20.08.1915
Neðri deild: 38. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 76 í B-deild Alþingistíðinda. (1147)

108. mál, fjárlög 1916 og 1917

Bjarni Jónsson:

Það er nauðsynlegt fyrir mig að tala nokkur orð fyrir brtt. þeim, sem jeg hefi neyðst til að bera fram, vegna þess, að fjárlaganefndin hefir ekki tekið til greina eina einustu fjárbeiðni úr Dalasýslu. Jeg ætla að geta þess, án þess að jeg vilji fara að gjöra nokkra afsökun á því, að jeg stend upp og lýsi skoðun minni, hvers vegna jeg hefi komið fram með þessar tillögur. Jeg hefi heyrt það úr ýmsum áttum, að það sje syndsamlegt að vera að bera fram brtt. og yfirleitt að tala á þessu þingi.

Jeg mun síðar koma inn á það, að menn hafa hjer ekki málfrelsi nema í orði kveðnu; en nú vil jeg skýra frá því, að jeg hefi það fyrir reglu að bera fram hjer á þingi allar þær beiðnir, sem mjer er falið að bera fram í kjördæmi mínu. Jeg lít svo á, að þeir menn, sem senda mig á þing, eigi rjett á því, að óskir þeirra komi undir atkvæði þingsins. Það er auðvitað mál, að bæði jeg og hjeraðsmenn leggja mismunandi áherslu á tillögurnar, sumar mætti kann ske fella, ef þá hinum væri sint.

Jeg hefi varla brjóst á því, eftir því sem meðvitundarlífi manna hjer er farið, að tala mikið um, hvað jeg tel vangjört eða ofgjört af nefndinni. Þó get jeg ekki komist hjá því að nefna einstaka liði, bæði í nefndarálitinu og frumvarpinu sjálfu. Það er sjerstaklega einn liður, sem settur er í frumv., til þess að ljetta undir með embættismönnum, sem jeg er fremur þakklátur nefndinni fyrir, hvernig hún hefir farið með. Hún hefir sýnt dálítinn lit, með því að færa þenna lið niður um 2000 kr. (Ráðherra: Hvaða liður er það?). Það er endurgjald til embættismanna fyrir burðareyri, símskeyti og símtöl. Jeg er ekki vanur að lasta embættismennina, eða telja þá óþarfa. Jeg vil þvert á móti, að þeim sje allur sómi sýndur, og þeim sje borgað fyrir starf sitt, en jeg tel það rangt, að borga þeim fremur en öðrum starfsmönnum landsins burðargjald af brjefum, símtöl o. s. frv. Og þótt jeg vilji ekki rengja þessa menn, þá virðist mjer ekki rjett, að fara í þessu efni eftir frásögn þeirra einna, um hve mörg brjef þeir hafi skrifað, hve oft þeir hafi símað o. s. frv. Vilji menn greiða þeim einhverja uppbót fyrir þetta, þá væri miklu rjettara að taka tillit til þess í kaupgjaldi þeirra.

Jeg hefi, sem kunnugt er, verið nokkur ár — jeg held fjögur — starfsmaður landsins og fengið miklar þakkir fyrir, eins og menn muna. En þar var aldrei um það að tala, að jeg fengi endurgreidd frímerki, sem jeg þurfti mikið á að halda, og ekki var mjer ætlað endurgjald fyrir símskeyti, sem jeg varð oft að senda.

Mjer virðist þetta alveg óþarft, sjerstaklega þegar allir starfsmenn landsins njóta þess ekki, heldur að eins þeir einir, sem kallaðir eru embættismenn og hafa eftirlaun og önnur hlunnindi.

Jeg hefði samt ekki komið með brtt. um þetta, því að jeg vonaði, að þessi slátrari, sem við kusum í þingbyrjun, mundi þegar hlaða þessu ákvæði, en svo hefir mjer gleymst að koma með tillöguna eftir að jeg hafði sjeð, að nefndin hafði ekki gjört annað en skera dálítið af upphæðinni.

Þá er vert að athuga, hvað nefndin segir um eitt atriði í 12. gr. — að mig minnir. Þar ætla jeg ekki að hrósa nefndinni, heldur lýsa undrun minni yfir því, að sjúklingar, sem í raun og veru eru dauðadæmdir, og verða að lifa í ákveðnu húsi eftir skipun landsstjórnarinnar, skuli þurfa að lifa í stibbu og kolareyk alla sína æfi, vegna þess, að landið hefir ekki efni á að leggja út 22 þús. kr., til þess að koma miðstöðvarhitun í húsið. Þarna eru þeir af þinginu dæmdir til að deyja, — gætu að öðrum kosti, ef til vill, útvegað sjer annað betra hæli. Mjer virðist það undarlegt, að nefndin skuli voga sjer að ganga fram hjá þessu. Jeg veit ekki hvar skilningur manna ætti að vera opinn, ef ekki fyrir sjúklingum, sem bágt eiga og verða að hýrast á ákveðnum stað, þangað til þeir deyja.

Jeg hefi orðið of seinn að koma með breytingartill. núna, en það er ekki útilokað, að hún komi síðar, ef nefndin sjer sig ekki um hönd og breytir skoðun sinni.

Þá verð jeg að segja nokkur orð um brtt., sem jeg hefi borið fram eftir óskum kjósenda minna. Jeg skal þá geta þess, að jeg hefi leyft mjer að koma fram með tillögu um lítils háttar styrk til Magnúsar Guðlaugssonar smáskamtalæknis á Bjarnastöðum í Dölum. Jeg hefi sjálfur aldrei haft neina trú á smáskamtalæknum, en mjer finst það sjálfsagt, þegar einhver maður hefir reynst bjargvættur sinnar sveitar, að honum sje fyrir það sómi sýndur, hvað sem hann er kallaður Þessi maður er hniginn að aldri, og hagur hans er svo, að hann getur ekki haldið áfram störfum sínum, eða bjargast af.

Það, sem aðallega kom því til leiðar, að jeg ber þessa tillögu fram, er það, að 7 hreppar af 8 í Dalasýslu skoruðu á mig að gjöra það, sem jeg gæti, til þess að Alþingi sýndi einhvern lit á því, að hjálpa þessum manni, eða viðurkenna það, sem hann hefði vel gjört. Og þar sem sama sem heilt kjördæmi fer fram á þetta, þá er ekki hægt að vísa því frá sjer og segja, að óþarfi sje að skýra frá ástæðunum fyrir því, hvers vegna það hafi ekki verið tekið til greina, eins og háttv. framsm. (P. J.) komst að orði. Það er engu líkara en að nefndin haldi, að veitingarvald á fjé landsina sje hjá henni einni; við hinir megum engu um ráða og hún þurfi engum að standa reikningsskap gjörða sinna. Það er víst Nesjakonungablóðið

i háttv. nefndarmönnum, að einstaklingarnir eigi að ráða yfir lög og sanngirni fram; sem orsakar þenna hugsunarhátt. Jeg ætla að benda á eitt atriði viðvíkjandi þessari bón. Við höfum flestir, eða allir, alla okkar æfi, heyrt alþýðu kvarta um það, hve embættismenn væru margir, og það væri synd að verja svo miklu fje til þeirra. Og þessar raddir eru allháværar enn þá, bæði í blöðunum og hjá þingmönnum og þingmannæfnum, sem vilja koma sjer í mjúkinn hjá kjósendum. Halda menn þá ekki, að ástæða sje til þessarar litlu fjárveitingu, þar sem komið hefir fram áskorun um hana frá heilu kjördæmi og hlutum úr 2–3 öðrum kjördæmum? Þetta er því ekki á móti vilja kjósenda. Rúm 400 manns úr Dala-, Barðastrandar- og Strandasýslu og sunnan af Skógarströnd í Snæfellsnessýslu, hafa skrifað undir þessa áskorun. Meðal þeirra eru margir merkir bændur og prestar, t. d. Bjarni Símonarson á Brjánslæk, vandaður og sannorður maður, sem jeg þekki nærri eins vel og sjálfan mig, því við vorum bekkjarnautar í skóla. Og hvað segja mentuðu mennirnir í þessari grein — læknarnir. Með leyfi hæstv. forseta skal jeg lesa upp brjef Odds læknis Jónssonar, sem bæði er gáfaður maður og besti læknir. Hann segir:

»Jeg vil hjer með lýsa því yfir, að jeg hefi síðan 1894, eða í 21 ár, verið í nágrenni við Magnús homöopata Guðlaugsson, og hefi á öllum þeim tíma oft haft tækifæri til þess að taka eftir lækningatilraunum hans, og hefi jeg ávalt komist að raun um, að hann hefir á öllum þeim tíma komið fram sem mannúðarfullur, samviskusamur, lipur og reynsluæfður maður við smáskamtalækningar sínar.

Jeg vil því að gefnu tilefni mæla hið besta með honum, til þess, að hann mætti njóta einhverra ávaxta þessarar vinnu sinnar í opinberum ellistyrk (árlegri pengingaupphæð) er hann hefir í hyggju að leita um til Alþingis, þar sem hann í elli sinni á stóran, ungan barnahóp, frá 1 til 9 árs, að upp ala, og eini hans eru gengin til þurðar.

Miðhúsum 19. júní 1915.

Oddur Jónsson,

hjeraðslæknir Reykhólahjeraðs«.

Annar læknir skrifar:

»Jeg undirritaður hefi þekt Magnús Guðlaugsson persónulega öll árin síðan 1890, og hafði hann stundum mjer til aðstoðar við handlæknis aðgjörðir, þegar þær báru að hendi nærri bústað hans, og vil hvað það snertir veita honum hrós fyrir framkomu hans. Að öðru leyti er jeg enn fremur að öllu leyti samþykkur því, sem hjeraðslæknirinn í Reykhólahjeraði hefir ritað hjer að framan, og vil mæla með því, að Magnús homöopati Guðlaugsson fái áður umgetinn styrk.

Búðardal, 24. júní 1915.

Sig. Sigurðsson,

fyrverandi hjeraðslæknir í Dalahjeraði.«

Þar sem meðmælin eru svona almenn og fylgi kjósanda svona mikið, þá sýnist það eigi um skör fram, þótt menn athugi þetta nánar og spyrji sjálfa sig, hvort vert sje að neita heilum hópi kjós- anda úr Dalasýslu og mörg hundruð mönnum öðrum um svona litla beiðni. Jeg get ekki vitnað til minnar eigin reynslu á Magnúsi sem lækni því að hún er engin, en jeg þekki manninn og veit að hann er vel gjörður. Þá gat jeg sagt frá því, þegar jeg var staddur í Dölum í vor, til þess að halda þar þingmálafundi, að maður í Glerárskógum veiktist. Læknirinn var nýkominn úr Hrútafirði, og gat því ekki komið sjálfur. En sendimaður hafði með sjer »diagnose« frá Magnúsi og áleit læknir það óhætt, að senda sjúklingnum meðul eftir henni. Þessi maður, Árni Árnason, er ungur og efnilegur, ágætur læknir og vill ekki vamm sitt vita.

Upphæðin, sem farið er fram á, er ekki stór. Það er, eins og einhver fyndinn maður sagði í dag, að eins smáskamtur í elli hans. En hann er ánægður með það og þakklátur fyrir, ef hann fær það, og þótt minna væri. Ef landið er svo aumlega statt, þá má líka færa styrkinn niður um 50 til 100 krónur, ef landið munar um það í fátæktinni. Jeg kveð svona að orði, vegna þess, að jeg hefi heyrt það kveða við, bæði hjer í salnum og utan hans, að það yrði að fara svo afar varlega að, vegna þæs að fjárhagurinn væri svo aumur. Við gætum ekki einu einni borgað 20 þús. kr. í Landhelgissjóð, vegna þess, að landssjóður ætti ekki svo mikið til. Væri jeg Ísland, þá mundi jeg stefna þeim mönnum, sem svona tala, fyrir lánstraustsspjöll. Hvernig ætla menn að fara að taka handa landinu 10 millj. kr. lán, sem þó er nauðsynlegt, til þess að bæta atvinnumál vor og bankamál, ef t. d. stæði í »Times« ákveðinn dag, að þessi og þessi þingmaður, sem væri í miklu áliti, hefði sagt, að landið gæti ekki borgað 20 þús. krónur. Það væru dálagleg meðmæli út um heiminn. Jeg læt svo útrætt um þetta; vænti þess að tillaga mín verði samþykt, jeg býst ekki við, að það verði landinu til neins tjóns, þótt það meti vilja svona margra kjósanda í þessu. Jeg hefi hjer ekki farið út í neinar öfgar, aðeins skýrt frá málinu, bent á vilja kjósanda og lesið upp álit tveggja lækna.

Þá kem jeg að annari brtt., sem jeg ber líka fram samkvæmt áskorunum úr kjördæmi mínu. Eins og menn vita, þá er landsháttum svo varið í Dölum, að Klofningurinn skiftir sýslunni í tvent, allt fram á Klofningstá. Læknirinn situr, sem kunnugt er, í Búðardal, svo að Saurbæingar, og einkum Skarðstrendingar, verða að sækja hann allerfiða leið, um Svínadal, sem er fannkista og illur yfirferðar á vetrum. Fátækum mönnum verður því oft ókleift að vitja læknis, sakir kostnaðar, og verða því að láta menn deyja drotni sínum. Sama eða líkt er um Fellsstrendinga. Jeg legg því til, að hreppum þessum sje veittur styrkur til þess að vitja læknis.

Jeg skal benda á enn eitt í sambandi við þenna styrk, að ef viturlega hefði verið tekið í annað mál, þá mundi þessi beiðni aldrei hafa komið fram. Þegar símamálið var til meðferðar á síðasta þingi, voru frumv. um síma, þar á meðal frumv. um síma til Búðardals, tekin aftur gegn því skýlausa loforði, að símarnir yrðu teknir upp í næstu fjárlög. Þessu loforði hefði fjárlaganefnd átt að muna eftir, og ef svo hefði verið, mundi jeg ekki hafa komið fram með þessa brtt.

Jeg mun þá hafa tekið fram flest það, sem jeg þarf að segja að sinni. Jeg hefi reynt að setja svo fram mál mitt, að jeg vænti, að háttv. þingmenn hafi skilið.