21.08.1915
Neðri deild: 39. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 173 í B-deild Alþingistíðinda. (1171)

108. mál, fjárlög 1916 og 1917

Benedikt Sveinsson :

Jeg er svo heppinn, að jeg á enga brtt. við þenna hluta fjárlaganna. Þó ætla jeg að minnast á örfá atriði í brtt. þeim, sem fram hafa komið.

Skal jeg þá fyrst snúa mjer að brtt. háttv. þm. N.-M. (J. J. og B. H.) um brúna á Miðfjarðará. Mjer virðist krafa þingmanna sýslunnar í þessu efni vera á fullum rökum bygð. Jeg verð að telja það sjálfsagt, þegar um slík mannvirki er að ræða, sem landið leggur i, að verkfræðingar þess eigi þar hlut að máli og ábyrgist, að verkið sje tryggilega gjört. Jeg býst ekki við, að verkfræðingarnir geti borið þessa ábyrgð upp á eigin spýtur, og verður landið því að gjöra það fyrir þeirra hönd. Það er því síður ástæða til þess að láta þetta slys koma niður á sýslunni, sem verkfræðingur var varaður við að hafa brúna á þessum stað, en hann treysti betur sínu bókviti, sem hann hafði fengið suður í Kaupmannahöfn, heldur en þekkingu kunnugra manna til staðhátta. Síðan er bætt gráu ofan á svart með því að kenna verkstjóranum um slysið, sem ekkert hafði annað gjört en farið eftir forsögnum verkfræðingsins og þeim fyrirskipunum, er honum höfðu verið gefnar. Hann rjeð auðvitað engu um brúarstæðið.

Jeg vil nota tækifærið til þess að drepa á umkvartanir manna um það, að ráðstafanir verkfræðinganna sjeu margar af alt of miklu einræði gjörðar. Þeir fara um staðina um hásumar, þegar alt er þurt, og gjöra svo ákvarðanir sínar eftir því, án þess að skeyta ráðum eða frásögnum kunnugra manna um það, að þarna sjeu forarflæði vetur, vor og haust. Svo hefir það verið víða, t. í Mýrasýslu. Vegirnir eru ófærir nema um hásumarið, liggja undir fönn á vetrum, en eru ein forarleðja og ótræði vor og haust; skurðirnir með fram þeim barmafullir af vatni, sem ekki verður veitt burtu, en flóir stundum upp á sjálfa vegina og jafnvel yfir þá. Viðhald alt verður miklum mun dýrara og erfiðara, þegar vegirnir eru svona gjörðir í upphafi, eins og nærri má geta. Það er því engin furða, þótt sífeldar kvartanir heyrist úr hjeruðum um það, að þurfa að halda vegunum við. Þetta hafa skynsamir, gætnir og glöggir menn sagt mjer, og margt hefi jeg eigin augum lítið, sem er svo alvarlegt, að jeg taldi sjálfsagt að vekja máls á því, ef vera mætti, að bót yrði ráðin á því framvegis. En það er ekki von að betur fari, þar sem þeir menn, er fyrir verkunum standa, hafa ekki annað við að styðjast en danskar bækur, sem þeir hafa lesið suður í Kaupmannahöfn og treysta eins og nýju neti.

Menn þurfa að hafa reynslu samfara bókaþekkingu, vita hvernig til hagar um jarðveginn á öllum tímum árs og kynna sjer, hvernig snjóa leggur á vetrum. Það er ekki lítið í húfi hjer. Jeg gæti nefnt ýms dæmi, þar sem peningum er sama sem kastað á glæ á þenna hátt, t. d. brúna á Gljúfrá í Borgarfirði. Þar hagar svo til, að byljirnir kemba stórfenni yfir veginn að henni og brúna sjálfa á vetrum, svo að hún er lítt fær eða ekki, og stafar. það eingöngu af því, að ekki var tekið til greina það, sem kunnugir menn sögðu um brúarstæðið. Jeg vildi benda á þetta í sambandi við brúna á Miðfjarðará. Slysið þar ætti að verða stjórninni eftirminnileg ráðning og verða til þess, að slík verk verði unnin af meiri þekkingu á staðháttum hjer eftir, heldur en stundum hefir þótt brenna við.

Í þessum kafla fjárlaganna er allur bálkurinn um samgöngur á sjó, en hann liggur ekki fyrir nú, því að strandferðanefndin hefir eigi gengið frá tillögum sínum og ekkert álit frá henni komið.

Þessi kafli verður því að bíða til þriðju umræðu. Það er allilt, því að hjer er um einna mikilvægasta kafla fjárlaganna að ræða, sem tæplega er forsvaranlegt að hafa ekki nema eina umræðu um. Þau mál, er undir hann heyra, snerta öll hjeruð landsins að meira eða minna leyti, og er því nauðsynlegt, að þau sjeu rædd ítarlega.

Jeg get því ekki talað um þenna kafla að þessu sinni, en vil þó drepa á eitt atriði og treysti því, að þeir, sem í nefndinni eru, taki til greina tillögur frá kunnugum mönnum Jeg skal benda á það, að samkvæmt frv. eru bátnum á Eyjafirði ætlaðar 3500 kr., en á síðasta þingi voru veittar til hans 9000 kr. Það er athugandi, að þessi bátur var ætlaður til strandferða norðanlands, alla leið norður um Raufarhöfn, Kópasker og Þórshöfn. En skaði mikill væri það þessum stöðum og hjeruðum, ef ferðir þessar eiga nú að leggjast niður og ekki koma þá aðrar skipaferðir í staðinn.

Þótt styrkurinn, sem er í gildandi fjárl., 9000 kr., sje í lægra lagi, mundi þó, ef til vill, mega bjargast við hann.

Jeg bendi á þetta til þess, að nefndin athugi, að hjeruðin verði ekki svikin um samgöngur, sem þau hafa haft, nema þá að annað komi í staðinn, t. d. strandferðir verði bættar að sama skapi.

Tillögurnar um símana virðast eiga örðugt uppdráttar. Háttv. þm. Dal. (B. J.) hefir rakið það mál rækilega. Það er öllum kunnugt, að afgangur af símatekjunum á að ganga til þess að gjöra nýja síma. Fyrra árið eru ætlaðar til símalagninga 28,500 kr. Símatekjur þar á móti áætlaðar 195 þús. kr. Þótt nú frá þessari upphæð sje dreginn reksturskostnaður, afborgun og vextir af lánum til síma, er þó sýnilegt, að drjúg fúlga verður eftir um fram þessi 28,500 kr., og mundi nægja til þess að leggja þá síma, sem frumvörp komu fram um í fyrra að leggja, frá mjer og fleirum, en hafnað var þá, með beinu loforði þó um, að þeir skyldu teknir í fjárlög nú og lagðir 1916.

Jeg skal sjerstaklega snúa mjer að athugasemd nefndarinnar við símana. Þar er stjórninni heimilað að fella niður algjörlega að leggja nokkurn síma og verja hinu lögboðna símalagningarfje, sem mjer telst muni vera 55 þús. kr., til annarra þarfa landssjóðs. En jafnframt er til skilið, að hjeruðin greiði venjulegt símafjárframlag. Þetta gjald hjeraðanna var stofnað með rangsleitni, en þá fyrst kastar nú tólfunum, þegar stjórninni er heimilað að svipta hjeruðin símum, sem landinu er skylt að leggja og beint hefir verið heitið að leggja á ákveðnum tíma. Jeg vona, að háttv. deild samþykki ekki þessa viðaukatill. nefndarinnar. Og þótt samþykt verði, ber jeg það traust til stjórnarinnar, að hún neyti eigi heimildarinnar. Sjerstaklega vona jeg, að hún verði svo hagsýn, að láta þetta að minsta kosti ekki bitna á Raufarhafnarsímanum. Næsta ár á að leggja sima frá Svalbarði til Húsavíkur, og þá liggur í augum uppi, að hagfeldast er að leggja þenna símastúf í sama bygðarlaginu á sama tíma, eins og lofað hefir verið. Með því mundi sparast mikið fje, ef báðir símarnir væru lagðir samsumars, en ekki sitt sumarið hvor. Verkamenn, verkfræðingar og áhöld öll væru þá við höndina. Mundi þetta leiða til hins mesta sparnaðar á flutningum og tíma. Auk þessa er þessi sími einn hinna nauðsynlegustu og mun skjótt gefa landssjóði góðan arð, sem sjá má af því, að útflutningsgjald af fiski og síld nam 10 þús. kr. árið sem leið á Raufarhöfn.

Þá sný jeg mjer að 14. gr. Þar verður fyrst fyrir mjer tillaga nefndarinnar, um að lækka styrk til bókakaupa í Háskólanum úr 2000 kr. niður í 1800 kr. Þar þykir mjer nefndin í meira lagi nánasarleg, og hefði þótt betur við eiga, að ráðist hefði verið á einhvern lið, sem um hefði munað. Þess er að gæta, að svo ung stofnun, sem Háskólinn er, getur beðið hinn mesta hnekki við brest á bókum, og yfirleitt má segja það um bókasöfn hjer, að þau sjeu harla ófullkomin, svo að vart er við unandi. Eindæmum sætir, er ekki fæst hjer í bókasafni Alþingis rit eins og Andvari, svo að menn verða að hafa þau rit með sjer að heiman, ef nota vilja. Þetta kom fyrir í nefnd á dögunum, að alls ómögulegt reyndist að ná í eitt hefti af Andvara, og má ekki svo vera, að slíkar bækur vanti.

Þá leggur nefndin til, að lækka styrkinn til útgáfu kenslubóka Háskólana. Jeg þarf varla að fara mörgum örðum um, hver vandræði það eru, hver brestur er á kenslubókum hjer í landi, og hve leitt það er, skaðlegt og óhentugt, að unglingar nemi fræði sín af dönskum. Öllum er það ljóst, að bæði er þetta plága fyrir nemendur, að þurfa að basla við útleggingar úr erlendum tungum, til þess að geta numið fræði sín, og eyða í það óþarflega miklum tíma, en einkanlega eyðir þetta eða spillir smekk fyrir fögru máli. Því er nauðsynlegt, að námabækur vorar sje á íslensku, einkum upphafsbækur í námi. Íslendingar eru námfúsir menn, en útlendar bækur koma ekki alþýðumönnum, þeim er nema vilja, að haldi, en með kenslubókunum dreifist þekkingin um landið. Það hefði jafnvel verið þörf á að veita meira fje til íslenskra kenslubóka og launa betur, til þess að hæfir menn fengist til að semja þær.

Það hefir verið talað um styrk til húsmæðraskóla á Akureyri. Jeg skal ekki fara neitt út í þá sálma, hvort rjett sje að hafa skólann þar eða í sveit, en um það er mjög deilt, og flestir eða allir þeir, sem mest hafa um það mál fjallað, telja hentara, að slíkur skóli sje í sveit. En meðan ekki er skorið úr því, að skólinn skuli vera á Akureyri, og eins líklegt, að hann verði settur annarstaðar áður langt um líður, þá finst mjer mjög misráðið, að veita fje til þess að reisa skólahús á Akureyri. Slíkt getur ekki komið til tala að svo vöxnu máli.

Loks sný jeg mjer að hækkun á styrk til kvennaskólana í Reykjavík. Mjer þykir viðurhlutamikið að hækka þenna styrk sífelt. Alt það, sem lært er í skóla þessum, má læra í öðrum skólum hjer, og því sýnist rjetta leiðin vera sú, þar sem nú er komið jafnrjetti milli karla og kvenna, svo að konur geta sótt alla skóla, að láta þann styrk minka smátt og smátt, en hvergi vaxa.