17.07.1915
Efri deild: 9. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 946 í B-deild Alþingistíðinda. (1051)

17. mál, skipun sjávarútvegsnefndar

Flutnm. (Guðm. Björnson):

Háttv. neðri deild hefir kosið sjávarútvegsnefnd. Þeirri nefnd er ætlað að íhuga öll mál, er sjávarútveg snerta.

Nú höfum við háttv. þingm. Vestm. (K. E.) komið okkur saman um, að rjett væri að kjósa slíka nefnd hjer í háttv. deild og komast í samvinnu við háttv. neðri deild.

Það er víst, að hjer koma mörg og merk mál fyrir þingið í sumar, er þessa atvinnugrein varða. Jeg vil t. d. nefna ráðstafanir gegn slysum og slysatryggingar, mál sem jeg hreyfði hjer í háttv. deild 1913, og vildi láta setja milliþinganefnd í, en eins og menn muna var það þá felt í háttv. neðri deild. Jeg spáði því þá, að málið væri ekki þar með fallið; það mundi ganga aftur. Og nú hefir Fiskiþingið, er setið hefir þessa daga, tekið það fyrir, talið það nauðsynja- og merkismál, er þurfi mikinn og vandaðann undirbúning.

Jeg minnist á þetta nú, af því að jeg, sem er hjer flutningsmaður að þessari tillögu, mun ekki hljóta sæti í nefndinni. Við erum, eins og kunnugt er, svo fáir, Heimastjórnarmenn, hjer í háttv. deild, að við komum ekki nema einum manni í nefndina, og háttv, þm. Ísaf. (S. St.) á þangað brýnt erindi. En af því að jeg fer ekki í nefndina, vil jeg beina þeirri ósk til hennar, að hún taki þetta mál fyrir, þetta stórþarfa og mikla vandamál.

Jeg er boðin og búinn til þess, að veita háttv. nefnd alla þá aðstoð, sem jeg get í tje látið.