23.08.1915
Neðri deild: 40. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 214 í B-deild Alþingistíðinda. (1177)

108. mál, fjárlög 1916 og 1917

Bjarni Jónsson:

Jeg stend upp til þess að leysa vandkvæði hinna, sem ekki eru enn við því búnir að taka til máls. Jeg hefi þó því miður ekki haft tíma til að melta sumt, sem komið hefir eins og skúr úr heiðríkju frá fjárlaganefnd. Hún kveður enn við sama tón, gengur með slátrunarknífinn reiddan um öxl, og er sama hvar lendir, en miðar þó sjerstaklega á smáupphæðir, en lætur fremur hitt standa, sem nokkurum útlátum nemur. T. d. ræðst nefndin á 500 kr., sem nauðsynlegt er að bæta við afskriftir af íslenskum skjölum í Kaupmannahöfn. Heggur sá sem hlífa skyldi. Síst hefði mátt við því búast. af bændastjett landsins, sem einkanlega skipar fjárlaganefnd, að hún vilji ekki bæta úr bölvi liðinna alda, eða horfi ekki í að draga úr viðleitni manna til þess að ná inn í landið jafngildi gamalla skjala, sem úr því hafa verið dregin. Þetta tel jeg ekki vel hugsað, síst þegar upphæðin nemur að eina 500 kr.

Sams konar er önnur tillaga nefndarinnar um að fella burt smáupphæð, sem ætluð er til þess að halda við Þingvelli eða laga þar svo til, að staðurinn líti ekki út eina og flag, þennan stað, sem við eru bundnar sárustu og bestu endurminningar þjóðarinnar. Það væri undarlegt, ef landssjóður hefði ekki efni á að kosta nokkurum hundruðum króna til svo bráðnauðsynlegs fyrirtækis. Og það er ekki vansalaust að hafa völlinn svo, sem hann er nú. Það er ekki í það horfandi, þótt landið sæi um, að þar væri reist veglegt gistihús fyrir innlenda og útlenda, og hefði eftirlit með vellinum, svo að þar færi ekki annað fram en á að vera, og mættu þá landsmenn gleðja sig þar og læra, en útlendingar sjá, að Íslendingar kunna að meta sóma sinn og sögu. Fjárlaganefndin hefir víst ekki treyst því, að breddan biti vel, fyrst hún vill skera niður þessa litlu upphæð.

Hitt er skiljanlegra, að hún legst á móti einni tillögu frá mjer, því að þar eru þó þrjú núllin til að glíma við, einkanlega þar sem um mentamál er að ræða. Jeg á hjer við tillögu mína um 1,000 kr. styrk til Alexanders Jóhannessonar. Þessi maður hefir lagt í mikinn kostnað við nám sitt, hefir stundað nám í Halle og Leipzig, og hlustað þar meðal annara á Sivers, hinn heimsfræga hljóðfræðing, þann er fyrstur taldi það, að qvantitas væri til í íslensku, eins og allir vita. Þessi maður er fátækur maður; misti hann föður sinn í æsku, en móðir hans kom honum fram, en síðari árin hefir hann barist áfram af eigin ramleik. Nú vill hann sækja um styrk þannig lagaðan, að hann leggi fram sjerstaka vinnu gegn styrknum. Ber það til sjerstaklega, að hann veit, að óþektar eru hjer kenningar Sivera, og rannsóknir um áhrif ýmsra vöðva á röddina; gætu þessar kenningar verið mjög gagnlegar fyrir alla þá, sem starfa að listum og eins ræðusnillinga, svo að ekki er ólíklegt, að þingmenn, er þeir hefðu hlustað á þenna pilt, í einn vetur gætu talað af miklu meiri snild og hljómfegurð en áður, og orðið til að keppa við Cicero og aðra mælskumenn úr fornöld. Væri það ekki ómerkilegt atriði, að löggjafarnir yrðu raddfegri, þegar þeir halda líkræðurnar yfir nauðaynjamálum þessa lands. En svo að jeg snúi mjer að alvörunni, þá er það leiðinlegt, að ekki skuli vera til góður kennari við Háskólann, til þess að veita leiðbeiningar í merkilegum uppgötvunum síðari tíma. Hjer fer og engin kensla fram í þýsku, og ekki heldur gotnesku, og mundi þó Björn M. Ólsen geta frætt þingmenn um það, að þar vantar kenslu, og enginn getur tekið próf í íslenskum fræðum, af því, að enginn er hjer á landi, er kent gæti gotnesku, sem þó er bein skyldunámagrein fyrir þá, sem próf vilja taka í norrænum fræðum. Að því mundi þess vegna reka, að stofna þyrfti docentsembætti í þessari grein, því að ótækt mun öllum þykja, að hver sá, sem taka vill próf í norrænum fræðum hjer, verði að sigla til þess að læra þessa aukagrein. Þess vegna trúi jeg ekki öðru en að háttv. þingdeild og fjárlaganefnd styrki þenna efnilega unga mann til að halda uppi kenslu í þessari grein, enda fylgir styrknum engin skuldbinding um, að stofnað verði úr þessu nýtt embætti á næsta þingi, og þarf því fjárlaganefnd ekki annað en brýna kuta sinn, og nema styrkinn burt.

Þá kem jeg að listamönnunum og skáldunum. Fjárlaganefndin hefir alveg misskilið stöðu sína, þegar hún hafði þenna lið til meðferðar. Enginn hefir til þess ætlast, að úthlutun styrksins færðist yfir í hendur fjárlaganefndarinnar. Það hefir verið talað um, að stjórnin hefði þetta úthlutunarvald á hendi. Mjer þykir háttv. nefnd tala alldigurbarkalega, er hún leyfir sjer að fara að tiltaka þá menn, er styrksins skuli njóta. Mætti þó víst vel finna 7 menn, sem alt eins vel væru færir um að leysa fjárlaganefnd af hólmi að þessu leyti, enda er hún ekki til þess kosin, að dæma um verk manna í listum eða vísindum. Jeg mótmæli því eindregið yfirlýsing þeirri, er felst í nefndaráliti fjárlaganefndar, ekki af því, að jeg sje á móti nöfnum þeim, sem þar eru nefnd, heldur af hinu, að stjórnin kann að telja sjer skylt að fara eftir henni. Eina upphæð þeirra, sem nefndin sjerstaklega nefnir, vil jeg minnast á í þessu sambandi. Nefndin ætlar sjer hvorki meira nje minna en að láta Einar Jónsson fá 1500 kr. árlegan styrk. Þessi maður hefir gefið landinu öll sín verk. Álitamál getur verið, hversu mikils virði þau sjeu. Verkin eru 30 talsins, og ef hvert er talið 4000 kr. virði, þá verða þau samtals 120 þús. kr. virði, en auðvitað geta þau verið miklu meira virði, ef maðurinn hefði verið erlendis, og orðið frægur, þá er ekki gottt að segja, hve hátt hefði mátt meta þau. En nú er maðurinn ekki að reikna, hve mikils virði verk sín sjeu, heldur er hann guðs feginn, að geta gefið landinu þau. Siðferðislega er sú gjöf jafnmikils virði, sem þá er móðir gefur barn sitt, sem hún hefir lagt ástríki við, og er allur annar mælikvarði á það leggjandi en venjulegur verðlagaskrár mælikvarði. Á við um þetta sú grein úr biblíunni, sem telur ekkjuna hafa lagt mest í guðskistuna.

Það er ekki mikið í lagt, þótt verkin sjeu metin 100 þús. kr. virði, og víst er ekki með öllu ómögulegt, að þau sjeu alt að hálfrar miljónar króna virði. Þótt nú með þessari gjöf Einars sje ekki sjeð til gjalda, þá er það samt smán fyrir Alþingi, að taka við henni og bjóða honum svo 1500 kr. laun á ári, til þess að vinna framvegis í þarfir listarinnar, og það á stríðstímum, þegar engum útlendingum dettur í hug að kaupa listaverk hans. Vita menn sem ætla sjer að samþykkja þessa 1500 kr. fjárveitingu, hvað það kostar manninn, að lifa hjer við vinnu sína? Hann þarf að hafa sjerstaka vinnustofu, og kostar það mikið. Hann þarf mikið af efni til vinnunnar, og kostar það einnig nokkuð. Og þar að auki þarf hann að lifa eins og aðrir, en það virðast menn ekki renna grun i.

Auk þessarar gjafmildi vill svo þingið ekki veita fje til að kaupa listaverk þau, sem hann hefir í smíðum. Nei, nú á einmitt að fella burtu fjárveitinguna til að kaupa ný listaverk. Það er eins og tilgangurinn sje sá einn, að murka úr manninum lífið.

Jeg veit, að Einar hefir nú í smíðum listaverk, sem á að heita Þorfinnur Karlsefni. Ef nú Alþingi vildi veita fje til að kaupa það af honum, þá skyldi jeg ekkert kvarta undan meðferðinni á manninum.

Í sömu andránni, sem verið er að klípa af styrknum til Einars, þá styrkir landið annan mann til að sigla í þeim tilgangi, að læra myndhöggvaralist. Jeg er satt að segja hissa á, að nokkur maður skuli vilja sigla út í sömu óvissuna og Einar, og hafa fyrir augum meðferð Alþingis á honum. Sjá í fjárlögunum þenna smánarlega styrk.

Það, sem var einna aðdáunarverðast, af öllu þessu, sem háttv. framsögum. fjárlaganefndar (P. J.) sagði, var það, er hann sagði frá því, að nefndin vildi láta klípa af styrk listamannanna til þess að láta reisa hús yfir listaverk Einars Jónssonar. Veit maðurinn, að þetta er sama sem að segja: Þið kæru listamenn! Það er ekki nóg, að þið gefið okkur öll ykkar verk, heldur verðum við að nema af rjettlátum launum ykkar, til þess að geta reist skýli yfir þau!?

Háttv. framsögum. (P. J.) sagði frá því, að jeg hefði gint þingið til að veita þessar 4 þús. kr. með því að segja, að hægt væri að byggja ódýran geymsluskúr, til að geyma listaverkin i. Hafi þessi orð mín orðið til þess að ginna þingið, til þess að taka við gjöf Einars, þá tel jeg það vel farið. En hinu vík jeg ekki frá, að jeg skal taka að mjer að koma upp geymsluskúr fyrir 600 kr., eins og jeg hefi sagt. Það verður hægt að geyma listaverkin þar, án þess að þau skemmist, þangað til búið er að spara nógan styrk frá listamönnunum til að koma öðru veglegra húsi!

Þetta vildi jeg sagt hafa um þá, sem fjárlaganefndin nafngreinir. En það eru margir, sem þó hafa áður fengið styrk, sem hún ekki nefnir, og virðist því ekki ætlast til að fái neinn styrk. Jeg skal einungis nefna Kjarval málara. Hann er einstaklega efnilegur listamaður. En það er eins og annað með þessa sælu fjárlaganefnd. Hún vill nú nema af þessum styrk, sem listamönnunum var ætlaður í frumvarpi stjórnarinnar, svo stjórninni verði ómögulegt að veita neitt, nema þessa hungurlús, sem nefndin ætlar að veita örfáum mönnum.

Jeg ætla enn einu sinni að mótmæla því, að fjárlaganefndin hafi neitt vald til þess, að nafngreina nokkurn mann í áliti sínu um þetta efni. Jeg trúi þó stjórninni það betur, hversu fjandsamleg sem hún annars kann að vera mjer, að hún taki þó orð mín meir til greina en þessir böðlar lista og vísinda, sem sæti eiga í þessari fjárlaganefnd.

Jeg skal þá hverfa frá þessu efni að sinni; jeg býst við að fjárlaganefndin þakki fyrir sig, og mun jeg þá reyna að þakka henni aftur, fyrir meðferðina á listamönnunum.

Jeg vil gjarna mæla með styrknum til Vilhelms Jakobssonar, til að fullkomna sig í hraðritun. Það, að jeg mæli með þessu, er ekki af því, að jeg þekki

manninn neitt, heldur af hinu, að jeg vil helst að það komi rjett, sem jeg hefi sagt hjer á þingi. Jeg segi þetta ekki til að lasta skrifara þingsins, þá sem nú eru, en það vita allir, að það er ómögulegt að ná ræðum manna og skrifa þó snarhönd. Jeg mun því reyna að koma með brtt. við þingsköpin, um að alt verði framvegis hraðritað, sem sagt er hjer á þingi. Þessi maður, sem jeg nefndi, hefir nú þegar lært svo mikið, að hann vantar nú lítið á að verða útlærður. Hann gæti þá kent skrifurunum, sem nú eru hjer, hraðritun, svo að þeir gæti orðið við þingið framvegis, og er þá vel farið.

Þá vil jeg enn nefna einn lið í fjárlögunum. Það er styrkurinn til Boga Melsted. Jeg var áður á móti því, að veita þeim manni styrk til ritstarfa, og var það af því, að mjer líkaði ekki sagan, sem út var að koma eftir hann. En þessum manni hefir síðan verið veittur styrkur í fjárlögum okkar, og því mun jeg ekki verða til þess að svíkja hann um það, sem skoða má að Alþingi hafi lofað. Þessi maður hefir auk þess vaxið síðan í áliti mínu, fyrir ritgjörð, sem hann hefir nýlega skrifað, um siglingar fornmanna, og mun jeg því nú glaður greiða atkvæði með styrk til hans.

Jeg ætla í einu atriði að vera góður við nefndina, og hjálpa henni til að hækka styrkinn til Helga Pjeturss um 800 kr. Helgi er nú á rannsóknarferð, og vona jeg að heilsa hans sje nú orðin svo góð, að hann geti framvegis unnið óskiftur að starfi sínu.

Háttv. fjárlaganefnd segir, að stórstúkan hafi sótt um að fá 2000 kr. styrk til að hafa eftirlit með því, að bannlögin verði ekki brotin. Og segjast templarar ætla að gjöra þetta með öllu leyfilegu móti. Þetta er auðvitað fagurt fyrirheit, en jeg veit ekki til, að templarar eigi að hafa neitt lögreglueftirlit í landinu, og myndu þeir því ekki verða í þessu efni annað en það, sem »Psykophantar« og »Delatorar« voru með Grikkjum og Rómverjum. Jeg verð því, sóma míns vegna, að vera á móti þessari fjárveitingu. Og er það ekki af því, að jeg ekki unni fjelaginu als hins besta. En þetta er ekki starfssvið fyrir það.

Mjer þykir heldur færast skörin upp í bekkinn, þegar fram kemur frá háttv. fjárlaganefnd tillaga um að fella í 16. gr. styrkinn til búnaðarsambandanna. Og það á þessu bændavaldsþingi. Jeg lasta það auðvitað ekki, að bændurnir skuli vera svona óeigingjarnir, en samt finst mjer tillagan mjög svo óviturleg. Þótt bóndi fái 11 aura á dagsverkið, sem hann vinnur að jarðabótum, þá er það vitanlegt, að hann vinnur ekki jarðabætur í þeim tilgangi að ná í þenna styrk, en samt er þetta uppörfun, að eiga von á, þó ekki sje nema þessi litla viðurkenning. Þessi styrkur er auk þess ekki svo hár, að mikið muni um hann, og mun jeg því greiða atkvæði á móti tilögunni.

Aftur á móti mun jeg greiða atkvæði á móti styrkveitingunni til Miklavatnsmýraráveitunnar. Jeg sje ekki ástæðu til, að landið fari að leggja í þessa áveitu 13,000 kr. Sýslan fær lán til þess að veita á Skeiðin og kostar þetta verk sjálf að öllu leyti. En þar fæst þá reynslan án kostnaðar. Jeg held að nefndinni hefði verið sæmra að skera þetta niður, en ekki sumt annað, sem hún hefir lagt niður við trogið.

Jeg hefi ekki sjeð neina skýrslu frá nefndinni um það, hvort 15000 kr. sjeu taldar nægja við tilraunina, að veita Þverá í annan farveg. Jeg hugsa að upphæðin sje sett alveg út í loftið.

Loks er það eitt af afrekum nefndarinnar, að saga 200 kr. af skógræktinni og 300 kr. af launum húsabyggingaráðunautsins. Hann á ekki að fá hjá nefndinni nema 1200 kr. í stað 1500 kr., sem hann hafði farið fram á að laun sín yrðu ákveðin. Þessi maður, sem jeg gat um, er mjög vel vinnandi maður, og jeg veit, að hann verður ekki lengi í þjónustu landsins fyrir slík sultarlaun, sem honum eru ætluð. Jeg vona að honum verði veittar 1500 kr. .

Þá er enn eitt vísindaverkið nefndarinnar; það er styrkurinn til Samvinnufjelaganna, 1000 kr.! Þeir eiga svei mjer ekki að hlaupa til annara landa til að menta sig, þeir sem eiga að kenna þessa fræðigrein.

Þá sagði háttv. framsögum., að þeir í nefndinni gætu ekki verið með þessum smástyrk til brúargjörðar í Dalasýslu. Ekki vildi hann heldur fallast á tillögu mína um að veita 2000 kr. styrk til bryggjugjörðar í Búðardal, gegn jafnmiklu framlagi annarstaðar að. Hann vildi álíta, að landssjóður ætti ekki að leggja til nema 1/3 hluta kostnaðarins. Hann sagði, að Blönduósbryggjan væri rjett undir búin, því að þar væri þetta brot áskilið. Jeg hef nú ekki heyrt það, að svo væri fyrir mælt í lögum á Íslandi, að Alþingi mætti ekki styrkja verklegar framkvæmdir nema að þriðjungi. Mjer heyrðist hann sjálfur mæla með styrk til hafskipabryggju á Búðareyri við Reyðarfjörð, gegn helmings framlagi annarstaðar að. Þar hefir hann sjálfur brotið þetta »princip« sitt, svo að syndin er sameiginleg. Commune naufragium dulce. Ef mönnum þykir það til of mikils mælst, að leggja til helming kostnaðarins á móti hlutaðeigendum, þá þykir mjer betra að þeir fái 1/3 heldur en ekki neitt, og ef þessi til- laga verður feld, mun jeg leggja það til við 3. umr., að veittur verði 1/3 kostnaðarins.

Það var sjálfsagt rjett, sem háttv. framsögum. sagði, að jeg hefði ekki látið nægar skýrslur fylgja þessari beiðni, en jeg skal heita því, að fá skýrslu um Búðardalsbryggjuna hjá Jóni Þorlákssyni fyrir 3. umræðu, því að hann hefir gjört nákvæma teikningu af henni og kostnaðaráætlun. Jeg skal minnast þess, að fá skýrsluna fyrir 3. umr., því að jeg mundi ekki eftir því, að það þyrfti að búa svo í hendur fjárlaganefndarinnar, að maður þurfi að skrifa upp beiðnir, sem liggja hjer frammi í lestrarsalnum og senda henni þær með eigin nafni og innsigli. Eftir áætlun mun bryggjan tæplega kosta 4000 kr., svo að það verður aldrei meira en 2000 kr., sem landssjóður þarf að leggja fram, en ef til vill eitthvað minna.

Jeg skal geta þess, af því að menn taka stundum tillit til þess, hvernig stendur á, að þetta er eina kauptúnið við fjörðinn, sem skipasigling er til. Nú háttar svo til, að þarna er mikið útfiri, svo að skip verða oft að bíða í 3 klukkustundir eftir sjávarfalli, því að þann tíma verður uppskipunarbátum hvergi lent. Þess vegna er ærin nauðsyn á, að hafa þarna langa bryggju; það gjörir skipunum aðgengilegra að koma þar við. Jeg vona að menn líti á nauðsyn Dalamanna í þessu efni, og eins með bryggjuna inni í Salthólmavík. Upphæðin, sem þar er farið fram á, er svo lítil, að jeg skil ekki að fjárhagur landsins geti hallast vegna hennar. Jeg er líka fús til að bæta inn í tillöguna orðunum »alt að«. Við það gæti ef til vill sparast 10–20 kr. sem svo mætti verja til einhvers stórfyrirtækis á næsta fjárlagaþingi.

Jeg skal nú ekki vera margorður úr þessu. Jeg er þakklátur fjárlaganefndinni fyrir margt, sem hún hefir gjört, en jeg hefi farið að eins og gjört er tíðast í heiminum, að jeg hefi orðið margorður um það sem miður fer, en látið hitt liggja í láginni, sem betur má fara.

Jeg vona, að háttv. framsögum. taki nú vel undir mínar málaleitanir, svo að jeg þurfi ekki að tefja tíma deildarinnar með því að taka aftur til máls. Sjerstaklega vil jeg skora á menn að samþykkja heldur mína tillögu, heldur en tillögu nefndarinnar, um listamannastyrkinn. En menn mega fyrir mjer gjarnan fella báðar tillögurnar, ef menn vilja láta styrkinn halda sjer eins og hann er í fjárlagafrumvarpi stjórnarinnar.