16.08.1915
Neðri deild: 34. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 23 í B-deild Alþingistíðinda. (1110)

108. mál, fjárlög 1916 og 1917

Bjarni Jónsson:

Jeg man eftir því, að fyrir tveim til þrem árum, þá varð mjer það á að minnast nokkurum orðum á fjárlaganefndina við framhald fyrstu umræðu fjárlaganna. Þá varð sá undarlegi hlutur, að jeg fekk miklar ákúrur fyrir þetta, og því læt jeg mjer þessa dýrkeyptu reynslu að varnaði verða og minnist ekki á fjárlaganefndina, þó að þess sje nú reyndar full þörf.

Það verður vafalaust marga að minnast hjer í dag, þar sem húsmóðirin, sem er deildin hjerna, þarf að finna að við ekki færri en þrjár ágætis eldabuskur, sem hún hefir haft í þjónustu sinni síðan síðast. Jeg skal ekki taka mjer það vandasama verk fyrir hendur að tala um alt, sem þessum stjórnum hefir á orðið. Það sem jeg ætla einkum að líta á, er fæðing hinnar yngstu starfakonunnar. Jeg ætla ekkert að tala um, hvernig hún hefir eldað, heldur um hvernig hún fæddist, því að það er svo með stjórnir öðruvísi en öll önnur dýr veraldarinnar, að þær eru sjálfráðar hvernig þær fæðast, og bera þá vitanlega ábyrgð á því, að það verði eigi með ósæmilegum hætti.

Hinn 20. október 1913 þröngvuðu ráðherrar annars ríkis konungi Íslands til þess, að setja skilyrði fyrir staðfesting stjórnarskrárinnar. Mjer dettur ekki í hug að trúa því, að konungur hafi sett slíkt skilyrði af sjálfsdáðum. Ráðherra Íslands, sem þá var, brást þá Alþingi, er hann ljet eigi þá þegar hart mæta hörðu og sagði af sjer. En kjósendur rjettu þó hlut vorn í kosningunum 1914, og næsta þing fór svo með málin, að öllu var borgið. Sá ráðherra, sem næstur fór með málið, gjörði vilja þingsins, og kom djarfmannlega og þó stillilega fram við konungsvaldið, og sagði af sjer, þegar konungsvaldið vildi eigi gjöra vilja þingsins.

Þá var þessu máli svo komið, að annarhvor aðilinn varð að láta undan, konungurinn eða þingið.

Nú veit jeg eigi, hvort íslenskir þingmenn telja konungsvaldinu heimilt að ganga á móti þingviljanum, en jeg tel því það gersamlega óheimilt. Því er raunar svo háttað eftir bókstaf laganna, að konungur hefir neitunarvald; en sú er reynsla allra þjóða, að slíkt getur leitt til hinna mestu vandræða. Því er það nú orðið að óskrifuðum lögum meðal þjóðanna, að konungsvaldið láti undan þingum, og það má telja óviturlegt, ef nokkurt þing lætur undan og heykist á rjettu máli.

Það, sem liggur til grundvallar fyrir þingbundinni stjórn, er kjósandavaldið, en þingmenn eru umboðsmenn kjósandanna og bera ábyrgð fyrir þeim, en konungurinn er ábyrgðarlaus og í rauninni ekki annað en nokkurs konar þýðingarlaust skjaldarmerki.

Hjer er nú ekki einungis um það að ræða að láta undan konungsvaldinu, því að konungurinn hafði ekki reynt að ganga á rjett okkar, heldur er málið þannig vagið, að það eru yfirráðakröfur annars ríkis, sem verða þess valdandi, að konungur fór eigi að vilja þingsins. En kröfur vor Íslendinga rýrðu að engu vald konungsins sjálfs yfir Íslandi. Það var því öllu sjálfsagðara að láta ekki undan, þegar málið var þannig vaxið, því að alt undanhald gat orðið til þess, að litið yrði á rjett vorn öðrum augum framvegis en hingað til. Þingið ljet sjer eigi heldur koma til hugar að beygja sig, og það beygði eig ekki fyrir konungi sínum, heldur valdhöfum annars ríkis. Og kröfur þessa ríkis voru ekki á neinum öðrum rökum bygðar en að rjetti okkar hafði verið haldið með röngu í 100 ár.

Nú stóð svo, þegar Sigurður Eggerz fór frá, að allar leiðir voru opnar. Auðvitað var sjálfsagt að fara beinustu leiðina. En beinasta leiðin var, að bíða fram til þings, því að það var auðsætt hverjum meðalhyggnum manni, að konungur mundi gjöra vilja þingsins, heldur en að fella stjórnarakrána og eiga það á hættu, að fá enga löglega stjórn. konungur hefði aldrei gjört þetta að kappsmáli, síst nú á þessum hættulegu tímum. Hann hefði sagt við hina dönsku ráðherra sína, að framvegis ætlaði hann að stjórna Íslandi og Íslendingum með Íslandsráðherra einum, og án nokkurar íhlutunar danskra stjórnvalda.

Að jeg hefi rjett fyrir mjer í þessu, er auðsætt hverjum manni, þegar litið er á það, hverjir tímar nú eru. Á þessum tímum hefði konungurinn ekki vogað sjer að leggja út í deilur við Íslendinga. Það er ekki langt síðan að ein slík deila endaði með skilnaði. Og það hefði mátt búast við, að hjer hefði farið eins, að sambandsslit hefði orðið milli ríkjanna, en undir því hefði konungur aldrei átt, og því hlaut hann að láta undan.

Þegar nú hæstv. ráðherra tókst stjórnina á hendur og bauðst til að leiða málið til lykta, með þeim hætti, sem danskir ráðherrar vildu, þá vann hann þjóð sinni óþarft verk, og það verk er þannig vaxið, að óvítt má það ekki vera. Þeir verða að vita það, sem fást við stjórnmál hjer á landi eftirleiðis, að slíkt verk má eigi oftar vinna, þótt þetta þing sje, því miður, svo saman sett, að það vill ekki víta verkið á þinglegan hátt. Jeg mun því nefna hjer í nokkum liðum ástæður mínar til að telja það vítavert.

Þá skal jeg fyrst geta þess, að með þessu verki er slegið úr höndum oss það vopnið, sem var nægilegt til þess, að vinna fullan sigur í þessu deilumáli okkar við Dani, og vopnið var það, að enginn meiri hluta maður tæki við stjórn, nema fram gengi þær kröfur, sem Sigurður Eggerz gjörði fyrir hönd Íslendinga, og ollu því, að hann lagði niður völdin.

Hefði þetta verið gjört, og enginn látið bilbug á sjer finna, þá hlaut konungsvaldið að láta undan, eins og jeg hefi áður tekið fram, því að ekki dettur mjer í hug, að nokkur maður úr minni hlutanum hjer á þinginu hefði þorað að taka við völdunum. Þetta vopn, sem jeg nú hefi nefnt, ónýtti hæstv. ráðherra, og því viti jeg verk hans.

Þá er annað, sem jeg tel vítavert, og það er þetta: Þingið hafði sett ákveðið skilyrði fyrir staðfestingu stjórnarakrárinnar. Það er því bein óhlýðni við Alþingi, að undirskrifa staðfestinguna, án þess að skilyrði þingsins væri öll tekin til greina, eða með nokkrum öðrum skilyrðum, hvort sem í þeim felst rjettindamissir eða ekki; það kemur í þessu sambandi ekkert málinu við. Jeg er ekki málaflutningamaður Dana, þó að mjer væri brigslað um það um daginn, og því segi jeg ekkert um það hversu mikil rjettindi eru mist. En jeg víti stjórnina fyrir að óhlýðnast þannig Alþingi Íslendinga. Það er þingið, sem á að ráða, en ekki ráðherrann, og þingið ætti að refsa fyrir óhlýðni við sig, og mundi gjöra það nú, ef það þekti sinn vitjunartíma. En þótt þingið í heild sinni vilji eigi víta þessa aðferð, þá víti jeg hana.

Þessi óhlýðni við þingið verður enn berari, þegar þess er gætt, að stjórnin sýndi því eigi svo mikla virðingu að kalla það saman á aukafund, til þess að reyna, hvort það vildi ganga að þessum nýju skilmálum, og þó höfðu margir þingmenn gjört það að kröfu sinni, að svo yrði gjört. Það mátti eigi minna vera en spurt yrði að því, hvort Íslendingar vildu láta undan í þessu höfuðmáli sínu, en svo mikið var ekki við haft. En þótt sumir þingmenn hafi nú gefið ró reiðinni og fyrirgefið stjórninni, þá víti eg þetta.

Þá kem jeg að 4. liðnum, sem stjórnin hefir gjört vítavert í þessu máli. Skilyrðin fyrir staðfestingu stjórnarskrárinnar voru stefnumál, sem kosið var um. Meiri hluti kjósanda vildi engin loforð gefa Dönum í þessu máli, enga samninga við þá gjöra í þessu máli og engar skuldbindingar undir gangast. Það er því auðsætt, að þessari stefnu mátti eigi breyta, án þess að spyrja kjósendur, með því að efna til nýrra kosninga, því að hvar er tryggingin fyrir kjósendur annars, að haldin sjeu við þá kosningaloforð, ef einstakir þingmenn hafa leyfi til að breyta um stefnu milli kosninga. Tryggingin er ekki til, ef svo er, og þá er ekki til neins að trúa neinum manni fyrir að fara með mál sín, ef hann hefir leyfi til þess að snúast skyndilega í lið með andstæðingunum. En hverir eru það, sem eiga valdið. Það eru kjósendurnir í landinu. Meiri hluta stjórn er gagnslaus og ótæk, og í raun og veru engin meiri hluta stjórn, hafi hún ekki meiri hluta kjósanda að baki sjer. Með atferli eins og þessu, sem hjer hefir verið haft í frammi, að nokkurir þingmenn úr meirihlutanum breyti um stefnu milli kosninga og gangi í lið með andstæðingum sínum í minni hlutanum, er í eðli sínu stjórnarbylting, og er fátt eða ekkert vítaverðara, og því víti jeg það.

Það er auðvitað, að þingmenn eiga ekki að vera bundnir við að fylgja kjósendum sínum, hvað sem líður sannfæring þeirra; en geti þeir ekki fylgt þeim lengur í einhverju stefnumáli, þá er ekki til fyrir þá nema eitt ráð, og það er að segja af sjer þingmensku. Gjöri þeir það ekki, þá eru kjósendur dregnir á tálar. Það hefir verið gjört í þessu máli, og það víti jeg.

Það var svo langt frá því, að þing væri rofið, að alt var gjört til þess, að láta kjósendur eigi vita um hvað fram fór. Þeim var meinað að láta uppi álit sitt á þingmálafundum. Þetta má heita að níðast á kjósendum. Og þótt aðrir láti sig þetta litlu skifta, þá leyfi jeg mjer að víta það.

Þessi atriði, sem nú eru talin, eru öll því vítaverðari, sem afleiðingar þeirra eru skaðsamlegri en vanalegar smáyfirsjónir stjórna. Það er miklu vítaverðara, heldur en þó að stjórnin taki fje úr landssjóði, sem henni er ekki heimilað af þinginu. Afleiðingin af óhlýðni við Alþingi er í fyrsta lagi sú, að öðrum er bent til kvæða að gjöra hið sama. Og hver verður afleiðingin af því, að Alþingi lætur sjer lynda, að einstakir menn snúi vopnin úr höndum þess; hún verður sú, að virðing erlendra mótstöðu manna okkar á þingi og þjóð er skert. Og þetta gjörir öll vor mál erfiðari í framtíðinni. Eða heldur nokkur, að Danir muni óttast mjög í næsta skifti, sem Alþingi vili halda á rjetti sínum? Nei, sannarlega ekki. Þeir senda bara heim til þess að vita, hvort ekki sjeu nokkrir menn í meiri hlutanum, sem vilja ganga í minni hlutann og mynda nýjan meiri hluta.

Önnur afleiðingin verður sú, að virðing landsmanna á þinginu eyðist, og uggur hlýtur að vakna hjá alþýðu um það, að landsvelferð geti orðið ljett á metunum oft og einatt.

Þriðja afleiðingin er sú, að menn venjast á að hlaupa í brott frá stefnu og skifta um meiri hluta á þinginu, án leyfis kjósanda. Ef þessu heldur áfram, verður mönnum ekki meira um að skifta um stefnu, án leyfis kjósanda, en þyrstum manni að renna niður mjólkursopa. Og jeg vil spyrja: Hver verður þá virðing kjósanda fyrir þinginu, þegar farið verður að telja það sómasamlegt að dylja kjósendur þess, sem verið er að gjöra í þeirra nafni? Þá verður þess ekki langt að bíða, að ráðherrann okkar verði talinn af kjósendum að vera ranglátur ráðsmaður.

Þess er fyrst að krefjast, að ekki sje viðhöfð nein launung í opinberum málum. Kjósendur eiga heimtingu á að fá að vita, hvað gjörist, því að þeir eiga fyrir því að verða, ef eitthvað ber út af.

Jeg skal svo ekki lengja umræðurnar mikið hjer eftir. Jeg hefi gjört mjer það að skyldu, að vera stuttorður og setja orð mín skýrt fram og skilmerkilega. Þótt jeg þykist sjá inn í sálir margra manna hjer, að þeir telji mig ekki fara rjett með, þá kemur sá dagur, að þeim verður kent það með harðri hendi, að svo er. Íslenskir kjósendur eru ekki svo skyni skroppnir, að þeir láti lengi bjóða sjer annað eins og þeim hefir nú verið boðið. Jeg skal engu spá um það, að það verði við næstu kosningar, því að nú hefir þessi stefnuleysisstefna náð miklu tangarhaldi á hugum manna. En því vil jeg spá, að sá tími kemur, að ný bára rís, sem skolar henni burt og öllu, sem henni fylgir.

Þótt jeg hafi talið nokkur atriði, sem við koma fæðingu stjórnarinnar, þá er mjer ekki skylt að rekja feril. hennar síðan, enda er hann stuttur.— Að eins vil jeg minnast á eitt atriði út af skírnarræðu þeirri, sem haldin var yfir henni hjer á dögunum. Á jeg þar við öryggistillögu þá, sem borin var upp hjer í deildinni, og þar sem látið var í ljós, að vilji þingsins væri óbreyttur frá í fyrra, þótt öðruvísi hafi farið í ríkisráði Dana, en það hafði ætlast til. Þetta var nóg til þess að slá varnaglann, því að engin viðurkenning var fengin fyrir því, sem gerðist í ríkisráðinu, af Íslendinga hálfu. Allir vita, að ráðherrann einn hafði ekki vald til að gefa þá viðurkenningu, sjerstaklega þar sem hann var ekki skipaður í umboði þingsins. Það, sem hann gjörði, var því ekki bindandi fyrir landið. Tillagan var nægileg til að vernda allan vorn rjett, snúa sigurinn úr hendi Dana og koma fram þeirri upphaflegu tilætlun, að Íslendingar fengju því framgengt, að uppburður sjermálanna fyrir konungi yrði viðurkent íslenskt sjermál, sem ekki kæmi öðrum við en þeim og konunginum. Undirtektirnar undir tillöguna urðu eins og allir vita. Að rjettu lagi hefði stjórnin átt að segja: »Þessa tillögu mun eg samþykkja og bið alla mína fylgismenn að gjöra hið sama. Jeg er ekki »infallibilis«. Þótt jeg sje sannfærð um, að fyrirvaranum hafi verið fullnægt; má vera að mjer skjátlist það. Þess vegna er allur varinn bestur, að samþykkja tillöguna, því að það getur aldrei sakað«. — Jeg tel illa farið, að stjórnin skyldi ekki gjöra þetta. Henni gat ekki orðið það til neins meina, þar sem allir þeir, er að tillögunni stóðu, báru það fram, að í henni ætti ekki að felast neitt vantraust. Það var ljett fyrir stjórnina að gjöra þetta, og mjer sárnaði að hún skyldi ekki gjöra það.

Þótt svo kunni að vera, að einhverjar varnir finnist í þessu máli, þá er það ekki að þakka meiri hlutanum hjer að neinu leyti, því að bæði stjórnin og meiri hluti þings hafa gjört sitt til að leiða málstað vorn í vafa, í staðinn fyrir að leiða hann til ljóss og sigurs. Jeg er ekki að segja, að við sjeum varnarlausir gagnvart Dönum, þótt tillagan væri feld, einkum þar sem jeg fjekk alla flokka til að lýsa því yfir, að vilji þeirra væri óbreyttur í þessu efni frá því í fyrra, og þar sem alþjóðarjettur gjörir ekki kröfu til að þingvilji komi fram í sjerstöku formi. Þar við bætist, að Danir vissu, að hverju ráðherrann mátti ganga og að hverju ekki. Þeir hafa því ekki verið bona fide, heldur mala fide í þessu máli. En hvað sem því líður, þá er það vítavert af stjórninni, þar sem allir voru í rauninni sammála um kjarna málsins, að hún vildi ekki styðja að því, að yfirlýsingin væri gefin í sterkara formi. Þá hefði engum dottið í hug að vjefengja rjett landsins.