21.08.1915
Neðri deild: 39. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 166 í B-deild Alþingistíðinda. (1168)

108. mál, fjárlög 1916 og 1917

Eggert Pálsson:

Jeg get strax lýst því yfir, að jeg verð ekki langorður. Enda gjörist þess ekki þörf, því að háttv. fram. fjárlaganefndar (P. J.) hefir lýst afstöðu hennar, bæði gagnvart brtt. nefndarinnar sjálfrar og hinum ýmsu brtt. annara, sem fram hafa komið við þenna kafla fjárlaganna, sem fyrir liggur til umræðu, þ. e. 13. og 14. gr. Jeg mun sýna það við atkvæðagreiðsluna, að jeg mun fylgja nefndinni í langflestum efnum.

Aðallega verður það ein undantekning, sem jeg verð að gjöra í því efni. Er það viðvíkjandi brtt. á þgskj. 410, þar sem farið er fram á fjárveitingu til brúargjörðar á Jökulsá á Sólheimasandi. Um hana verð jeg að greiða öðru vísi atkvæði en flestir samnefndarmenn mínir. Er það bæði sannfæring mín og skylda, sem býður mjer það.

Við þingmenn Rangæinga, ásamt háttv. þm. V.-Skaft. (S. E.), sendum fjárlagan. skriflega beiðni um að taka upp í fjárlögin fjárveitingu í þessu skyni. Meiri hl. nefndarinnar gat ekki orðið við þeim tilmælum. Hygg jeg að þar hafi meira ráðið ótti við yfirvofandi fjárskort landssjóðs, heldur en að menn hafi ekki viðurkent þörfina, sem hjér var fyrir hendi. Enda hefir þingið áður samþykt lög um brúargjörð á Jökulsá, og þar með viðurkent nauðsynina á því fyrirtæki. Verður ekki frá þeirri viðurkenningu gengið, og brúin hlýtur að verða bygð fyrr eða síðar. Hjer veltur að eins á því, hve nær fyrirtækið verður framkvæmt.

Meiri hl. nefndarinnar leit svo á, að ekki væri tiltækilegt að ráðast í þetta stórvirki á næsta fjárhagstímabili. Þar sem jeg meðfram hlaut að ganga inn á þá skoðun meiri hl. nefndarinnar, að útlit væri fyrir, að þröngt yrði í búi landssjóðs, þá gat jeg ekki fylgt þessu máli fram með þeim krafti, sem jeg hefði gjört, ef jeg hefði sjeð, að nægilegt fje yrði fyrir hendi. En þar sem brtt. á þgskj. 410 er svo orðuð, að fjárveiting sú, sem þar er farið fram á til brúargjörðarinnar, kemur því að eins til útborgunar, að nægilegt fje sje fyrir hendi, þá er auðsætt, að það getur ekki haft alvarlegar afleiðingar fyrir fjárhag landssjóðs, þó að hún yrði samþykt. Get eg því með góðri samvisku greitt atkvæði með henni.

Háttv. þm. V.-Skaft. (S. E.) hefir sýnt fram á það, að samgöngur milli stórra hjeraða byggjast á því, að hægt sje að komast yfir þessa á. Talsverður hluti Rangárvallasýslu verður að sækja til Víkur til aðdrátta. Auk þessa liggur aðalpóstleið yfir ána, og hefir hún oft orðið póstum mikill farartálmi. Það hefir oftsinnis komið fyrir, að Skaftfellingar hafa þurft að liggja meira en viku með fjárrekstra sína við ána. Það hagar nefnilega svo til, að engin tök eru á því að komast yfir hana, ef hún er á annað borð óreið á vanalegri leið. Þvi er svo farið með flest ef ekki öll önnur vatnsföll hjer á landi, að einhversstaðar er hægt að komast yfir þau, á ferju við upptök, eða á fjöru. En sje Jökulsá óreið, verður engum .yfir hana fært, hvorki á ferju nje á jökli, og allra síst á sjó fyrir framan mynni hennar. Allir verða að setjast þar kyrrir fyrir, sem þeir eru komnir.

Háttv. þm. V.-Skaft. (S. E.) hefir skýrt frá því, hve mörgum mönnum, sem menn vita um, áin hefir orðið að bana. En hins vegar má ganga að því sem gefnu, að hún hefir banað óbeinlínis fleirum en sögur fara af, og á eftir að bana mörgum, ef engar skorður verða við því reistar. Áin rennur í gegn um læknishjerað, og oft getur svo farið, að ekki náist til læknis, þótt ítrasta neyð kalli að.

En það, sem gjörir það mest að verkum, að jeg greiði atkvæði með þessari fjárveitingu, þrátt fyrir þröngan fjárhag, er aðallega viðaukinn við tillöguna, að ekki verði lagt ú í fyrirtækið, ef fjárhagurinn sje örðugur, vegna ófriðararins eða annara orsaka. Þessi tillaga gjörir það að verkum, að engin hætta er á því, að landssjóði verði hleypt í nein vandræði. Raunar hefi jeg ekki mikla trú á því, að hagurinn verði svo glæsilegur, að hægt verði að ráðast í fyrirtækið, en þó er ekki loku fyrir það skotið, að betur geti rætst úr en á horfist, og þá tel jeg það vel farið að því fje, sem afganga verður, verði varið til einhvers nytsemdarfyrirtækis, svo sem til að brúa þessa á. Hins vegar skal jeg kannast við það, að betur hefði farið á því, að upphæðin hefði verið sett á síðara árið, vegna þess, að ekki verður um það sagt fyrra árið fyrir fram, hvort fjárhagurinn verði svo örðugur, að ekki sje hægt að leggja út í fyrirtækið. En þetta gjörir í sjálfu sjer ekki mikið til, vegna þess, að verði tillagan samþykt, þá er hægur vandi, að flytja upphæðina yfir á síðara árið við 3. umræðu.