

111. mál, yfirskoðunarmenn landsreikninganna

Guðmundur Björnson:

Jeg er hv. reikningslaganefndinni þakklátur fyrir, hversu vandlega hún hefir íhugað málið, og hygg jeg að óhætt muni vera að segja, að reikningslaganefndirnar í báðum deildum hafi lagt óvenjulega mikla rækt við starf sitt.

Jeg hefi leyft mjer að koma með eina brtt., og skal jeg gjöra grein fyrir henni. Það er rjett, sem nefndin segir í áliti sínu, að dagpeningar opinberra starfsmanna hafa verið mjög á reiki. Ástæðan mun einkum vera sú, að opinberum starfsmönnum hefir fjölgað mikið á síðari árum, en ekki verður sagt að rjettlátt sje, að allir — háir sem lágir — hafi jafn mikla dagpeninga. Þeirri reglu hefir þó lengst af verið fylgt, að dagpeningar alþingismanna og gamalla embættismanna væru jafnir. Til skams tíma var það föst venja, að alþingismenn hefðu 6 kr. í dagpeninga, meðan þeir væru á ferð, og sama gilti um alla æðstu embættismenn landsins. En eins og kunnugt er, komust alþingismenn að þeirri niðurstöðu fyrir 3 árum, að ósanngjarnt væri að dagpeningar væru 6 kr. einar. Ys nokkur varð utanþings þegar breytingunni var komið á, en jeg lít svo á, að þingið hafi farið alveg rjett að, og menn eiga jafnan að hafa hug til að gjöra það sem rjett er, hvað sem hver segir.

Þingið hækkaði dagpeninga alþingismanna upp í 8 kr. á ferð, og 10 kr. á þingi fyrir utanbæjarmenn. Jeg verð að skjóta því fram, að mjer virðist þetta hefði átt að vera öfugt. Tilkostnaður alþingismanna er vitanlega meiri meðan þeir eru á ferð, en þegar þeir halda kyrru fyrir. En aðalatriðið í þessu máli er þó það, að fulltrúar þjóðarinnar geti ferðast sómasamlega. Jeg hefi sjálfur reynt, að ekki er hægt að ferðast sómasamlega fyrir 6 kr. á dag. Þess vegna er uppfærsla á dagpeningunum rjettmæt. Enda blandast engum hugur um það, sem nokkuð þekkir til, að 10 kr. eru nú ekki meira virði en 6 kr. voru fyrir 15 árum. Þegar alþingismennirnir höfðu gjört þessa rjettmætu breytingu, þá fanst stjórninni eðlilegt, að gjalda æðstu embættismönnum það sama og alþingismennirnir ætluðu sjálfum sjer. En þetta reik, sem nú er á dagpeningum, stafar af því, að embættismönnum hefir fjölgað svo mikið, og ekki er hægt að ætlast til, að allir fái jafnt. Alþingismaður getur ekki ferðast eins og búnaðarráðunautur eða undirtylla við vitagæslu. Og nú eru heilir herskarar slíkra manna. Og jafn víst er hitt, að biskup landsins getur ekki ferðast eins og búnaðarráðunautur. Hann verður að geta ferðast eins og alþingismaður. Jeg veit að það er siður víða erlendis, að settar eru reglur um dagpeninga opinberra starfsmanna, og eru þeir þá því hærri, sem embættið er veglegra. Þetta þarf einnig að gjöra hjer, en Alþingi hefir ekki þau gögn í höndum, að það geti sett slíkar reglur, og hygg jeg, að alveg óhætt muni vera, að fela það stjórninni. Jeg tel víst, að hún greiði engum hærra en alþingismönnum.

Þetta eru ástæðurnar fyrir brtt. minni, og vona jeg að háttv. deild taki henni vel. Jeg hefi engu frekar við þetta að bæta, öðru en því, að bregðist sú von mín, að háttv. deild samþ. þessa brtt. mína, þá verður samstundis að breyta lögunum frá 1912, um dagpeninga alþingismanna, og færa þá niður í 5 kr., því annars er ekkert samræmi í gjörðum þingsins.