14.09.1915
Efri deild: 62. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 987 í B-deild Alþingistíðinda. (1098)

157. mál, áfengisbirgðir landsjóðs

Fyrirspyrjandi (Karl Finnbogason):

Öllum er kunnugt, að alt það áfengi, sem ólöglega flytst hjer til landsins,er að rjettum lögum upptækt og eign landssjóðs. Hitt er og kunnugt, að eitthvað af áfengi hefir verið gjört upptækt, síðan bannlögin öðluðust gildi, svo landssjóði hefir áskotnast eitthvað, sem samkvæmt lögum er eign hans, og að líkindum einhvers virði.

Ekki veit jeg, hvort það er mörgum kunnugt, en heyrt hefi jeg það, að landssjóður eigi áfengi, sem honum hafi áskotnast með öðrum hætti.

Nú er mjer ókunnugt um, að nokkur grein hafi verið gjörð fyrir þessu áfengi. En þar sem það er þjóðareign, á þjóðin heimtingu á, að fá að vita, hvernig með það er farið, eins og hverja aðra opinbera eign, og því frekar, sem ýmsar tegundir áfengis verða ónýtar við geymslu, svo vakandi auga þarf að hafa á því, að slík eign verði ekki að engu.

Fyrirspurnin er flutt í þeim tilgangi einum, að fá leitt í ljós, hver þessi þjóðareign sje, og hvernig stjórnin hafi farið og ætli að fara með hana. Og þar sem fyrirspurnin er að mínu áliti full ljós, hirði jeg eigi um að fjölyrða frekar um hana, að sinni.