21.08.1915
Neðri deild: 39. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 109 í B-deild Alþingistíðinda. (1157)

108. mál, fjárlög 1916 og 1917

Bjarni Jónsson:

Jeg vil geta þess, að enn sem fyrr er jeg ekki alla kostar samþykkur gjörðum fjárlaganefndarinnar. Hefi jeg þó látið marga hluti fara fram hjá mjer, án þess að bera fram brtt. við þá, og er það fyrir þá sök, að jeg hefi sjeð, að það mundi ekki verða til neins.

Jeg vil þó geta þess um einn liðinn, símaliðinn, að jeg er sammála nefndinni um skilyrðið, sem hún setur þar á eftir, að fresta megi framkvæmdunum að nokkru leyti eða öllu, ef svo fara sakir, að stjórnin verður í fjárþröng. En það eitt þykir mjer að, að nefndin hefði átt að binda fjárveitingar til vegabóta og annarra fleiri framkvæmda þessu sama skilyrði. Því að jeg tel rjett, að þingið fari öldungis eins með fjárlögin nú og áður, án þess að gjöra ráð fyrir neinum sjerstökum slysum eða óvenjulegum tekjuskakka, en sjái hins vegar um, að stjórnin geti heft eitthvað af þeim framkvæmdum, sem kosta svo mikið fje, að verulega um munaði, ef bjarga þyrfti landinu úr voða, sem af ófriðnum stafaði. Um annan voða er ekki að ræða.

Jeg tel næga tryggingu í slíkum heimildum, og þær miklu skynsamlegri, en að vera að klípa 200 kr. hjer, 300 kr. þar, 500 kr. hjer og 5000 kr. þar, sem aldrei getur numið svo miklu, að það komi að neinu liði.

Jeg vil benda nefndinni á, að hún ætti að koma víðar með slíkar athugasemdir. Vona jeg, að hún taki það til athugunar til 3. umræðu. Sjerstaklega ætti þetta heima um vegagjörðirnar, því að það getur aldrei orðið að neinu stórtjóni, þó að þeim væri frestað um sinn, en hina vegar munaði mikið um það fje, sem við það sparaðist í bili. Ef þessar frestunarheimildir væru gefnar víða, gæti það orðið að verulegu gagni, en í einum lið þýðir það sáralítið.

Ýmislegt gæti jeg talað um, sem mjer þykir heldur verr en betur um brtt. nefndarinnar. Mjer dettur í hug ein tillaga hennar um að kaupa peningaskápa handa 6 símastöðvum, 1200 kr. fyrra árið. Þar sem nefndin vill spara alstaðar þar, sem því verður við komið, þá hefi jeg þá trú, að þessir peningaskápar hefðu vel mátt vera ókeyptir þetta fjárhagatímabil. Sjerstaklega þar sem jeg sje að upphæðin er svo hlægilega lítil, að fyrir hana er ekki hægt að fá betri skápa, en þó að venjulegir smiðir væru fengnir til að smíða skápa úr trje. Eldheldir skápar eru dýrari en svo, að þeir fáist fyrir þetta verð. Það kemur ekki til nokkurra mála. (Sveinn Björnsson: Jú). Nei. (Sveinn Björnsson: Jú). Það má. vera, að þeir sjeu seldir sem eldheldir, en þeir eru það ekki, þegar bruna ber að höndum.

Þá eru laun umsjónarmanna vitamálanna. Jeg er ekki að hafa á móti því, að þessum manni sje goldið sæmilega fyrir verk sín, en mjer þykir það undarlegt, að undir eina og það steðjar .að verkfræðingum landsins, að krefjast fjár úr landssjóði, þá rýkur Alþingi upp til handa og fóta og fleygir í þá fjenu. En þegar um laun þeirra manna er að ræða, sem fást við vísindi og uppeldismál, þá er alt öðru máli að gegna. Það væri gaman að bera launakjör þeirra saman við launakjör hinna, sem leggja vegi, eða halda vendi laganna yfir landinu, og lesa út úr þeim samanburði hugsunarhátt fólksina, hvað það telur mest virði og hvað minst. Þetta er ekki sjerstaklega mælt til fjárlaganefndarinnar, þó að henni sje reyndar skylt að reyna að leiðrjetta þenna hugsunarhátt. Einkum þegar laun verkamanna landssjóðs eru alt af talin blóðpeningar, að minsta kosti laun þeirra, sem eitthvað kenna.

Þá þykir mjer líka aðstoðarmanninum við vitana gjört tiltölulega lægra undir höfði en umsjónarmanninum. Það er ekki eingöngu, að hann hafi miklu lægri laun, sem ef til vill má til sanns vegar færast, heldur er honum jafnframt gjört að skyldu að veita ókeypis leiðbeiningar þeim mönnum, sem vilja fá sjer rafmagnstæki til heimilisnota. Hann á að gjalda þess, að hann er góður rafmagnsfræðingur; en hann á engin not að hafa af því. Það var aldrei nema rjett að gjöra honum að skyldu að veita þessar leiðbeiningar, en að láta hann gjöra það ókeypis, það þykir mjer nokkuð mikið á manninn lagt, þar sem hann hefir ekki meira kaup en hann hefir.

Jeg vona, að nefndin athugi þetta betur til þriðju umræðu.

Þá er það 40. brtt. nefndarinnar við 13: gr. E. IV., að liðirnir a., b., d. og e. falli burtu, sem mjer þykir einkennileg. Það eru vitarnir, sem eiga að falla í burtu, bæði Akranesvitinn, Malarrifsvitinn, Bjarnareyjarvitinn og Selvogsvitinn. Nú er það svo, að af öllu því, sem gjört er til samgöngubóta á þessu landi, er, eins og allir vita, langmest vert um vitana. Þeir geta bókstaflega bjargað lífi manna, ekki fárra manna, heldur margra skipshafna. Það eru vitabyggingar og lendingarbætur, sem síst má fresta framkvæmdunum á, því að líf fjölda manna er í veði, ef þar er ekki að gjört. Þá er munur, þó að flutningabrautir sjeu látnar ógjörðar.

Enn vantar mjög mikið á, að svo mörgum vitum hafi verið komið upp, að sæmilegt megi heita að sigla um landhelgina. Margir þingmenn hjer hafa verið sjómenn, og vita vel hvað það er, að sigla úfinn sjó í myrkri, og taka illa lendingu. Og þeir vita, að þeir menn verða ekki taldir í tugum, sem látið hafa lífið fyrir þá sök eina, að þeir vissu ekki fyrir, hvar þeir áttu að lenda. Jeg tel óráðlegt, að fella vitana burtu. En í sambandi við þá athugasemd, sem jeg gjörði áðan, skal jeg taka það fram, að jeg tel rjett að gefa stjórninni heimild til að fresta þessu, ef í öngþveiti kemur. En jeg tel alveg sjálfsagt, að samþykkja þetta í fjárlögunum, ef svo fer, sem mikil ástæða er til að vona, að styrjöldin hafi ekki nein háskasamleg áhrif á fjárhag þessa lands.

Þetta eru þær athugasemdir, sem jeg vildi gjöra við brtt. fjárlaganefndarinnar við 13. gr., að því leyti, sem jeg kem ekki aftur að þeim, er jeg minnist á símana.

Aftan við 14. gr. B. XIII. a., þar sem talað er um styrkinn til unglingaskólanna, vill nefndin hnýta athugasemd, þar sem skólanir á Núpi, Hvítárbakka, Ísafirði og Seyðisfirði eru sjerstaklega nafngreindir, og þeim heitið 1500 kr. styrk á ári.

Það er merkilegt, að sú meinlega vitleysa skuli sitja í mönnum ár eftir ár, að vilja veita hæstan styrk þeim skólunum, sem best geta komist af án atyrks. Bæði á Ísafirði og á Seyðisfirði geta menn gengið heiman að frá sjer í skólana. Það er því ekki nema húsrúmið og kenslan, sem menn þurfa að kosta. En í sveitunum þurfa menn að hafa nemendurna á vist í sjálfum skólunum. Erfiðleikarnir eru hjer ekki saman berandi.

Jeg vil skora á fjárlaganefndina, að kippa þessu í lag til 3. umræðu, því að hjer er um svo bersýnilegt ranglæti að ræða, að það er ekki sæmandi fyrir þingið, að senda annað eins frá sjer.

Nú vil jeg nefna með örfáum orðum nokkrar brtt., sem jeg á við 13. gr. En fyrst vil jeg geta þess, að brtt. háttv. þm. Snæf. (S. G.) á þgskj. 338 mun jeg ljá atkvæði mitt. Hún er um það, að halda uppi leiðarljósi á Svartatanga við Stykkishólm. Á þessu er hin mesta nauðsyn, en kostar hins vegar svo lítið, að sjálfsagt er að gjöra þetta orðalaust.

Brtt. frá strandferðanefndinni á þgskj. 435 ætla jeg að sje tekin aftur. (Ýmsir þingmenn: Já, hún bíður til 3. umr.). Jeg skal þá ekki tala mikið um það mál að sinni. Jeg verð þó að geta þess um brtt. mína á þgskj. 392, sem er við sama liðinn, að hún fer fram á 12000 kr. styrk til flóabátsins á Breiðafirði, ef sú verður raunin á, sem til er stofnað, að báturinn verði keyptur. En um leið hefi jeg farið fram á, eftir beiðni hjeraðsbúa, að þingið veiti auk þess 10000 kr. styrk úr landssjóði til þess að kaupa bátinn. Sá hluti tillögunnar getur komið undir atkvæði nú, þó að hinu verði frestað. Það skaðar raunar ekki, að það bíði líka til 3. umr., ef hæstv. forseta þykir umhendis að bera það upp nú.

Þá kem jeg að símatill., sem jeg hefi borið fram. Eins og menn muna, tók jeg á þinginu í fyrra aftur frumv. um þenna síma, vegna þess að símastjórinn skrifaði þinginu brjef, sem prentað er í Þingtíðindunum frá í fyrra, þar sem hann skýrir frá því, að fyrirhugað sje að leggja þenna síma á árinu 1916. Það er því loforð símastjórnarinnar og þingsins fyrir því, að síminn skuli verða lagður á næsta ári, og þar sem nú er nægilegt fje fyrir hendi, þá sje jeg ekki, hvernig þingið getur látið undið höfuð leggjast, að efna loforðið.

Það stendur í símalögunum, jeg ætla í 7. gr., að afganginum af rekstri símans ár hvert skuli varið til þess að leggja 3. flokks síma, og í annari grein stendur, að vextir og afborganir af símalánum teljist ekki til reksturskostnaðar. Það er því beinlínis lögskipað, að tekjuafgangurinn skuli ganga til 3. flokks símanna, og engin heimild til að ráðstafa því fje á annan hátt, ekki fremur en hægt er að taka laun embættismanna og verja þeim til brúargjörða. Jeg skil ekki hvað fjárlaganefndin hefir ætlað að spara með því, að nefna ekki þessa upphæð í fjárlögunum. Henni verður hvort sem er ekki varið til annars, nema þá að samin væru sjerstök lög, um frestun eða breytingu á 7. gr. símalaganna. (Sveinn Björnsson: Fjárlögin eru líka lög.) Ekki þess konar, að með þeim verði hnekt öðrum lögum eða þeim breytt. Jeg vona, að háttv. deild sjái, að hjer er ekki farið fram á annað en það, sem sjálfsagt er, og veiti því þess vegna góðar undirtektir. Háttv. frsm. fjárlaganefndarinnar (P. J.) viðurkendi í gær, að jeg hafi hermt hjer rjett frá. En honum er málið vel kunnugt, því að hann sat ásamt mjer í símanefndinni í fyrra.

Jeg hefi áður minst á, hversu merkilegur þessi sími, frá Búðardal og yfir í Saurbæ, er fyrir norðurhluta Dalasýslu, einkum til þess að ná í lækni. Ef mönnum er það ekki ljóst, get jeg reynt að skýra það með dæmi. Ef riðið er eftir Skarðströndinni 4–5 tíma reið að Tjaldanesi, geta menn hringt þaðan að Búðardal, til þess að vita hvort læknirinn er heima, og ef svo er, beðið hann að mæta sjer. Það liggur í augum uppi, að ef læknirinn er t. d. staddur í Bæjaraveitinni, þá er ekki til neins að fara til Búðardals til að ná í lækni. Ef svo stendur á, geta menn reynt að hringja til Magnúsar Pjeturssonar í Hólmavík, og ef hann skyldi vera vant við látinn, þá er um þriðju leiðina að velja, sjóleiðina yfir að Reykjanesi til Odda Jónssonar. Með því að hafa símann, geta menn oft sparað sjer tveggja daga ferð, og hana ef til vill árangurslausa, og eins gjört mönnum kleift að ná í lækni, sem að öðrum kosti hefði verið ómögulegt. Sje nú sá sjúki annaðhvort kona í barnsnauð eða annar sá, er skjótra aðgjörða þarf við, getur, þetta í mörgum tilfellum riðið á lífi hans. Jeg vona að mönnum sje þetta nokkurn veginn ljóst, þó að menn sjeu ef til vill ekki nákvæmlega kunnugir vegalengdunum, sem hjer er um að ræða.

Svo er það sjerstaklega brúin á Ljá, sem jeg vildi biðja bæði fjárlaganefndina og aðra að veita tregðulaust. Hjer er að eins að ræða um endurveitingu á fje, sem að líkindum verður ekki hægt að að nota í ár. Landsverkfræðingurinn segir, að minsta kosti, að vafasamt sje, að hægt verði að byggja brúna í haust, vegna þess hve ilt er að ná í steinlím. En ef það verður hægt, nær það ekki lengra; þá verður vitanlega eldri fjárveitingin tekin, en þessi ekki. Jeg vildi benda á þetta, til þess að láta menn vita hvernig á þessu stæði.

Hin brúin, sem jeg fer fram á fjárveitingu til, er fyrirhuguð á sýsluveginum á Fellsströndinni, á Kjallaksstaðaá. Það er mikið vatnsfall og ilt yfirferðar, þó að það sje raunar ekki jökulvatn, eins og sumar bergvatntsár eru nú kallaðar af hv. 2. þm. S.-M. (G. E.).

Þetta eru nú mínar tillögur, og vildi jeg sjerstaklega biðja menn að láta ekki kjördæmi mitt fara á mis við símann, sem því var heitinn í fyrra, og eins að láta ekki brúargjörðina þurfa að falla niður, þó að ekki verði hægt að koma henni í framkvæmd á þessu ári.

Hjer er till. á þgskj. 405 um 8500 kr. fjárveitingu til brúargjörðar norður á Langanesströndum. Jeg heyri sagt, að brú hafi verið gjörð yfir þessa á þar norður frá í fyrra, en að hún hafi dottið í ána. Má jeg spyrja, hvað olli þvífalli? Mundi það hafa verið vanræksla verkfræðingsins, eða þeirra manna, sem gjörðu brúna eftir hans fyrirsögn? Og til hvers er nú farið fram á þessa fjárveitingu? Er það til þess að byggja brú út í ána, en ekki yfir hana, til þess að hún geti hrunið í annað sinn?

Jeg vildi, áður en jeg sest niður, gjöra örlitla athugasemd, út af því, að mönnum hefir þótt það sæta býsnum og ósköpum, hversu margar brtt. eru við fjárlögin nú. Þrír eða fjórir þingmenn hafa staðið upp og skelt á lærin: Að hugsa sjer, svona og svona margar brtt., og svona og svona margra þúsunda kr. hækkun! Það er býsna gaman að heyra þetta, af því, að þegar litið er til fjárlagaþinganna nú undanfarið, þá verður þetta ekki eins voðalegt. Á þinginu 1909 voru brtt. 254, á þinginu 1911 194, á þinginu 1913 180 en á, þinginu 1915 nú 160. Brtt. eru með öðrum orðum langfæstar nú. Og svo standa menn upp, berja sjer á brjóst og tala um firn og ósköp, aldrei hafi slíkt komið fyrir áður. (Ráðherra: En upphæðin?) Jeg hefi ekki reiknað það saman. En það væri sjálfsagt gustuk að gjöra það, til þess að friða samviskur manna. Upphæðin er líka áreiðanlega með lægsta móti.