14.09.1915
Efri deild: 62. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 991 í B-deild Alþingistíðinda. (1100)

157. mál, áfengisbirgðir landsjóðs

Karl Finnbogason:

Jeg þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Það var ekki ætlan mín að deila við stjórnina. En jeg vil þó láta það álit mitt í ljós, að mjer finst eignin lítils virði, og ekki eyðandi húsaleigu undir það. (Ráðherra: Húsaleiga er engin). Mjer er sama, þótt svo megi telja, jeg held það sje best að hella því strax niður.

En má ekki t. d. selja lyfjabúðinni kognakið, úr því það hefir nú verið leyft?

En hvar er áfengið geymt? (Ráðherra: Í hegningarhúsinu).

Mjer fanst ekki svar hæstv. ráðherra nógu ljóst um það, til hvers landssjóður hefir keypt áfengi. Og hvers virði er það? Mjer er sagt það sjeu dýr vín, og alls 2–3 þúsund króna virði. Geta þau ekki skemst af geymslunni og væri ekki heppilegt að flytja þau út — að minsta kosti út fyrir landhelgina?