16.08.1915
Neðri deild: 34. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 42 í B-deild Alþingistíðinda. (1120)

108. mál, fjárlög 1916 og 1917

Magnús Kristjánsson:

Jeg skal játa það að fyrirspurn minni hefir verið svarað eftir föngum, en þó ekki svo, að mjer sje algjörlega fullnægt. Mig langaði til að vita upp á víst hvað verðið hefði verið. Mig minnir að það væri ekki nema 4500 kr., en ekki er jeg þó viss um það. Hæstv. fyrv. ráðherra (S. E.) gat þess, að þetta væri ekki nýtt, því að slík sala hefði farið fram á fleiri jörðum, þegar svipað hefði verið ástatt. Jeg er því ókunnugur, en þó er mjer nær að halda, að ekki. sjeu mörg dæmi til, sams konar þessu.

Jeg veit að það er til lítils að hreyfa þessari sjerstöku sölu nú, því að hún er um garð gengin, en hins vegar gæti þetta verið til viðvörunar fyrir stjórnina framvegis. Það er betra að slíkt sje athugað, því að jeg verð að segja það, að þetta er svo gífurlegur munur, að manni blöskrar hann á tveim svo líkum jörðum á sama stað. Það væri því æskilegt, að stjórnin kynti sjer slík mál vel framvegis og jafnframt að hún væri varkár um það, að þeir menn væru matinu vaxnir, sem það eiga að framkvæma, því að í þessu tilfelli virðist sumum vafi á að svo hafi verið.