16.08.1915
Neðri deild: 34. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 50 í B-deild Alþingistíðinda. (1126)

108. mál, fjárlög 1916 og 1917

Matthías Ólafsson:

Jeg er þakklátur háttv. þm. V.-Sk. (S. E.) fyrir skýringar þær, sem hann hefir gefið í þessu máli. Háttv. deild hefir nú fengið að heyra að orðasveimur sá, er gengið hefir um veitingu grískudocentsembættisins, er rjettur, þar eð háskólaráðið hefir ekki lagt til með veitingu embættisins. Í því liggur ekkert annað en að Háskólinn vill heldur að rúmið sje autt en að það sje skipað þessum manni. Aðra ályktun er ekki hægt að draga af því. Mjer finst það vera hárfínar lögfræðiskýringar, hvort ráðherra á að veita embættið, eða ekki, þegar hann getur ekki fengið neinar tillögur frá háskólaráðinu, en jeg veit að jeg hefði ekki veitt embættið undir þessum kringumstæðum, og það því síður, sem engar knýjandi ástæður voru til þess.