20.08.1915
Neðri deild: 38. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 54 í B-deild Alþingistíðinda. (1135)

108. mál, fjárlög 1916 og 1917

Benedikt Sveinsson :

Mjer þótti miður, er jeg heyrði það, að ræða ætti fjárlagafrumv. með öðrum hætti en verið hefir mörg undanfarin ár. Jeg verð því að taka undir með háttv. þm. Ak. (M. K.) og öðrum þeim þingmönnum, er talað hafa á líkan veg. Og þó að reglan, er gilt hefir, komi ekki fyllilega heim við bókstaf þingskapanna, þá hefir þessi venja komist á, vegna þess að nauðsyn hefir borið til þæs. Fjárlögin eru lang yfirgripsmesta málið, er liggur fyrir þinginu og ekki við það hlítandi, að svo margbrotið mál liggi í einu lagi fyrir til umræðu.

Hjer er í raun og veru um mörg mál að ræða, t. d.: strandferðir, vegagjörðir, vitamál, búnaðarmál, mentamál, vísindi og listir o. fl. Það er alls óvíst, að það myndi stytta umræðurnar, þó að fjárlagafrumv. yrði tekið fyrir í einu lagi, enda er það undarleg kenning, ef þing ætlar að halda því fram, að það sje skaði, að málin sjeu rækilega rædd. Jeg hugði þó, að þingmenn hefðu málfrelsi og að þeir væru sendir á þing til þess að tala um mál þau, er fyrir liggja, til þess að þau skýrðust við umræðurnar og þingmennirnir gætu á þann veg fengið sem glöggastan skilning á þeim.

En að þenjast yfir öll fjárlögin í einni bendu hygg jeg að verði til þess, að ræður verði svo langar og slitróttar, að þingmönnum tæki að leiðast að hlýða á þær, svo að bekkirnir verði auðari en verið hefir. Það væri nærri verra að hafa þetta þannig en að taka dagskrá með 10 málum á og ræða þau öll í einu. Það myndi ef til vill spara tímann, en ég efast um, að úrlausn málanna yrði betri með þeim hætti.

Jeg vil því eindregið mæla með því, að sú venja, er tíðkast hefir, haldist nú eins og áður, enda mun það happadrýgst.