20.08.1915
Neðri deild: 38. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 57 í B-deild Alþingistíðinda. (1141)

108. mál, fjárlög 1916 og 1917

Framsögum. (Pjetur Jónsson); Jeg skal byrja á því að taka það fram, að þessi skifting á umræðunni um fjárlögin er ekki að mínum vilja, þótt jeg, hefði ef til vill haft ástæðu til þess, frekar en nokkur annar að óska eftir henni. Ef því niðurstaðan af henni verður sú, að fjárlögin verða afgreidd hjeðan úr deildinni tveim dögum seinna en ella, þá þvæ jeg mínar hendur.

Svo skal jeg leyfa mjer að geta þess fyrst af öllu, að villur hafa orðið í breytingartillögum nefndarinnar. Fyrst og fremst í brtt. við 12. gr., þar sem víxlað er um tölur, og er það aftur leiðrjett með sjerstakri brtt. frá nefndinni. Það er styrkur til Jóns læknis Kristjánssonar, og hafa þar orðið víxl á 17. og 19 lið. Svo er prentvilla í 45. lið, en hún hefir ekki mikla þýðingu. Aftari talan í efri línu á að vera 40,400 kr. Loka á í 92. lið að standa »Eiríksson«, í nafni Gísla pósts.

Viðvíkjandi yfirliti því, sem eg reyndi að gefa á dögunum við framh. 1. umr., vil jeg geta þess, að jeg býst við að jeg hafi þá tæplega lagt nóga áherslu á umframgreiðslur þær, er sjálfsagt má búast við í áætlunartölum fjárlaganna. Þær verða líklega með meira móti.

Þetta sjest glögglega, ef miðað er við reynsluna að undanförnu. Það hefir komið í ljós, bæði við landsreikninginn og fjáraukal. fyrir árin 1912 og 1913, að umframgreiðslur hafa orðið svo miklar, að nefndin hefir fundið ástæðu til að koma beinlínis fram með aths. til stjórnarinnar um að hafa áætlunina betri að þessu leyti eftirleiðis. Einnig hefir verið bent á þetta af yfirskoðunarmönnum. — Jeg segi þetta ekki af því, að jeg hafi umboð fjárl.nefndar til að veita stjórn- inni ákúrur fyrir þetta, enda hefir fjár- laganefnd einmitt sjálf oft áður klipið af svo kölluðum »kalkulatoriskum« póstum, svo að þeir hafa ekki hrokkið, heldur bendi eg á það af því, að það hefir áhrif á fjárhagsáætlunina, einkum. nú, er dýrtíðin gjörir það að verkum, að margur kostnaður verður hærri en ella, og held jeg að sá munur verði meiri en stjórnin hefir tekið til greina. Jeg get t. d. ekki sjeð betur en að upphæðin til ellistyrktarsjóðs og eftirlauna sje áætluð heldur lágt.

Jeg hefi því miður ekki talað við stjórnina um þetta, en mjer þykja 167 þús. kr. bæði árin, eða 83 ½ þús. á ári, vera nokkuð lítil upphæð í 18. gr. Þar af ganga til eftirlauna, samkvæmt athugas. við stjórnarfrumv., um 70,000 kr. á ári, sundurliðað til nafngreindra manna. Svo er það, sem til ellistyrktarsjóðs fer, og mun það vera nálægt 20 þús. kr. á ári. Eftir því hefði fjárveitingin ekki mátt minni vera en 90 þús. kr. á ári eða 180 þús. kr. á fjárhagstímabilinu. Jeg hefi ekki gætt að þessu fyrr en nýlega og ekki haft tíma til að bera mig saman við stjórnina um þetta.

Jeg gat þess við framhald 1. umr., hve brtt. nefndarinnar næmu miklu í hækkunum og lækkunum á upphæðum fjárlaganna og fer ekki út í það.

Þá vil jeg geta þess, að nú hefi jeg hugsað mjer það fyrirkomulag á framsögunni, að tala ekki um hverja brtt. fyrir sig, heldur skírskota þar til nefndarálitsins. Það er heppilegra, að háttv. þm. lesi þess konar athugasemdir heima hjá sjer eingöngu en að þeir þurfi í viðbót að hlusta 25 í hóp á framsöguræðu um einstök atriði, sem ekki bætir neinu verulegu við það, sem í álitinu stendur. Aftur getur það verið, að einhverjum þyki skýringarnar í nefndarálitinu ekki nógar, og er þá eðlilegt að fyrirspurnir sjeu gjörðar í umræðunum, og er þá hægt að svara þeim sjerstaklega.

Mig hefði langað til að gjöra nokkuð meira í yfirlitsáttina, því að það eru ekki einungis tekjurnar, sem liggja fyrir í þessum kafla, heldur og nokkur hluti af gjöldunum.

Fyrir tekjunum er nú svo gjörð grein í nefndarálitinu, að jeg hygg, að jeg þurfi þar litlu við að bæta. Tekjuáætlunin er svo, að hún er alt af álitamál, en það þykist jeg sjá, að hún er tæplega jafn-ábyggileg nú og hún hefir að undanförnu verið, þegar ekki var hægt að sjá annað en að gott árferði lægi fram undan. En væru ekki óvenjulegir skuggar í lofti, þá væri hún fullkomlega eins varleg og vant er. Annars er það nú svo um tekjuáætlunina, að það, sem lagt er til að hækka á einum pósti, það er þá aftur lækkað á öðrum, svo að breytingin er sama sem engin.

Jeg hefi gjört dálítinn samanburð á frumv. stjórnarinnar og núgildandi fjárlögum, hvað gjöldin snertir. Og það hefir nú orðið svo, að þó að hæstv. stjórn hafi viljað halda sparlega á, þegar hún bjó til frumvarpið, þá hefir hún þó orðið að taka upp í frumv. hækkanir á gjöldum frá núgildandi fjárlögum, sem nema brúttó 540 þús. kr. Þar frá dregst svo ýmislegt, sem hún hefir lagt til að spara, frá því sem nú er veitt, og nemur það um 240 þús. Hækkunin á útgjaldahliðinni verður því alls nettó 300 þús. kr. En ýmsir af þeim liðum, sem stjórnin hefir viljað spara, verða þó því miður ekki til neins sparnaðar. T. d. er lagt til að lækka styrkinn til heilsuhælisins á Vífilsstöðum, en stjórninni er þó vitanlegt, eins og sjest á athugasemdum hennar, að þar verður í staðinn stór hækkun, og svo er um ýmsa fleiri af þessum póstum. Þeir eru bersýnilega of lágt áætlaðir af stjórninni.

Um samanburð á frumv. stjórnarinnar og tillögum nefndarinnar er það að segja, að þar standast mikið til á hækkanir og lækkanir. Sparnaðartillögurnar nema 15 þús. kr. meira en hækkunartillögurnar. En ýmsar hækkanir, sem nefndin gjörir, voru fyrirsjáanlega óhjákvæmilegar, og hefðu helst átt að standa í frumv. stjórnarinnar. Það var engin ástæða til að kasta slíku á bak fjárlaganefndar, eins og t. d. hækkuninni til heilsuhælisins, sem jeg mintist á áðan, og gjört var ráð fyrir í fyrra.

Líkt er ástatt með geðveikrahælið. Sú viðbót var fyrirhuguð áður og nauðsynlegt að byrjað yrði á henni á næsta fjárhagstímabili.

Jeg ætla hjer ekki í neinn meting, heldur vildi jeg sýna það, að sparnaðartillögur nefndarinnar eru raunar talsvert verulegri en mismunur hækkana og lækkana sýnir.

Þá skal jeg að eina minnast í örfám orðum á eina af brtt. nefndarinnar. Hún er um lækkun á Alþingiskostnaðinum. Jeg skal geta þess um hana, að fjárlaganefndir beggja deilda nefndu til sinn manninn hvor, til þess að líta yfir og rannsaka Alþingisreikninginn 1913. Kom það þá í ljós, að hann mun ekki allur hafa getað heimfærst til þess árs, heldur að sumu leyti til fleiri ára. Ýmislegt var þar af, sem þessum rannsóknarmönnum þótti ýmist óþarfakostnaður eða óþarflega hátt reiknaður, og menn vita, að sumpart verður komið í veg fyrir slíkt framvegis. Jeg veit ekki hvort athugasemdir út af þessari rannsókn muni geta legið fyrir þessu þingi, en hugaanlegt er þó, að það gæti orðið, og gætu menn þá glöggvað sig á þeim og gjört sjer ljóst, hvernig því er varið að kostnaðurinn varð svo geysihár þetta ár, og ef til vill komið með einhverjar tillögur til bóta á fyrirkomulaginu.

Jeg hafði búið mig undir að minnast á fleiri liði, en þar sem ekki er nema þessi kafli til umræðu, þá sleppi jeg því.

Þá eru þær fáu brtt., sem fram hafa komið við þenna kafla frá öðrum en nefndinni. Jeg hefi ekki orðið var við, að þær sjeu nema við 12. gr., og er sú fyrsta á þgskj. 333 frá háttv. 1. þm. (G.-K. (B. K.) og háttv. 1. þm. Árn. (S. S.). Önnur er frá háttv. þm. Snæf. (S. G.) á þgskj. 382, og þriðja frá háttv. þm. Dal. (B. J.) á þgskj. 393. Þær eru allar þess efnis, að fara fram á styrk handa einstökum hreppum til að leita læknis, á sama hátt og fordæmi eru til á fjárlögum nú. Um brtt. á þgskj. 333 má segja það, að hún er hófleg, og ef farið er út í það á annað borð, að veita slíkan styrk, þá er hægra að ganga inn á hana en sumar aðrar.

Nefndin hefir nú athugað þessar tillögur að nokkru leyti og komist að þeirri niðurstöðu, að ekki sje gjörandi að fjölga þeim að svo stöddu, er þessa styrks njóta, nema þá með því, að læknaskipunarnefnd hefði fjallað um þetta mál í heild sinni fyrir land alt. Það eru svo margvíslegar tillögur, sem fram koma um slíkt. Sumir vilja fá styrk til að leita sjer lækna, aðrir til að bæta launakjör læknis síns, og enn aðrir til að reisa lækninum bústað, hvert um sig í því skyni að geta haldið lækni kyrrum í hjeraðinu. Um þetta alt má margt segja, og ef gæta ætti sanngirni og koma samræmi í það alt saman, þá veitti ekki af sjerstakri nefnd, ef eitthvað ætti verulega að bæta úr því. Nefndin hefir því ekki getað fallist á neina af þessum tillögum. Það væri líka hægt að nefna ýmsa hreppa, sem líklega eru verr staddir að þessu leyti en nokkur þeirra, sem hjer er um að ræða, t. d. eins og austur á Hólsfjöllum, þar sem fyrst og fremst er nærri dagleið undir öllum kringumstæðum til næsta læknis, og það yfir öræfi að fara, og svo í öðru lagi er það ekki nema með höppum og glöppum, að nokkur læknir sje í Öxarfirði. Þá mætti og nefna Flatey og Grímsey. Svo að ef litið er á nauðsynina, þá er hjer áreiðanlega nóg efni fyrir fasta þingnefnd.

Þá er ein brtt. um smátillag til sjúklings á fábjánastofnun erlendis. Nefndin hefir athugað þetta og ekki getað fallist á, að það standi í sambandi við neitt það, sem þingið geti talið sem sitt hlutverk. Sama er að segja um styrk til Magnúsar Guðlaugssonar smáskamtalæknis, og vona jeg að jeg þurfi ekki að tala langt mál um ástæður fyrir því.