21.08.1915
Neðri deild: 39. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 139 í B-deild Alþingistíðinda. (1164)

108. mál, fjárlög 1916 og 1917

Ráðherra:

Mjer þykir það leiðinlegt, að háttv. 2. þm. N.-Múl. (J. J.) er ekki inni, því að jeg ætlaði að leyfa mjer að gjöra nokkrar almennar athugasemdir út af ræðu hans.

Eins og eðlilegt er, var aðalatriðið í því, sem hann sagði, brúin á Miðfjarðará; sem svo slysalega vildi til um, að hún fjell þegar hún var nýlega fullgjörð. Mjer virtist hann halda því fram, að landssjóður ætti að bera ábyrgðina á því, hvernig fór. Ef það er rjett skilið hjá mjer, þá er afleiðingin sú, að landssjóður ætti að endurreisa brúna að öllu leyti á sinn kostnað. Þessi brú, sem hjer er um að ræða, er á sýsluvegi, og var bygð á kostnað landssjóðs að miklu leyti, en að hinu leytinu með framlagi úr sýslusjóði. Landið mun hafa lagt ókeypis til hina verkfræðilegu vinna við að koma brúnni á. Nú er spurningin, hver á að bera áhættuna. Þetta merkir ekki einungis brúna á Miðfjarðará; heldur einnig sjerhverja aðra brú eða mannvirki á þessu landi, sem eina er ástatt um. Nú skulum við hugsa okkur, að einhver feill hefði verið í framkvæmdum verkfræðingsins, sem gjörði brúna. Þá er spurningin: Ætti landssjóður einn að bera ábyrgðina eða að eins að einhverju leyti og sýslan að einhverju leyti eða sýslan eingöngu?

Eins og jeg tók fram áðan, var þetta mannvirki gjört með styrk úr landssjóði og með ókeypis verkfræðilegri aðstoð. Mjer skilst, að landasjóður hafi verið búinn að gjöra það, sem honum bar, þegar hann var búinn að leggja fram fje til brúarinnar og láta verkfræðing sinn vinna verkið ókeypis. Starfsmaðurinn verður þá að skoðast í svona tilfelli . aðallega sem starfsmaður sýslunnar. Og þá skilst mjer, að afleiðingin af því verði sú, að sýslan eigi að bera áhættuna. Það er ekki hægt að ætlast til þess, að sá, sem slíka aðstoð lætur í tje ókeypis, eigi að bera ábyrgð á því, ef verkamanninum skjátlast. Jeg skal taka það til dæmis, að jeg hefði vinnumann, sem væri smiður, og lánaði hv. 2. þm. N. M. (J. J.) þenna smið ókeypis til að smíða baðstofu hjá honum. Nú skulum við segja, að smiðurinn gjörði eitthvert smíðafeil, svo að verkið yrði ónýtt. Ætti jeg þá að bera ábyrgðina og kosta verkið af nýju, að eins fyrir það, að jeg gjörði honum þann greiða að ljá manninn, smiðinn? Það get jeg ekki gengið inn á. Jeg held að það sje nokkuð líkt um sambandið milli sýslufjelagsins og landsjóðs, að þessu leyti. Jeg segi þetta ekki af því, að jeg vilji spilla fyrir brúnni á Miðfjarðará, heldur sem almenna athugasemd, sem gildi, hvað sem fyrir kann að koma. Svo skal jeg minnast á hitt tilfellið, að ekki hafi verið neitt feil í gjörðum verkfræðingsins. Þá er það ljóst, að því síður væri hægt að ætlast til þess, að landsjóður bæri ábyrgð á verkinu. Þetta vildi jeg taka fram, svo að það sæist að minsta kosti í þingtíðindunum, að það hafi ekki verið gengið inn á það af stjórnarinnar hálfu, að landsjóður ætti að bera áhættu af því verki, sem hjer er um að ræða og sams konar verkum. Hitt skal jeg standa við, að í svona tilfelli er það ekki nema sanngjarnt, að landsjóður hlaupi undir bagga.