21.08.1915
Neðri deild: 39. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 116 í B-deild Alþingistíðinda. (1158)

108. mál, fjárlög 1916 og 1917

Ráðherra:

Jeg þarf ekki að vera margorður um þenna kafla fjárlaganna.

Jeg vil þó drepa á afstöðu mína til brtt. þeirra, er fram hafa komið, og skal þá fyrst minnast brtt. nefndarinnar. Hún leggur til að færa niður útgjöldin í stjórnarfrv., 13. gr. B. I, um 57 þús. kr. Aftur á móti fer hún fram á 32 þús. króna ný útgjöld á liðnum. Verði till. hennar samþyktar, sparast á þessum lið 25 þús. kr. Í brtt. víð B. I. er farið fram á 200 kr. hækkun á skrifstofukostnaði landaverkfræðinga. Þessi hækkun byggist á því, að kol og ljósmeti hefir hækkað allmjög í verði, og hefi jeg ekkert við hana að athuga; upphæðin skiftir litlu og menn geta ekki starfað í myrkri og kulda.

Við B. II. hefir nefndin lagt það til, að styrkurinn til Skagfirðingabrautar verði numinn burtu annað árið. Ennfremur leggur hún það til við B. III, að afnuminn sje styrkurinn til Stykkishólms- og Öxnadalsveganna. Jeg er þeirrar skoðunar, að það sje allhæpið, hvort rjett sje að lækka nú mikið fjárframlag til vegagjörða í landinu. Þess ber að gæta, að til þessa þarf lítið sem ekkert erlent efni, og vegagjörð veitir mjög mörgum mönnum, sem þess þurfa með, atvinnu yfir sumarið, langt fram á haust. En sje nefndin hrædd um að tekjur landsins hrökkvi ekki til þessa, þá teldi jeg það miklu betra úrræði, að setja sama konar athugasemd við þessa liði og nefndin hugsar sjer við símaliðina, að fresta mætti framkvæmdum verkanna; ef nauðsyn þætti. Þá er brtt. við B. III, 8, að færa þann lið í 16 þúsund krónur hvort árið, í stað 32 þús. er í stjórnarfrumv. standa. Vitanlega er jeg alveg samdóma nefndinni í þessu. Í stjórnarfrv. stóðu 32 þús. kr., en það stafaði af ritvillu í handritinu, sem of seint var orðið leiðrjetta, þegar hennar varð vart, — hefði raskað öllum útreikningnum, sem búið var að leggja mikla vinnu i. Þetta voru niðurfærslurnefndarinnar.

Þá kem jeg að hækkunum.

Nefndin hefir lagt til, að veittar yrðu 25 þús. krónur, til þess að brúa eystri ós Hjeraðsvatna. Jeg get fallist á þessa tillögu; brúin, sem nú er, er sögð vera mjög hrörleg og jafnvel lífi manna hætta af því búin. Ef til vill er það með hliðsjón af þessari brtt., að nefndin hefir lagt til, að veitingin til Skagfirðingabrautar fjelli burt. Þá eru brtt. viðvíkjandi brú á Miðfjarðará. Það vildi svo slysalega til með þessa brú, að eigi hafði verið nægilega tryggilega um hana búið, svo að áin sópaði henni burtu í vöxtum. Hjeraðið hafði lagt fram fje til hennar að sínum hluta, og virðist sanngjarnt, að landssjóður taki einhvern þátt í því að gjöra hana af nýju. Nefndin hefir lagt til, að 7000 krónur sjeu veittar í þessu skyni. Aftur á móti hefir komið fram brtt. frá háttv. þm. N.-Múl. (J. J. og B. H.), um að upphæðin verði 8500 kr. Jeg get ekki, að svo stöddu, tekið afstöðu til þessarar brtt. Verð fyrst að heyra rök þau, er háttv. flutningsmenn færa fyrir henni. Þá leggur nefndin til, að veittar sjeu 8000 krónur til þess að gjöra dragferju á Skjálfandafljót, og get jeg verið því samþykkur.

Þá kem jeg að brtt. einstakra þm. við 13. gr. B. Jeg hefi þegar minst á brúna á Miðfjarðará. Enn fremur hafa komið fram tillögur um að veita fje til brúargjörða á fleiri ár: Eyjafjarðará; Hörgá, Jökulsá, Kjallaksstaðaá, Ljá, Ólafsfjarðarós og Hamarsá. Yrðu allar þessar fjárveitingar samþyktar, þá mundi það hækka liðinn um kr. 167,500. Það er þó nokkuð öðru máli að gegna um brúna á Ljá en hinar brýrnar, því að þar er að eins um endurveiting að ræða: Verði sú brú ekki gjörð í sumar, þá er auðvitað sjálfsagt að veita fje til þess að hún verði gjörð síðar, þar sem hún stendur í gildandi fjárlögum. Það er um allar þessar breytingartillögur að segja, að það væri auðvitað skemtilegast að geta brúað sem flestar ár árlega, en eins og nefndin tekur fram, þá leyfir fjárhagurinn ekki, að teknar sjeu fleiri brýr á þessu tímabili en stjórnin hefir stungið upp á og taldar eru í vegafjárveitingunum, og auk þess þær, sem nefndin hefir mælt með.

Annars vil jeg geta þess, að jeg hefi enn ekki tekið afstöðu til þessara tillagna. Jeg vil fyrst heyra rök háttv. flutningsm. fyrir þeim. Vera má, að þau verði svo góð, að óhjákvæmilegt verði að sinna þeim að einhverju leyti.

Um 13. gr. C. þarf jeg ekki að tala nú, því að brtt. við þann lið hafa verið teknar aftur að sinni.

Þá kem jeg að 13. gr. D. Þar hefir nefndin gjört nokkrar breytingartillögur. Enn fremur hefir hún gjört þá athugasemd við liðinn, að nýjar símalagningar skuli ekki koma til framkvæmda, svo framarlega sem fjárhagurinn virðist ekki leyfa það. Mjer virtist það ekki fært, þegar frumv. var samið, að láta það vera svo úr garði gjört, að þar væri ekki stungið upp á neinum nýjum símalínum. Jeg hefi nefnilega litið svo á, að það sje beint lögmælt, að tekjuafganginum af símunum sje varið til þess að leggja nýja síma. Raunar hefir tekjuafgangurinn verið hærri á pappírnum en stjórnin leggur til að varið sje til nýrra símalagninga. En símareikningurinn er ekki nákvæmur, að því leyti, að þar eru ekki með taldir til gjalda vextir af lánum. Jafnframt er það spursmál, hvort ekki myndi rjett, að gjöra þar líka fyrir fyrningu símanna, því að þótt símaþráðunum sje alt af við haldið, þá fúna samt staurarnir smám saman. Ritsímalögin marka reyndar að nokkru, hvað talið skuli til útgjalda símans, og þeim verður auðvitað að hlýða.

Nefndin hefir lagt til dálitla hækkun við rekstur stöðvanna í Reykjavík og á Borðeyri, og jeg hefi ekkert við það að athuga. Sama máli gegnir um viðgjörð á símakerfinu á Akureyri. Þar sem landið hefir einkarjett á rækslu símanna, þá er það auðvitað sjálfsagt, að það kosti til þess, að þar sje alt í góðu lagi, enda er það fjárhagslegt tap fyrir landið, ef stöðvarnar geta ekki afgreitt menn eftir þörfum.

Jeg get ekki verið sammála háttv. þm. Dal. (B. J.) um fjárveitinguna til þess að kaupa stöðvunum peningaskápa. Mjer virðist það sjálfsagt, að varðveita verðmæta muni landsins, eins á þessum stöðvum og öðrum, og fáist eldtraustir skápar ekki fyrir minna verð en nefndin stingur upp á, þá er sjálfsagt að afla þeirra samt. Þar sem nefndin hefir komið fram með athugasemdina við þennan lið, þá er þar opnuð leið til sparnaðar á 78,500 kr., ef á þarf að halda.

Háttv. þm. Dal. (B. J.) hefir borið fram breytingartill. við símaliðinn, um símalagningu til Búðardals. Það er rjett, að þingið 1914 gaf ádrátt um lagningu þessa síma 1916. En þar sem Búðardalssíminn mundi hlíta sömu athugasemd, sem aðrar nýjar línur, ber ekki að skoða svo, sem breytingartill. háttv. þm. Dal. (B. J.) fari fram á einsýn útgjöld.

Fyrir utan brtt. háttv. þm. Dal., sem jeg mintist á, hefir ekki komið fram önnur brtt. við þenna lið en tillaga háttv. þm. V.-Skaft. (S. E.), sem fer fram á það, að fella liðinn burtu. Það skiftir ekki miklu máli, hvort þessi tillaga verður samþykt eða ekki. Þó að hún verði samþykt, þá lít jeg svo á, að það útiloki ekki, að símar verði lagðir á fjárhagstímabilinu, vegna laganna frá 1913. Mjer skilst það svo, að stjórnin geti, samkvæmt þeim, gjört undanþágu, ef nauðsyn krefði og fje væri fyrir hendi.

Þá kem jeg að vitamálunum. Það er athugavert, að vitafræðingurinn hefir nú 3700 kr. laun. Þess vegna mun eigi fært að sundurliða svo laun hana, sem fjárlaganefndin leggur til. Í stað 3600 ætti því að koma 3700, og í stað 400 kr. persónulegrar launaviðbótar 300 kr. persónuleg launaviðbót. Í stjfrv. var þessi sundurliðun eigi höfð, heldur settar 4000 kr. alls. En það skiftir máli, ef mannaskifti yrðu, að 300 kr. sjeu nú settar sem persónuleg launaviðbót, því að þá fengi eftirmaður vitaverkfræðingsins 3700 kr., en ella 4000 kr.

Viðvíkjandi aðstoðarmanni hans, þá skal jeg geta þess, að jeg hefi nýlega átt tal við vitamálastjórann, og skýrði hann mjer frá því, að hann teldi það mjög tvísýnt, að þessi maður fengist til þess að halda stöðu sinni, ef hann væri skyldaður til þess, að veita mönnum ókeypis leiðbeiningar þær, sem farið er fram á. Fyrir utan hinn fasta starfa einn, hefir hann haft þá atvinnu, að leiðbeina mönnum um rafmagnsstöðvar o. s. frv., og býst því við, að tími hans verði of upptekinn, ef hann á að veita þessa ókeypis tilsögn sem nefndin talar um. Jeg lofaði að skýra háttv. Alþingi frá þessu.

Þá hefir nefndin sundurliðað kostnaðinn við einstaka vita, í reksturskostnað og laun vitavarða. Annars skal jeg geta þess, viðvíkjandi till. nefndarinnar við þessa grein, að það er leitt, ef svo kynni að fara, að fje yrði fyrir hendi, að stjórnin hefði þá ekki heimild til þess, að reisa nema 1 vita af 5, eins og nefndin stingur upp á. Jeg teldi það rjettara, að samþykkja tillögur frumvarpsins í þessu efni, en hnýta svo aftan í sams konar athugasemd og um símana. Auðvitað kæmi það varla til mála að reisa vitana fyrra árið, því að þá verður enn ekki sjeð, hvernig fjárhagnum reiðir af. En síðara árið gæti svo farið, ef ófriðnum linti, að hægt yrði að framkvæma verkin, og þá væri ilt, ef heimildina vantaði.

Við þennan lið er ekki nema ein brtt. frá háttv. þm. Snæf. (S. G.), sem jeg vænti að hann gjöri grein fyrir.

Þá kem jeg að 14. gr. og mun, eins og við 13. gr., fyrst minnast á brtt. nefndarinnar, en síðan athuga brtt. þær, er einstakir þingmenn hafa borið fram.

Fyrst skal jeg geta þess, að jeg felst fúslega á brtt. nefndarinnar um uppbót á brauðum og eftirlaunum prestsekkna. Eru þær eftir tillögum biskups og stjórnin getur ekkert á móti þeim haft. Sama er að segja um B. I, launaviðbót til Sigurðar Sivertsen dócents og Björns M. Ólsen prófessors.

Þá hefir háttv. nefnd ætlað að spara á liðnum til bókakaupa háskólans. Stjórnin hafði þar lagt til 2000 kr. fjárveitingu, en nefndin vill færa hana niður í 1800 kr.

Mjer virðist þetta ákaflega smásmuglegt hjá háttv. nefnd, að láta sig muna um þetta lítilræði; landssjóð munar það engu. Í sambandi við þetta skal jeg geta um brtt., sem fram er komin samkvæmt tilmælum heimspekisdeildar Háskólans um lítilfjörlegan styrk til bókakaupa síðara árið. Það stendur nokkuð sjerstaklegar á um þessa deild en aðrar deildir Háskólans Þegar hann var stofnaður, höfðu þær þegar starfað í mörg ár og lagt sjer til talsvert af bókum. Heimspekisdeildin var ný, og því eðlilegt, að hún þyrfti að afla sjer talsvert fleiri bóka. Hjer við bætist, að stofnað var, samkvæmt frv., sem samþ. var á síðasta þingi, nýtt embætti við þessa deild, kennaræmbætti í klassiskum fræðum. En af klassiskum bókmentum mun ekki vera mikið í söfnum landsins. Mjer virðist það óhjákvæmilegt af Alþingi, fyrst það hefir sagt a að segja þá b, og sjá um, að kensla í þessum greinum sje möguleg. Hvort veitt er einu hundraðinu meira eða minna, munar litlu, og mjer virðist það hálf nánasarlegt, að vera að klípa af þessari smáupphæð, sem engan munar um, nema þann, sem á að njóta hennar.

Það er rjett hjá nefndinni, að gleymst hefir að taka upp í frv. fjárveitingu til söngkennara við Mentaskólann, og er jeg henni þakklátur fyrir að hafa leiðrjett það.

Jeg þekki lítið til Akureyrarskólans, en býst við, að kennarinn, sem nefndin vill hækka launin við, sje illa launaður, og mun ekki leggjast á móti þessari lítilfjörlegu viðbót, sem farið er fram á.

Nefndin leggur til, að lagfæring á lóð kennaraskólans falli burt. Það má vera, að þetta geti beðið.

Þá leggur nefndin til að veita fje til að gefa út siglingafræði á íslensku. Þetta tel jeg þarfa fjárveiting, því að jeg tel rjettast, að allar kenslubækur í skólum hjer sjeu á íslensku.

Um húsmæðraskólana er það að segja, að jeg tel sjálfsagt, að þeir sjeu styrktir að sínu leyti eins og bændaskólarnir.

Tillögur nefndarinnar um barnaskólahús og um sundkenslu hjer munu vera á rökum bygðar. Um styrkinn til Björns Jakobssonar get jeg ekki sagt með vissu, en býst þó við, að sú tillaga sje á rökum bygð.

Það hefir þegar verið minst á ýmsar tillögur frá einstökum mönnum. Jeg skal sjerstaklega taka það fram um brtt. á þgskj. 415, hækkun á fjárveitingu til Blönduósskóla, að það er athugavert um þann skóla, að hann hefir aldrei gefið neina skýrslu til stjórnar nje þings.

Á sama þgskj. er brtt. um styrk til húsabóta á Bergsstöðum. Um þessa brtt. get jeg ekki dæmt, því að engin gögn hafa legið fyrir stjórninni um þetta.

Mjer skilst þá, að nefndin vilji spara í þessari grein um 121 þús. kr., og er stærsti liðurinn fólginn í barnaskólahúsunum. Þar á móti nema hækkunartillögur einstakra þingmanna um 8600.kr.