16.08.1915
Neðri deild: 34. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 48 í B-deild Alþingistíðinda. (1123)

108. mál, fjárlög 1916 og 1917

Matthías Ólafsson :

Jeg hefi ekki ætlað mjer að verða langorður um þetta mál. Jeg vildi að eins hafa vikið nokkrum orðum að háttv. þm. Dal. (B. J.), en sje mjer til mikilla leiðinda, að hann er hvergi nærri. Ræðan, sem hann hjelt hjer áðan í háttv. deild, var bygð á algjörlega röngum grundvelli, eða rjettara sagt á engum grundvelli, þar sem hann hjelt því fram að kosningarnar 1914 hefðu snúist um fyrirvarann. Þetta er ekki rjett og algjörlega gripið úr lausu lofti. Kosningarnar 1914 snerust einungis um samþykt stjórnarskrárinnar á grundvelli opna brjefsins frá 20. okt.1913. Þeir einir voru kosnir, sem lofuðu að greiða stjórnarskrárbreytingunni atkv. vífilengjulaust. Þingið hafði því ekkert umboð frá kjósendum til þess að koma fram með fyrirvarann. Þetta er líka á hvers manns vitorði, að frá því í okt. 1913 þá snerist alt um það, hvort samþykkja ætti stjórnarakrána eða ekki.

Eitt er víst, að öll ræða háttv. þm. Dal. (B. J.) var ekkert annað en barátta við misheyrn og misskilning. En það á ekki að þolast, að slíku sje haldið fram mótmælalaust í hæstv. deild, vegna þess, að það kynnu að finnast menn, er læsu Alþingistíðindin, sem yrðu til þess að trúa þessu ef það fengi að standa þar ómótmælt. Ef hægt er að fá meiri hluta í ár, þá er hann alveg jafngóður og meiri hlutinn frá því í fyrra. Og að tala um það, að kjósendum hafi verið gjört rangt til með þessu og vilja þeirra verið traðkað, er bara fjarstæða, því þeir hafa alls engan vilja látið í ljósi í þessu efni.

Eitt atriði, er háttv. þm. Dal. (B. J.) tók fram, var alveg laukrjett, nefnilega að ekki má vera óvítt, ef ráðherra gjörir eitthvað það, er brýtur bág við vilja þingsins. Ef ráðherra fullnægir ekki ákvæðum þeim, er í lögunum standa, þá ber þinginu að vita slíkt. Mætti í þessu sambandi nefna lög nr. 25, 2. nóv. 1914. Í þeim stendur að grískudocentsembættið skuli veitt samkvæmt tillögum háskólaráðsins. Nú er altalað að háskólaráðið hafi ekki lagt með veitingu þessa embættis, og sje það rjett hermt, þá verð jeg að álíta fulla ástæðu til þess að láta í ljós óánægju sína, og það því fremur, sem þessi stjórnarráðstöfun hefir orkað meira tvímælis út um land alt en flestar aðrar stjórnarráðstafanir, sem nýlega hafa verið gjörðar.