16.08.1915
Neðri deild: 34. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 43 í B-deild Alþingistíðinda. (1121)

108. mál, fjárlög 1916 og 1917

Bjarni Jónsson:

Mjer kemur ekki við þetta jarðasölumál, en skrítið þykir mjer, ef það á nú að sannast hjer á þingi, að Hrafnagil sje 28 þús. kr. virði. Jeg hefi aldrei heyrt að það væri það, og eftir því sem sýslunefnd segir — og jeg hefi reyndar komið þar líka, þá er fjarri því. Og þótt nokkur áhöld kunni að vera um þá jörð og Espihól, þá er bæði Hrafnagil minna, og svo er jarðasala hjer á landi oft svo vaxin, að ekki er mikið að fara eftir henni. Jeg segi þetta ekki af því, að mjer samhent stjórn sat að völdum þegar þetta gjörðist, heldur af hinu, að jeg veit dæmi til að kot hjer á Álftanesi hefir gengið kaupum og sölum fyrir 18–20 þús. kr., og var það þó ekki lífvænlegt til ábúðar: Þegar farið er að skifta jörðum við húsaskrokka í kaupstöðum, þá er oft það verð nefnt, að jeg vil ekki marka sannvirði Hrafnagils eftir því. Sú jörð er hæfilega metin á 4–8 þús. kr.

Hæstv. ráðherra svaraði mjer stillilega, eins og jeg talaði líka í hans garð, og mun jeg halda um það uppteknum hætti.

Það var auðvitað alveg rjett hjá honum, að það sem jeg vítti og afleiðingarnar af því, er alt saman afleiðing af því, að jeg tel ekki fylgt skilyrðum þingsins 1914, og hefi jeg áður sagt í hverju það liggur. En þegar þetta er borið saman við önnur orð hæstv. ráðherra, þar sem hann segir að þingmenn sjeu sannfærðir um að þeir hafi ekki breytt skoðun sinni málinu, þá mótmæli jeg því. Því að í vor voru margir þingmenn í okkar flokki, sem þá sögðu að þessi kjör væru önnur en þingið krafðist, og þess vegna vildu þeir hafa aukaþing. Þetta sýnir það, að þeir hafa þá ekki til fullnustu verið búnir að skifta um og öðlast þá skoðun, sem nú hafa þeir. Það er rjett, að málið er nú útkljáð á þessu þingi, en jeg gjörði grein fyrir því í fyrri ræðu minni, hvers vegna jeg þarf ekki að beygja mig fyrir því. Það eru fleiri en hæstv. ráðherra, sem hafa vikið frá sinni skoðun í þessu máli, og eru því ekki rjettir dómarar í sjálfra sín sök. Þótt höfuðin sjeu hin sömu, eru hjörtun önnur.

Hæstv. ráðherra taldi það ríkt kveðið að orði hjá mjer, að kalla þetta stjórnarbyltingu. Jeg sagði að það væri það í eðli sínu og þess vegna líka í afleiðingunum. Hjer rjeð ekki þingið, heldur konungsvaldið. Það tók upp þann andarlega sið, að vjefengja að rjett væri farið með skýr og vafalaus skilyrði þingsins, og þetta hlýtur að hafa verið eftir einhverjum . brjefum hjeðan að heiman, sem send hafa verið á bak við rjetta hlutaðeigendur. Það er sem sje einkennilegt við Íslendinga, eins og aðrar úrættaðar mentaþjóðir, eins og t. d. Forn-Grikki, að með þeim eru ýmsir menn því fegnastir, ef þeir geta spilt fyrir sínu eigin landi og þjóð. Þetta var alþekt í Rómaborg allan keisaratímann, að þar gengu Grikkir í hópum og spiltu fyrir löndum sínum, og sama er nú um oss í Kaupmannahöfn. En þá tekur þó skörin að færast upp í bekkinn, er menn svífast þess jafnvel ekki, að rangherma eftir löglegum fulltrúum þjóðar sinnar við konung sinn. Út af þessu spratt svo það; er konungur kvaddi menn af báðum flokkum til skrafs og ráðagjörða við sig um málið. Þetta var svo einkennileg aðferð, að við henni átti í rauninni ekki nema eitt svar. Ef hann hefði viljað fá menn til tals við sig í öðru skyni, t. d. því, að vita hvort þeir vildu ekki taka að sjer stjórnina, þá var ekki nema sjálfsagt að sinna því, en þegar svona stóð á, átti enginn að fara. En þar sem mennirnir þó fóru, þá liggur stjórnarbyltingin í því, að með því urðu fleiri konungkjörnir, en vera áttu, og sitja nú nokkrir af þeim hjer í neðri deild. Þetta er því ekki ofhart að orði kveðið, og jeg vona að það sje rjett, að hjer sje í raun og veru raskað stjórnarfyrirkomulagi landsins.

Hæstv. ráðherra sagði, að aukaþing hefði verið óþarft og þingrof ekki getað átt sjer stað, þegar stjórnin var sannfærð um að gjörðir hennar væri í samræmi við tilætlun þingsins. Jeg hefi áður sagt, að í vor voru margir þm. flokksins á öðru máli og vildu því hafa aukaþing.

Þá skal jeg stuttlega minnast á það, sem hann sagði um þingsál.till. á dögunum. Honum þótti tvísýn björg í henni. Jeg trúi varla að hann segi þetta í alvöru, því að það er þó einsýnt, að ef Alþingi hefði lýst yfir því, að skilyrðum þess hefði eigi verið breytt með þess vilja, þá var þar með snúið vopnið úr höndum danskra ráðherra, sem leika vildu á það.

Það er viðurkent að alþjóðalögum, að þjóðir verða ekki skuldbundnar, nema annaðhvort að yfirlýstum vilja þeirra, eða með þegjandi samþykki, og einstakur maður gat ekki skuldbundið þingið, hverju sem hann lofaði, heldur þyrfti samþykki þess á eftir. Hann gat ekki heldur fallist á það að það hefði verið óþarft og rangt af sjer að vera á móti till. Það var ekki rangt af því, að það sje rangt að halda sannfæringu sinni, heldur af því, að enginn getur haft þá sannfæringu, að svo tryggilega sje um hnútana búið, að ekki megi tryggilegar verða. Jeg get því ekki tekið aftur neitt, sem jeg sagði um þetta. Rök mín standa enn óhrakin.

Þá vil jeg að lokum benda á það, að að jeg skil ekki að vopnið, sem hæstv. ráðherra talaði um, hafi verið svo tvíeggjað, sem hann vildi halda. Því að þótt í hart hefði farið, hvað gat þá Íslendingum verið að vanbúnaði? Við lifum ekki á styrk Dana. Nú hefðum við einmitt þurft þess við, að þeir vernduðu okkur, til þess að ein ófriðarþjóðin taki ekki skip vor að ástæðulausu og láti þau sigla hvert af öðru þvert úr leið til Skotlands og leggi þannig hömlur á íslenska verslun. En hvað verður? Auðvitað ekkert annað en það, að þetta litla ríki getur ekki tekið að sjer að verja Ísland, svo að það gjörir ekkert til, þótt samverunni sje slitið. Við erum aldrei varbúnir við því, og þess vegna mátti vita, að konungsvaldið myndi láta undan, og þótt það gjörði það ekki, þá máttum við samt vera óhræddir. Og það er undarlegt að heyra unga menn tala um að alt sje ófært og sjá alstaðar ljón á veginum, einmitt þegar þeir eiga að fara að halda fram drengilega málstað landsins. Þessir menn, sem eiga að bera fram hugsjónir þjóðarinnar til sigurs, þeir gjöra það sannarlega ekki með vonleysi og hræðslu. Og ef þetta fer að verða alment við hvert tækifæri, þá verð jeg að segja það, að jeg vildi feginn hverfa frá því Sisyfosar verki, að velta upp þeim steini, sem alt af hrapar niður, þegar hann er kominn allra efst á brúnina. Jeg væri uppgefinn á því fyrir löngu, ef jeg vonaði ekki sífelt að þeim fækki, sem nú eru á líku reki og jeg, og aðrir betri komi í okkar stað. En þá er ilmur daganna horfinn fyrir mjer, ef þessir ungu menn reynast vera dauðir áður en þeir fara að reyna sig í lífinu.