24.08.1915
Efri deild: 41. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 974 í B-deild Alþingistíðinda. (1089)

114. mál, opinber reikningsskil

Ráðherra:

Háttv. fyrirspyrjandi verður að fyrirgefa mjer þó að jeg svaraði ekki framar en spurt var. Og sennilega , er það nokkuð hvatvíslegt af mjer, að svara þessari spurningu, því að þó jeg reyni það, hlýtur svarið að verða mjög efmælt. Fyrir það fyrsta verð jeg að segja það, að jeg veit ekki hvað lengi jeg sit að völdum. Og þó að jeg verði við völdin áfram, þá veit jeg ekki, hvort jeg get framkvæmt neitt í þessu máli, því að það er mjög mikið að gjöra í stjórnarráðinu um þessar mundir, þar eð ýmisleg störf vegna stríðsins leggjast allþungt á starfsmenn stjórnarráðsins. En ef jeg hefði föng á, væri mjer mjög ljúft að undirbúa þetta mál, en háttv. fyrirspyrjandi má ekki búast við miklum árangri.

Háttv. fyrirspyrjandi sagði, að þó ráðherra hefði ekki getað gjört þetta sjálfur, þá hefði hann getað látið starfsmenn sína í stjórnarráðinu gjöra það. En jeg hygg, að það hefði verið erfitt fyrir starfsmenn stjórnarráðsins, að ganga í þetta mál eftir nýár, því að á þeim tíma er mjög mikið að gjöra í stjórnarráðinu, þegar reglulegt Alþingi fer í hönd. Daglegar afgreiðslur fara þar stöðugt vaxandi, og að þeim verða starfsmennirnir að vinna til kl. 4 og mjög oft lengur. Það má að vísu segja, að eftir að jeg sigldi hafi verið lítið að gjöra í stjórnarráðinu, en það er augljóst; að eftir þann tíma var ómögulegt að búa þetta mál undir þingið og fá samþykki konungs til að bera málið fram á Alþingi.

Jeg ætla mjer ekki að fara í neinar kappræður við háttv. fyrirspyrjanda (S. St.) út af þessu máli, en skal að eins endurtaka það, að ef jeg sje mjer það fært, þá skal jeg reyna að gjöra tilraun í þessa átt.