23.08.1915
Neðri deild: 40. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 224 í B-deild Alþingistíðinda. (1178)

108. mál, fjárlög 1916 og 1917

Ráðherra:

Háttv. þm. Dal. (B. J.) hefir nú talað langt mál og haldið reiðilestur yfir fjárlaganefndinni. Þann reiðilestur ætla jeg ekki að endurtaka, því að jeg er að mestu leyti sammála fjárlaganefndinni og kann henni góðar þakkir fyrir störf hennar. Jeg vil að eins leyfa mjer að lýsa því nokkuð, hvernig fjárlögin kæmu til með að líta út, ef allar þær tillögur til hækkunar, sem fram hafa komið, yrðu samþyktar. Í 8.–12. gr. er hækkunin 31000 kr., og í 13.–14. gr. tæplega 51000 kr. Það verður samtals 82000 kr. Ef svo allar þær tillögur til hækkunar, sem komið hafa fram við þær greinar, sem eftir eru, yrðu samþyktar, þá er útkoman á þessa leið : Hækkun á 15. gr. myndi nema minst 16–17 þús. kr., þó allar lækkunartillögur, sem komið hafa fram við sömu gr., yrðu samþyktar. 16. gr. hækkar um 7–8 þús. kr. 18. gr. er í jafnvægi hjá nefndinni.

En ef þetta færi nú svo, sem hugsanlegt er, að allar þessar hækkunartillögur yrðu samþyktar, þá myndi neðri deild skila fjárlögunum með hjer um bil 240000 kr. tekjuhalla. Við þetta er þó það að athuga, að sumar fjárveitingar, t. d. til símalagninga og til brúar á Jökulsá á Sólheimasandi, hefir stjórnin heimild til að draga og fresta framkvæmdum þessara verka, ef fjárhagur reynist örðugur, en þær nema samtals um 175 þús. kr. Sá ótvíræði tekjuhalli yrði þá 68–69 þús. kr., og er það satt að segja ekkert ægilegt, því að búast má við, að tekjurnar verði líka hærri en áætlað er. Þó er það enn þá að athuga við þetta, að ýmsar umframgreiðslur munu verða óhjákvæmilegar. Þar að auki má búast við, að á þingi verði, eins og vant er, samþykt lög, sem hafi í för með sjer fjárgreiðslur. (Pjetur Jónsson: Það er þegar búið að samþykkja slík lög). Já, en þau geta orðið fleiri. Jeg veit ekki hvort nefndin hefir yfirlit yfir þessi lög, en jeg gjöri þó ráð fyrir að hún fylgist með í þessu atriði.

Þá skal jeg leyfa mjer með nokkrum orðum að víkja að brtt. þeim, sem fram hafa komið við þann kafla fjárlaganna, sem nú er til umræðu, og vil jeg byrja á brtt. nefndarinnar.

Það er þá fyrst 1. brtt. nefndarinnar við 15. gr. um að styrkur sá, sem Landsbókasafninu er ætlaður til spjaldskrársamningar, verði hækkaður um 400 kr. hvort árið, eða 800 kr. alla á fjárhagstímabilinu. Jeg er í sjálfu sjer ekki mótfallinn þessum styrk, en þegar á hann er litið í sambandi við annan styrk, styrkinn til að afskrifa og ljósmynda skjöl, er snerta Ísland, í útlendum skjalasöfnum, sem nefndin vill lækka niður í 1000 kr., þá verður ekki neitt samræmi milli þessara tveggja styrkveitinga. Jeg skal játa það fúslega, að það er full þörf á því, að skrá Landsbókasafnið, og jeg treysti þeim manni vel, sem undanfarið hefir haft það starf á hendi, enda mun hann vera sá hæfasti maður, sem völ er á til þess. En það er engu síður þörf á að afrita íslensk skjöl í erlendum söfnum, og ef nefndin hefði viljað hafa samræmi i gjörðum sínum, þá hefði hún átt að hafa meiri jöfnuð í þessum styrkveitingum. (Pjetur Jónsson: Jeg sje ekki, að það sje svo náið samband þar á milli). Það er einmitt náið samband þar á milli. Það er stefnt að sama markmiði með báðum fjárveitingum, og jeg ímynda mjer, rjett á litið, að eins mikið gagn sje í því, að afrita merk skjöl íslensk, sem geymd eru í Ríkisskjalasafninu og öðrum söfnum í Kaupmannahöfn, og að skrá Landsbókasafnið. En þetta eru nú smámunir, sem ekki munu skapa fjandskap milli stjórnarinnar og nefndarinnar.

Enn fremur leggur fjárlaganefndin til að fella burtu 500 kr. styrk á ári, til að gefa út dómasafn Landsyfirrjettarins. Mjer er þetta mál nokkuð skylt, því að jeg fór fram á það við fyrirrennara minn, að þessi styrkur væri settur inn í fjárlagafrumv. stjórnarinnar. Hann var sammála mjer um nauðsyn þessa verka, og jeg veit, að yfirrjetturinn er einnig á sama máli. Jeg skal benda á, að það hefir lengi verið veittur styrkur, til að gefa út Íslenskt Fornbrjefasafn, sem hefir að geyma dóma til 1540. Þar að auki hefir verið veittur styrkur síðan 1909, til að gefa út Alþingisbækur hinar fornu frá 1570–1800. Þá hefir og þótt nauðsynlegt að gefa út dóma Landsyfirrjettarins frá 1874 til þessa tíma, og því verður að sjálfsögðu haldið áfram eftirleiðis. Þá er að eins eyða í útgáfu þessara dóma á tímabilinu frá 1800 til 1873. Ef það má telja nauðsynlegt að gefa út þá dóma, sem þegar hafa verið gefnir út, þá er engu síður ásteeða til að gefa út dómana frá þessu tímabili. Það er sjerstaklega vegna dómstólanna í landinu, að jeg vildi fá þessa dóma útgefna, því að það er mikið varið í það fyrir dómara landsins, að geta sjeð, hvað hefir verið »praxis« áður. Þar að auki má benda á, að dómasafnið hefir mikla sögulega og »culturella« þýðingu. Í því geta menn fengið upplýsingar um mjög mörg atriði, sem menn geta ekki fengið upplýsingar um annarsstaðar. Jeg vildi ekki fara fram á háa fjárhæð, því að mjer var það fyrir mestu, að byrjað yrði á verkinu. Jeg skil ekki, að landið geti farið á höfuðið, þótt veittur sje í þessu skyni 500 kr. árlegur styrkur.

Þá kem jeg að styrknum til skálda og listamanna. Það getur verið, að það sje rjett á litið hjá fjárlaganefndinni, að þessi styrkur sje óþarflega hátt Settur í fjárlagafrumv. stjórnarinnar. En jeg skal geta þess, að þótt þessi liður væri settur hærri en nauðsyn bæri til, þá væri stjórninni ekki skylt að eyða honum öllum. Jeg býst við, að það sje nær meðalhæfi að setja þenna lið 12000 kr. hvort árið, eins og háttv. þm. Dal. (B. J ) hefir stungið upp á. Þá skal jeg taka það fram út af aðferð nefndarinnar, þar sem hún hefir nafngreint nokkra menn, sem hún ætlast til að njóti styrks af þessum lið, og tiltekið við nöfn þeirra ákveðnar upphæðir, að jeg lít svo á, að þessar upphæðir eigi að vera lágmark, en stjórninni sje heimilt að veita meira innan hæfilegra takmarka. Komi engin andmæli fram gegn þessum skilningi mínum, lít jeg svo á, að þessi sje vilji nefndarinnar og deildarinnar.

Jeg get tekið undir það, sem háttv. þm. Dal. sagði um styrkinn til Einars Jónssonar höggmyndasmiða. Í núgildandi fjárlögum mun hann hafa 1800 kr., en nefndin leggur til, að hann fái 1500 kr. hvort ár næsta fjárhagstímabils. Það er ekki viðfeldið að lækka þenna styrk, sjerstaklega þegar litið er til þess, að þessi maður hefir gefið landinu stórhöfðinglega gjöf, sem jeg sje, að fjárlaganefndin hefir kunnað að meta, þar sem hún leggur til, að alt að 10000 kr. verði veittar til að reisa hús yfir listaverk hans.

Þá koma hjer ýmsar smærri styrkveitingar, sem ekki er ástæða til að fara mikið út í. Þrír næstu styrkirnir, til Steingríms Jónssonar, Laufeyjar Valdemarsdóttur og Vilheims Jakobssonar, nema samtals 2800 kr. á fjárhagstímabilinu.

Þá hefir nefndin lagt það til, að veita Jóhanni Kristjánssyni ættfræðingi 600 kr. hvort árið til að rannsaka meðferð á guðsþakkafje fyrr og síðar. Jeg held, að það sje full þörf á þessu verki, og maðurinn, sem býðst til að vinna það, er mjög áhugasamur og duglegur maður, sem eflaust er fullkomlega trúandi til að vinna verkið. Sama er að segja um styrkinn til Ágústs H. Bjarnasonar. Hann er fullkomlega verðugur þess að fá þenna litla styrk. Hann hefir nú nýverið gefið út stóra bók, sem er framhald af fyrri ritum hans um sögu mannsandans. Er það mikið ritverk og mikið á því að græða fyrir fróðleiksfúsa anda. Þá hefir nefndin lagt til, að styrkurinn til Helga Pjeturssonar verði hækkaður úr 1000 kr. upp í 1800 kr. hvort árið. Jeg er í sjálfu sjer ekkert á móti því, en í sambandi við þetta vil jeg beina til nefndarinnar þeirri spurningu, hvers vegna hún hefir ekki gjört Helga Jónasyni grasafræðingi sömu skil. Hann er alkunnur vísindamaður, sívinnandi að sinni vísindagrein, og hefir nú nýlega gefið út stórt rit á ensku um grasafræði Íslands. Mjer finst, úr því að öðrum nafnanum eru gjörð þessi skil, þá sje ekki rjett að setja hinn hjá. Loks rekur svo Stórstúkan lestina með 1000 kr. á ári. Mun sá styrkur eiga að vera . til að efla bindindisstarfsemi, og er það væntanlega gott mál.

Um brtt. einstakra þingmanna við 15. gr. er ekki mikið að segja, enda er þar engar stórar fjárhæðir um að tefla. Eina þeirra má skoða útkljáða hjer í deildinni í dag, nefnilega styrkinn til dr. (Guðmundar Finnbogasonar. Þá er styrkurinn til dr. Alexanders Jóhannessonar, sem háttv. þm. Dal. (B. J.) kom fram með á þgskj. 399. Mjer er alveg ókunnugt um rjettmæti þeirrar tillögu, og vil hafa óbundið atkvæði mitt um hana. Þá er Einar Hjaltested með 3000 kr. styrk til söngnáms eitt skifti fyrir öll. Hann er sagður mjög efnilegur maður í einni grein, en mjer er ekki fullkomlega kunnugt um, hvort þessi upphæð getur komið að verulegu gagni, því að það er mjög dýrt að afla sjer kenslu þeirrar, sem hann þarf með til fullkomnunar sjer í sinni ment. Þá er næst styrkurinn til Boga Melsted, 800 kr. hvort árið. Jeg verð að taka undir með háttv. þm. Dal. (B. J.), því að það lítur svo út, sem sviknar sjeu þær vonir, sem þessi maður gat gjört sjer til þingsins. Hann hefir í mörg ár haft 1000 kr. árlegan styrk, misti hann í eitt ár, en var svo veittur sami styrkur aftur. Það er auðvitað um þenna mann, að hann vil vinna þetta. verk, að skrifa sögu Íslands, og sumir eru ánægðir með, hvernig hann leysir það af hendi, en aftur aðrir miður, eina og gjörist og gengur í veröldinni, að það er ekki gott að gjöra öllum til hæfis.

Þá skal jeg næst minnast nokkrum orðum á brtt. við 16. gr. Fjárlaganefndin hefir lagt til að hækka styrkinn til Búnaðarfjelags Íslanda um 2000 kr. á ári, eða upp í 56,000 kr. hvort ár fjárhagstímabilsins. Þessi styrkur er nú orðinn ærið hár, en viðbótin nemur ekki miklu, og mun jeg engan ágreining gjöra út af henni. Þá leggur nefndin til, að styrkurinn til búnaðarsambandanna falli niður að þessu sinni, og er jeg nefndinni sammála um þá ráðstöfun. Þessi styrkur hefir verið bútaður niður milli mýmargra búnaðarfjelaga hjer á landi, svo að lítið hefir komið í hvern stað og styrkurinn því ekki að miklu haldi komið. Það verður þessum fjelögum því varla mjög tilfinnanlegt, þótt styrkurinn verði feldur burtu að þessu sinni.

Háttv. þm. Dal. (B. J.) vjek eitthvað að áveitunni á Miklavatnsmýri. Jeg ætla ekki að fara neitt út í það mál, enda býst jeg við, að háttv. samþingismaður minn sje því máli kunnugri en jeg og muni halda þar uppi svörum.

Þá vill nefndin veita 15,000 kr. síðara árið til að reyna að fyrirbyggja skemdir af vatnagangi úr Þverá og Markarfljóti. Við höfum nokkrir nýlega komið þangað austur og sjeð verksummerkin, hvernig vatnið hefir farið með gott og víðáttumikið land. Það er enginn efi á því, að mikið er í sölurnar leggjandi til að bjarga þessu fagra og góða landi, og sem betur fer má maður gjöra sjer góðar vonir um, að það takist.

Þá vill nefndin lækka lítið eitt styrkinn til skógræktar. Hún ætlar með því að spara 4000 kr. á fjárhagstímabilinu. Það munar nú fremur litlu; en fjárlaganefndin byggir á því, að ekki sjeu fyrir hendi neinar mikilsvarðandi framkvæmdir á þessu sviði. Mjer er ókunnugt um, hvort skógræktarstjórinn hefir lagt nokkuð til þessa máls.

Svo kemur næst styrkurinn til útgáfu dýralækningabókar. Sá styrkur stendur í núgildandi fjárlögum, en verður að líkindum ekki notaður á fjárhagatímabilinu, og er því sjálfsagt að taka hann upp í næstu fjárlög til endurveitingar.

Svo koma blessaðir gerlarnir, sem stjórn Búnaðarfjelagsins vill hleypa inn í efnarannsóknarstofu landsins. Þeir, eiga að kosta 3640 kr., eða meira. Jeg sje ekki, að þetta sje svo bráðnauðsynlegt, að það geti ekki beðið næsta þings. Upphæðin er að vísu lítil, en nú tala allir um sparnað, og nefndin hefir lagt til sparnað á öðrum liðum, sem ekki eiga minni rjett á sjer en þessi. Mjer dettur í hug, ef deildin samþykkir þessa tillögu, að henni sje betur við þessa gerla, heldur en Háskólagerlana, sem hún steindrap hjer á dögunum. Annars hefi jeg engin góð orð um það, að jeg komi ekki með brtt. þar að lútandi við 3 umr. fjárlaganna.

Þá er sveitahúsagjörðarmaðurinn. Það er satt, sem háttv. þm. Dal. (B. J.) sagði, að sá maður hefir ljeleg laun, og eru mikil líkindi til, að hann geti unnið fyrir meira kaupi í þjónustu einhvers annara húsbónda en landssjóðs.

Stjórn Fiskifjelags Íslands hefir farið fram á, að styrkur sá, sem fjelagið hefir notið undanfarið og er í núgildandi fjárlögum, 12,500 kr. á ári, verði hækkaður upp í 20,000 kr. hvort árið. Nefndin hefir lagt til, að þessi styrkur verði ákveðinn 18,000 kr. hvort árið, og tel jeg það heillaráð. Jeg held, að ekki hafi legið fyrir stjórninni nein beiðni um styrk frá þessu fjelagi, og því setti hún í fjárlagafrv. sitt sömu upphæðina og er í núgildandi fjárlögum. Jeg tel það vel farið og maklegt, að þessi styrkur sje hækkaður, en hins vegar er jeg meira efins um erindrekastarf fjelagsins erlendis til að selja afurðir sjávarútvegarins. Kaupmönnum ætti að vera vel trúandi til þess. Jeg skal geta þess, að þessi styrkur var ekki notaður til fulls síðast, vegna þess, að Fiskifjelagsdeildirnar lögðu ekki eins mikið fram og til var ætlast; eða einungis tæpar 2000 kr. í stað 4000 kr. Þetta bendir á, að Fiskifjelagið álíti þetta ekki mjög þýðingarmikið atriði.

Þá er næst 1000 kr. til samvinnufjelagaskapar. Það fje hefir verið veitt undanfarið til fræðslu í þessu skyni, og maðurinn, sem hefir haft þetta á hendi, og er prýðilega fær, hefir ferðast um hjer í landi, að jeg ætla um land alt, eða mestan hluta þess að minsta kosti. Væntanlega er því ekki nauðsynlegt nú að láta þennan styrk halda sjer, því að þótt gott væri að hafa námsskeið í bókfærslu, þá er þess að gæta, að menn vilja nú spara, og hins vegar veltiár fyrir bændur, þar sem afurðir þeirra eru í gífurlega háu verði. Mjer finst því, að spara mætti fje þetta að þessu sinni.

Jeg hefi komið fram með brtt. um ullarmatið; hana tek jeg aftur, af því að nefndin hefir borið fram aðra, er jeg get felt mig við.

Þá er brtt. frá nefndinni um að hækka styrk til heimilisiðnaðarfjelagains úr 500 upp í 1000 krónur. Þetta er í sjálfu sjer nytsamt fyrirtæki, en jeg held að það sje svipað sumum matreiðsluskólunum að sínu leyti. Stúlkur læra að búa þar til »fína« rjetti, en kunna svo ekki, er þær koma þaðan, að búa til almennan mat, eins og hann er mest notaður í sveitum. Eins er því farið með heimilisiðnaðinn. Þar er kendur finn vefnaður, er naumast einum af hundraði kemur að notum. Þá er þar líka kent »Slöjd«, er fyndnir menn kalla slóðaskap. Þetta er kent víða í skólum; jeg veit til þess, að inn í Mentaskólann er kominn þessi slóðaskapur, en ber víst lítinn árangur, eins og sum önnur nýbreytni þar.

Þessu næst er styrkur til Ungmennafjelaganna. Hann vill meiri hluti nefndarinnar hækka upp í 1000 kr. hvort árið. Það er líkt um þetta að segja og annað, að fyrst menn ætla að spara, þá sje jeg ekki svo brýna nauðsyn á þessu, að eigi sje við lægri upphæðina hlítandi.

Þá er styrkur til ábúandans á Hrauntanga, til að reisa ferðamannaskýli.

Nefndin hefir fært hann niður í 100 kr. Jeg veit ekki, hvort þetta er rjett; upphæðin var svo lág, að litlu máli hefði skift, þó að hún hefði verið veitt öll.

Svo er brtt. um að hækka laun umsjónarmanns áfengiskaupa úr 600 kr. upp í 900 kr. Af því að starf hans fer sívaxandi, virðist þessi launahækkun vera eðlileg og sjálfsögð.

Þá er fjárveiting til að ryðja vör í Ingólfshöfða. Hún hygg jeg að sje þörf, ef að gagni mætti koma.

Fjárveitingin til Sauðárkróksbryggju er endurveiting, og er víst alveg sjálfsögð. Viðvíkjandi hafskipabryggju á Búðareyri skal jeg ekkert segja, því jeg þekki þar ekki til.

Þá er enn fremur 5000 kr. fjárveiting til uppmælinga á innsiglingu til Borgarness og Skógarness og á höfnum beggja staðanna. Fjárveiting þessi er mjög nauðsynleg, og verð jeg því henni hlyntur.

Þá koma brtt. ýmsra þingmanna, er jeg skal sleppa að minnast á að mestu leyti. Jeg hefi minst áður á styrkinn til Búnaðarfjelags Íslands. Háttv. 1. þm. Árn. (S. S ) hefir komið fram með tillögu um, að því verði veittur styrkur síðara árið. Það er miðlunarleið, sem hann hefir farið. Jeg býst við að jeg verði þar óskorað með nefndinni.

Háttv. 2. þm. S. Múl. (G. E.) hefir komið fram með brtt. viðvíkjandi járnbrautinni. Honum get jeg ekki orðið þar samferða. Einnig hefir háttv. sami þm. komið fram með brtt. viðvíkjandi bryggjugjörðum á Blönduósi og í Salthólmavík. Um þessa brtt. get jeg ekkert sagt að sinni. Háttv. þm. Dal. (B. J.) hefir mælt með fjárveitingu til Salthólmavíkurbryggjunnar, og jeg býst við, að 1. þm. Húnv. (G. H ) mæli með hinni. Tek jeg því ekki afstöðu til þessa máls, fyrr en jeg hefi heyrt rök þeirra.

Læt jeg hjer svo staðar numið að þessu sinni.