02.09.1915
Efri deild: 49. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 940 í B-deild Alþingistíðinda. (1035)

111. mál, yfirskoðunarmenn landsreikninganna

Framsm. (Björn Þorláksson):

Jeg þarf ekki að tala langt mál. Jeg vildi að eins benda á, að þessi samanburður háttv. 5. kgk. þm. (G. B:) á dagpeningum opinberra starfsmanna og dagpeningum alþingismanna, er algjörlega rangur, því dagpeningar þm. eru laun þeirra, en þegar embættismenn og opinberir starfsmenn fara eftirlitsferðir, þá gjöra þeir það samkvæmt embættisskyldu sinni, og eiga því, strangt tekið, ekkert að fá annað en ferðakostnað og hæfilega fæðispeninga. Nefndin hefir ekki getað sjeð, að fæðispeningar manna þyrfti að fara fram úr 5 kr. á dag, hvort sem þeir ferðast á landi eða sjó. Á sjónum þarf t. d. ekki annað að borga en fargjald og fæði, sem kostar 4 kr. á skipunum. Jeg hefi ekki ferðast mikið, en jeg hefi komist að raun um, að hægur vandi sje að komast af með 5 kr. á dag. (Guðmundur Björnson : Þá geta alþingismenn það líka). Jú, en þeirra dagpeningar eru kaupið, launin, þóknunin, sem þeir eiga að fæða sig af. (Guðmundur Björnson: Þm. hefir aldrei verið ætlað kaup fyrir starfa sinn). Jeg skal ekkert um þetta þræta, en nefndin hefir nú litið svo á málið, að hver, sem hlut ætti að máli, hvort sem það væri landritarinn, landlæknirinn, biskupinn, einhver verkfræðingurinn eða einhver annar, þá ætti hann ekki að fá einn eyri á eftirlitsferðum sínum, nema ferðakostnað sinn endurgoldinn og hæfilega dagpeninga til að fæðast af, úr því hann væri að vinna skylduverk samkvæmt embætti sínu, sem hann hefði full laun fyrir.

Jeg vona því, að háttv. deild felli þessa brtt. háttv. 5. kgk. þm. (G. B.).