20.08.1915
Neðri deild: 38. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 62 í B-deild Alþingistíðinda. (1142)

108. mál, fjárlög 1916 og 1917

Ráðherra:

Þessi þögn er næsta óvanaleg hjer í hæstv. deild, en »fyrst allir aðrir þegja«, verð jeg líklega að taka til máls. Jeg bjóst nú reyndar við að þeir, sem viðauka- og breytingartill. ættu, myndu taka til máls. Jeg hefi í sjálfu sjer ekki mikið að athuga við breytingartill. fjárlaganefndarinnar, hvað þenna kafla fjárlaganna snertir. Það er tæpast hægt að segja neitt um það, eina og horfir nú, hvort muni ábyggilegra í heild sinni, stjórnarfrumvarpið eða breytingatillögur fjárlaganefndarinnar. Nefndin hefir ákveðið að lækka vitagjaldið, og hefir hún þar vafalaust mikið til síns máls, því að sennilega verða skipaferðir nokkuð minni til landsins næsta ár og ef til vill 1917, sökum ófriðarins, en vanalega, og mun því varlegt að færa þenna tekjulið niður um 10,000 kr. Um hækkun áfengistolls er líklega ekki gott að segja mikið, jeg meina á áfengi löglega innfluttu. (Hlátur). En jeg býst þó við því, að nefndin hafi full rök að færa fyrir þessari hækkun sinni. Sama er að segja um vörutollinn. Nefndin hefir ákveðið að lækka hann um 50000 kr., þar eð hún gjörir ráð fyrir, sem og má ske er eðlilegt, að vöruflutningur til landsins muni minka að nokkrum mun, meðan atriðið stendur yfir. Jeg álít því ekki þessa lækkun neitt sjerstaklega athugaverða. Hækkun símatekna er að líkindum bygð á því, að nefndin gjörir ráð fyrir að nýjar símalínur bætist við. (Framsögumaður Pjetur Jónsson: Nei, alls ekki!) Mjer þótti þetta nú samt líklegt, því að vafalaust má telja að einhverjar nýjar línur verði lagðar á þessu fjárhagstímabili. Hvað snertir breytingartillögu nefndarinnar við 4. gr., þá er þar um harla lítinn mismun að ræða, þar sem nefndin fer fram á að hækka leigur af innstæðu viðlagasjóðs um 500 kr. síðara árið. Enn fremur leggur nefndin til að Búðahreppi sje veitt uppgjöf á 1500 kr. Stjórnin getur eftir atvikum fallist á þessa uppgjöf, og það því fremur, sem landsímastjóri hefir mælt með henni. Hvað snertir 6. lið 4. greinar um arð af innstæðufje í Landsbankanum, þá er það satt, að það var ekki. tekið upp í fjárlögin, en það stafaði ekki af gleymsku frá minni hálfu, því að jeg mundi eftir honum, en fanst ekki borga sig að taka hann upp, vegna þess, að það hefði raskað öllum útkomum fjárlaganna, sem að miklu var búið að ganga frá, þegar jeg tók við, en jeg held að það sje rjett með farið hjá mjer, að jeg hafi minst á þetta við fjárlaganefndina, svo að jeg eiginlega eigi breytingartillöguna. Hvað snertir 5. gr. 1. lið, um það, að presturinn á Breiðabólsstað í Fljótahlíð megi verja árgjaldinu af brauðinu til jarðabóta, þá skal jeg geta þess, að mjer er ekki kunnugt um, hvort undanfarandi stjórnir hafa tekið þetta upp í sín fjárlagafrumvörp. Jeg sje ekki ástæðu til þess að breyta þessu, þar eð presturinn hefir víst áreiðanlega gjört meiri jarðabætur en hann beinlínis var skyldur til.

Þá skal jeg víkja að breytingartillögunum við 1. grein útgjaldabálksins. Við 9. grein, 6. lið, hefir fjárlaganefndin hækkað þóknun þá, er Landsbankinn fær fyrir það, að annast útborgun og innborgun fyrir landssjóð, eða með öðrum orðum að gegna landfógetastörfum. Það er ekki ólíklegt, að þetta starf hafi aukist nú upp á síðkastið og kostnaðurinn við það sje því meiri en áður var, og því ekki ástæða til þess að vera þessari hækkun mótfallinn; en hins vegar fær Landsbankinn svo mikið fje fyrir þetta, 5000 kr. á ári, að maður skyldi halda að hann gæti haft þetta á hendi án sjerstakrar frekari borgunar, enda samningur um það. (Björn Kristjánsson: Landsbankinn fær ekki fje þetta rentulaust). En reyndar má nú líta svo á, sem þetta sje aðeins að hafa vasaskifti á peningunum, þar sem Landsbankinn er eign landsins sjálfs. Um 10,000 kr. lækkunina við 10. grein, skal jeg ekki segja, hve rjettmæt hún er, það mun koma í ljós á sínum tíma, en ekki er ólíklegt að miðað sje við það, að sumarþing sjeu ódýrari, því á þeim sparast töluvert til ljósmatar og eldsneytis. Nefndin hefir fært upp kostnaðinn við endurskoðun landareikn.,og er það rjettmætt, því að nú verða eftirleiðis 3 yfirskoðunarmenn. En það, að stjórnin tók ekki þessa upphæð með í frumvarp sitt, stafaði af því, að stjórnarskráin var þá ekki staðfest, er hún samdi frumvarpið, og alls óvíst um hvort svo myndi verða í bráð. Við 11. grein, B 1., hefir nefndin bætt 500 kr. Þetta mun vera samkvæmt loforði fráfandi stjórnar um að taka þessa fjárveiting upp í fjárlagafrumvarpið, eða fjáraukalagafrumvarpið. Fyrverandi landshöfðingi Magnús Stephensen hafði búið til efnisyfirlit yfir framhald stjórnartíðindanna og boðið stjórninni það. En þessu vissi jeg ekki af, og gat því ekki tekið það með í reikninginn.

Hvað snertir hagstofuliðinn, þá er það rjett hjá nefndinni, að tillagan um fjárveitingu, til þess að gefa út bók á erlendu máli um landahagi Íslands, er fram komin beint eftir ósk minni, svo að jeg verð henni vitanlega ekki mótfallinn. Þá er 3. liður 11. greinar um endurgjald til embættismanna fyrir burðareyri. Jeg efast um að það endurgjald muni eiga sjer nokkurn tíma stað nema á pappírnum. Jeg sje, að stjórnin hefir ekki talið að minna mundi nægja til þessa en 16000 kr.; en jeg hygg að þetta muni miklu fremur verða áætlunarliður en hitt, sökum þess, að ekki er gott að segja nákvæmlega um, fyrir hvað beri að endurgjalda, eða hvað eigi að teljast borgað beint í embættisþarfir. Eftirlitslaunin vill nefndin færa niður um 500 krónur. Auðvitað er hægt að haga eftirlitinu samkvæmt þessari lækkun, en það verður þá líka minna og eftirlitsferðirnar færri. En þess vegna var þessi fjárveiting höfð svo há í stjórnarframvarpinu, að á síðasta þingi, 1914, komu fram töluvert háværar raddir um það, í báðum deildum, að eftirlitið væri ónógt. En ef menn vilja að það sje aukið, þá hlýtur það að kosta peninga. Um þá ráðstöfun nefndarinnar, að bæta við peningaskápum í Rangárvallasýslu, hefi jeg ekkert að athuga. Um 11. grein, 7. lið, er það að segja, að nefndin hefir hækkað fjárveitingu til strandgæslu um 2000 kr. og jafnframt gjört þá breytingu, að landsjóður taki á sig 2/5 hluta kostnaðarins í stað helmings áður. Jeg get gengið inn á að sanngjarnt sje, að landið taki meiri þátt í strandgæslunni en það hefir gjört, og sú ástæða nefndarinnar fyrir hækkuninni, að illa hafi gengið að ná fjenu inn, er víst alveg rjett, en mjer þykir hún á hinn bóginn benda í þá átt, að menn vilji ekki vinna mikið til þess að fá almennilega strandgæslu.

Við 12. grein hafa komið fram ýmsar breytingartillögur frá nefndinni og sumar þeirra eftir tilmælum stjórnarinnar. Um hækkunina á fjárveitingunni til húsbúnaðar holdsveikraspítalans skal jeg ekki segja. Jeg er ekki nógu kunnugur því, hverja nauðsyn ber þar til. Viðvíkjandi viðbótinni til geðveikrahælisins á Kleppi, þá skal jeg geta þess, að tillagan um þá fjárveitingu er fram komin samkvæmt tilmælum stjórnarinnar og tillögum Rögnvalds Ólafssonar húsameistara. Jeg býst við því, að það sje alveg rjett að veita þessa upphæð, því tilgangurinn mun vera sá, að fara nú þegar að víða efni að, grjóti og möl, og þess vegna líkur til að byggingin verði fyrr fullgjör og kostnaðarminni en ella. Þó sá stjórnin sjer ekki fært, þegar fjárlagafrumv. kom, að koma fram með tillögu um það, að landið tæki að sjer Vífilsstaðahælið á næsta ári, þótt hún raunar sæi fram á, að að því myndi líklega reka. Eins og kringumstæðurnar eru nú, fanst stjórninni rjettara, að fjárlaganefndin segði sitt álit um málið og kæmi sjálf fram með fullnaðar tillögu, ef hún teldi sjer það fært. Fjárlaganefndin hefir og farið fram á, að styrkur sá, er veittur væri til sjúklinga, sem þyrftu að leita utan á ljóslækningastofnun Finsens, sje hækkaður um 300 kr. Mjer finst þetta ekki nema sanngjarnt, þar sem landlæknir leggur þetta og til, og þar sem ekki eru tæki til slíkra lækninga hjer á landi. Enda skiftir litlu máli, hvort styrkurinn er 500 eða 800 krónur. Viðvíkjandi styrknum til Jóns Kristjánssonar læknis, þá vildi jeg skjóta því til nefndarinnar, hvort ekki myndi heppilegra að láta læknirinn fá 1000 kr. hvort árið, heldur en að láta hann fá 3500 kr. styrk í eitt skifti. Því að jeg býst við því, að úr því nefndin hefir einu sinni tekið þessa fjárbæn upp á sína arma, þá geti hún ekki vel neitað því að styrkja þetta fyrirtæki áfram, ef beiðni skyldi koma fram um það. Og ef litið er á þetta frá sjónarmiði sparnaðarins, þá ljettir þessi tillaga mín þó dálítið á landsjóði, en mundi koma hjer um bil í sama stað niður fyrir læknirinn.

Við 12. grein hefir komið fjöldi af viðaukatillögum, sem allar ganga í líka átt, að undanskildri einni, nefnilega að leita styrks til læknishjálpar. Ef nú þetta alt væri tekið til greina, þá myndi fara svo, að allir, eða flestir hreppar á landinu, álitu sjálfsagt að biðja um styrk til þess að ljetta undir með sjúklingum sínum að leita sjer lækninga. Og þá myndi verða ilt að gjöra upp á milli þeirra, því að takmörkin eru sennilega óvíða svo glögg, að sjá megi hver er mest þurfandi. Loks er ein tillaga á þingskjali 390 frá háttv. þm. Dal. (B. J.) um styrk til smáskamtalæknis eins í hans kjördæmi. Jeg skal ekkert um það segja, hve verðugur þessi maður er þess, að fá styrkinn, en hætt er við, að upp myndu rísa fleiri smáskamtalæknar víðar á landinu, er þættust jafnvel að því komnir að fá viðurkenningu, ef þessum eina manni væri veitt hún. Jeg skal reyndar játa, að það er einungis smáskamtur, sem háttv. þm. Dal. (B. J.) fer fram á handa skjólstæðing sínum. En margir smáskamtar geta orðið að einum stórum. Það verða menn að hafa vel hugfast, þá er um þessar smáfjárveitingar er að ræða.