16.08.1915
Neðri deild: 34. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 49 í B-deild Alþingistíðinda. (1125)

108. mál, fjárlög 1916 og 1917

Sigurður Eggerz:

Út af ræðu háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.), þá vil jeg taka það fram, að það er ekki rjett hjá honum, að embætti þetta hafi verið veitt á móti tillögum háskólaráðsins. Það er rjett hjá honum, eins og hann tók fram, að samkvæmt lögunum, þá á að veita þetta embætti eftir tillögum háskólaráðsins. Það var að eins einn umsækjandi, sem sje háttv. þm. Dal. (B. J.). Jeg sendi umsókn hans til háskólaráðsins, en það neitaði að leggja nokkuð til eða frá um veitingu embættisins. En það kom fram tillaga frá heimapekisdeildinni, þar sem að eins einn maður lagði eindregið með að embættið yrði veitt umsækjanda, en tveir lögðu á móti, og vildi annar þeirra skjóta því til háskólaráðsins. En þar sem nú háskólaráðið vildi ekkert um þetta segja, þá var sjálfsagt að veita þessum manni embættið. Auk þess mun flestum þingmönnum hafa verið kunnugt fyrir fram, að einmitt þessi maður ætlaði sjer að sækja um þetta embætti. Annars get jeg sagt háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) að þetta »eftir tillögum háskólaráðsins« má skýra á fleiri vegu en einn, t. d. getur verið álitamál, hvort ekki er nóg að leita umsagnar háskólaráðsins. En þessarar skýringar þarf reyndar ekki með í þessu tilfelli, þar eð háskólaráðið vildi engar tillögur um þetta gjöra og umsækjandi var að eins einn.