16.08.1915
Neðri deild: 34. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 39 í B-deild Alþingistíðinda. (1116)

108. mál, fjárlög 1916 og 1917

Sigurður Eggerz:

Jeg hefi eiginlega engu að bæta við ummæli hæstv. ráðherra. Jeg skal taka það fram, að þegar jeg var í Kaupmannahöfn, þá átti jeg ítarlegt tal um þetta mál við mann þann, sem hæstv. ráðherra nefndi, cand. jur. Magnús Jónsson. Hann hefir notið styrks úr ríkissjóði til þess að kynna sjer hlutafjelagalöggjöf og. er sjerlega gáfaður og samviskusamur maður. Jeg sagði honum, að íslensk löggjöf í þessu efni yrði auðvitað að vera miklu óbrotnari en útlend, og skildi hann það og lofaði að undirbúa málið gegn 500 kr. borgun. Með símskeyti heimilaði jeg formanni stjórnarskrifstofunnar í Khöfn, eftir að jeg var kominn heim, að greiða þessar 500 kr., og bjóst jeg því við, að frumv. mundi tilbúið í maímánuði, eins og okkur Magnúsi Jónssyni hafði talast til. Jeg áleit þetta hyggilegasta aðferð, þar sem völ var á þessum manni, að nota hann. Því jeg er í engum vafa um, að þekking hans mun koma oss að miklu haldi í þessu máli, sem er allvandasamt. Nú hefir hæstv. ráðherra upplýst það, að frumv. hafi ekki komið, og er jeg satt að segja hissa á því, en veit ekki hvað veldur.