20.08.1915
Neðri deild: 38. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 85 í B-deild Alþingistíðinda. (1149)

108. mál, fjárlög 1916 og 1917

Ráðherra:

Jeg býst ekki við, að meira þurfi að taka fram um 9. gr., það er tekur til endurgreiðslu á burðareyri og símskeytum til embættismanna. Þó er jeg ekki alla kostar viss um, að háttv. þm. Dal. (B. J.) hafi til fulls látið af skoðun sinni, og þykir mjer því rjett að skýra málið fyrir honum enn, og fara eins að og þegar verið er að kenna. börnum. Þá má ekki vera of »abstract«, heldur taka einstök dæmi. Mun jeg því taka þann kost, sem hægastur er til skýringa fyrir ungmennum, en sá er að rekja dæmi.

Nú gengur farsótt, og læknir sá, sem hlut á að máli, vill vinda bráðan bug að því, að stemma stigu fyrir sóttinni; í því skyni hentar honum bezt að leita til landlæknis símleiðis. Stjórnarráðið þarf að gjöra snarar ráðstafanir. Sýslumenn þurfa að innheimta toll, og verður það greiðara með síma, eins og háttv. 2. þm. S.-M. (G. E.) tók fram. Og þannig má lengi rekja. Ef háttv. þm. Dal. (B. J.) vildi vera samkvæmur sjálfum sjer, þá ætti stjórnarráðið, ráðherra, landritari, skrifstofustjórar o. s. frv. að greiða þau símskeyti, er send eru, en það væri sama sem að þessir menn yrðu ekki einungis að vinna, heldur yrðu og að borga með sjer. Mjer er ekki kunnugt um, hvort viðskiftaráðunauturinn hefir sent símskeyti vegna starfsemi sinnar, en ef hann hefir gjört það, þá hefir hann átt rjett til endurgreiðslu.

Annað mál er það, að álitamál getur verið, hvenær nauðsyn er að senda brjef eða skeyti, og er þá stjórnarinnar að skera úr því.

Að öðru leyti skal jeg fræða háttv. þm. Dal. (B. J.) um það, að til eru stjórnarbrjef, sem til taka, hverir starfsmenn megi nota þjónustumerki og símskeyti, og hafa þeir stundum kvartað yfir því, að þeim væri endurgreitt of litið. Annars er þetta nokkuð sama sem að taka úr einum vasanum og láta í hinn, því að auknar tekjur af síma og frímerkjasölu koma á móti.