11.09.1915
Efri deild: 58. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 943 í B-deild Alþingistíðinda. (1042)

148. mál, mælir og vog

Flutnm. (Steingrímur Jónsson):

Þegar hjer var til meðferðar í háttv. deild frv. til laga um löggilta vigtarmenn, þá var því skotið fram, að hepplegt væri, að ný skipun kæmist á um öll þessi mál hjer á landi, og samdar væru reglur um mæli og vog.

Svipuð till. og þessi var borin fram hjer á Alþingi árið 1911 af þáverandi 1. þm. Reykv. og núverandi 6. kgk. þm. (J. Þ.), og var tillaga þessi samþykt, en síðan var ekkert frekara við hana gjört. Í framsögu sinni gat hann um, á hvern hátt þessu máli hefir verið skipað hjer á landi, en síðan 1784 hefir gilt hjer um tilskipun, er þá var gefin út, um löggildingu á vog og mæli, og var þá gjörð sú skipun þar um, að vog og mælir skyldi vera rjett og löggilt af stofnun þeirri, er Kaupmannahafnarbær hafði til þessa. Þetta var í fullu samræmi við þáverandi danska löggjöf, og hjelst hún í Danmörku þar til 1907, að metralögin komust á. Þá var sett á fót sjerstök jústeringarstofa, og 1909 var gefin út reglugjörð fyrir hana.

Það er vafi á því, að við höfum nokkurn rjett til þess, að fá þar löggilt það, sem vjer þurfum, og jeg veit ekki, hvort þessari stofnun í Kaupmannahöfn er enn við lýði haldið, en tel líklegt að hún sje lögð undir jústeringarstofuna frá 1907. En, eins og jeg tók fram, þá dreg jeg í efa, að vjer Íslendingar höfum rjett til að nota hana, því hjer er ekki um sammál að ræða, heldur sjermál vort. Því er rjett, að gjöra hjer um nýja skipun, en jafnframt er því beint til stjórnarinnar, að koma fram með ný lagafyrirmæli fyrir næsta Alþingi.

Jafnframt þessu er því og beint til stjórnarinnar, að setja reglur um, hvernig rannsaka beri vogir og mæliker. Jeg veit að um þetta eru að minsta kosti engar nýjar reglur, og því mun það vera nokkuð á reiki, hvernig sýslumenn haga sjer, þegar þeir eru beðnir að rannsaka vogir, sem alloft ber við.