23.08.1915
Neðri deild: 40. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 245 í B-deild Alþingistíðinda. (1182)

108. mál, fjárlög 1916 og 1917

Sigurður Gunnarsson :

Jeg á nú að vísu enga brtt. við þenna kafla fjárlaganna, en þar með er þó ekki sagt, að jeg greiði atkvæði með öllum brtt., er fram hafa komið. Mjer dettur ekki í hug að drepa á nema fáein atriði, því bæði myndi það vera gagnslaust, og svo að eins til þess að tefja tímann. Jeg skal þá fyrst taka það fram, út af brtt. fjárlaganefndarinnar í byrjun 16. gr. á þgskj. 338, að jeg felst á að hækka styrkinn til Búnaðarfjelags Íslands um 2000 kr. hvort árið, í fullu trausti til þess, að stjórn Búnaðarfjelagsins sjái svo um, ekki síður nú en áður, að sem fjörugast samband sje milli þess og hinna einstöku búnaðarfjelaga út um landið. Þá er næst breytingartillagan á þgskj. 347, þar sem nefndin leggur til að fella alveg niður styrkinn til búnaðarfjelaganna. Auðvitað ræðst nefndin á styrk þenna af sparsemisástæðum, en ekki af því, að meiningin sje sú, að styrkurinn eigi ekki aftur að koma í fjárlögin.

Jeg er samþykkur háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) í því, að hjer sje of langt farið. Það er ekki einungis, að jeg sje fylgjandi uppástungu hans um að láta búnaðarfjelögin fá 20000 kr. Síðara árið, heldur langaði mig til þess, að sú upphæð, sem stjórnarfrumvarpið fer fram á, væri látin halda sjer óbreytt. Jeg held að enn þá sje ekki kominn tími til þess að kippa þessum styrk burtu. Það er auðvitað, að styrkurinn er skamtaður smátt einstökum fjelögum, en það er áreiðanlegt, að styrkurinn á mikinn þátt í því að örva bændur til jarðræktar. Einmitt af því, að fjelögin hafa sjeð, að Alþingi rjetti fram höndina til styrktar, þá hafa þau unnið með glaðara geði en ella, og þess vegna held jeg, að misráðið sje að kippa þessum styrk burtu.

Í sambandi við þetta skal jeg leyfa mjer að drepa á breytingartill. á þgskj. 378, þar sem lágt er til, að 18000 kr. til undirbúnings og rannsókna á hentugu svæði fyrir járnbrautarlagningu falli burtu. Jeg skal strax lýsa því yfir, að jeg mun fylgja þessari breytingartillögu, og nái hún fram að ganga, þá fæst allmikið upp í það, sem búnaðarfjelögin þurfa með. Járnbrautarmálið er langstærsta málið, sem komið hefir til umræðu á þessu landi. Jeg skal ekki leggja neinn dóm á rjettmæti þeirrar hugsunar, hvort járnbrautir muni borga sig eða ekki, en jeg álít, að fullyrða megi, að þetta sje fremur framtíðarmál en nútíma. Eða búast virkilega nokkrir háttv. þingmenn við því, að nokkuð verði gjört í þá átt, að leggja járnbrautir á þessu landi, nú á næsta áratug? Það er því tilgangslaust, að eiga nokkuð við það mál á þessu fjárhagatímabili, en varhugavert frá fjárhagslegu sjónarmiði.

Við 16. gr. er brtt. á þgskj. 338, þar sem lagt er til, að 13000 kr. sjeu veittar til Miklavatnsáveitunnar. Jeg ætla nú ekki að amast við þessari fjárveitingu, en eingöngu þó í því trausti, að stjórnin sjái um, að skýlaus yfirlýsing komi um það frá landsverkfræðingnum, að vatn fáist nægilega mikið til áveitunnar. Þetta er auðvitað mikils vert og gagnlegt mál, og þess vegna þarf að búa sem rækilegast um, að það komi að fullum notum.

Þá skal jeg næst minnast á breytingartillögu 416 við 15, grein. Hún fer fram á að dr. Guðm. Finnbogasyni sjeu veittar 3000 krónur hvort árið, til þess að endurbæta vinnubrögð í landinu. Eins og menn muna, þá lá fyrir háttv. deild í dag frumvarp um það, að stofna embætti við Háskólann í hagnýtri sálarfræði. En nefnd, sem sett var í það mál, vísaði því á bug með rökstuddri dagskrá, sem óbeinlínis fór fram á að veita þessa fjárupphæð, er jeg hefi nefnt, og var sú dagskrá samþykt með 17 atkvæðum gegn 8, og var jeg einn af þeim síðarnefndu. Ekki var endilega með þessu sagt, að allir þessir 8 væru algjörlega á móti fjárveitingu til þessara rannsókna, í hverri mynd sem væri, því ýmsir af þeim vildu heldur frumvarpið og þar á meðal var háttv. 2. þm. Rang. (E. P.), því að hann tók fram í ræðu sinni, að hann væri á móti dagskránni, en feldi sig vel við frumvarpið. Þannig er þessu ekki farið með mig. Þegar jeg greiddi atkvæði á móti dagskránni, þá var jeg ráðinn í því að greiða atkvæði á móti fjárveitingu þessari, í hverri mynd sem væri.

Jeg vil ekki bera brigður á, að þeir muni hafa rjett fyrir sjer, er telja vinnuvísindi gagnleg. En þessi vísindi eru tiltölulega ný, og að minsta kosti alveg glæný hjer á Íslandi.

Það heyrðist á ræðu háttv. þm, Dal. (B. J.), að honum þótti kenna mikils misskilnings hjer í deildinni um þetta mál. Það er víst líka rjett hjá honum. En halda menn þá, að þjóðin muni vera búin að átta sig á því, hvað hjer er á ferðum. Nei, jeg held vafalaust, að jeg gjörði málinu þarfara verk með því, að vera á móti þessum styrk nú, og láta þjóðina átta sig á þessu, með því að þeir, sem helst bera þetta mál fyrir brjósti, riti um það í blöðin og haldi fyrirlestra um það. Dr. Guðm. Finnbogason er, eins og allir vita, ágætur vísindamaður í sinni grein, eins og sjest best á bókum hans ýmsum. En jeg er viss um, að ef menn gæfu þjóðinni tíma til þess að átta sig á þessu, og samþýðast hugmynd þeirri, er hjer liggur bak við, þá myndi honum vinnast betra verk í þessa átt á næsta fjárhagstímabili en ella. En svona óundirbúið mundu margir taka málinu illa, og ekki skilja; að það gæti að haldi komið.

Þá skal jeg minnast lítið eitt á þær tillögur, sem fara fram á styrk til bryggjugjörða, t. d. í Búðardal, Salthólmavík og á Blönduósi. Jeg álít, þó að nú sjeu ískyggilegir tímar, þá megi undir engum kringumstæðum vanrækja að hlynna sem best að öllu því, er styður að greiðum samgöngum og aukinni framleiðslu. Jeg hefi þess vegna sterka tilhneigingu til þess að styðja þessa tillögu. Mjer er kunnugt um að í Búðardal tefst uppskipun og útskipun þráfaldlega, vegna þess, hve útfiri er þar mikið og skip verða því að sæta sjávarföllum. Þessi töf, sem skip verða fyrir, eykur ætíð kostnaðinn við strandferðir og póstbátaferðir. Sama er að segja um Salthólmavík, þá er hinn væntanlegi flóabátur fer að ganga þangað. En má ske gæti vel á því farið, að háttv.-þm. Dal. (B. J.) vildi taka sömu stefnuna og ýmsir aðrir háttv. þingm., að heimta ekki alt of mikið fyrir sitt kjördæmi úr landssjóði. Vona jeg að hann sje ekki ófús til þess.

Á Blönduósi er góð bryggja býsna nauðsynleg, sökum þess, hve höfnin er slæm, svo að ekki þurfi að bíða af sjer slæm veður svo dögum skiftir, eða þá að; skipa vörunum annarsstaðar upp.

Jeg þarf ekki að blanda mjer mikið í deilu þeirra háttv. 1. og 2. þm. Árn. (S. S. og E. A.), út af fjárveitingu til útgáfu dómasafns frá 1800–1874. Jeg tel alveg rjett, að fylt sje í þetta skarð sem fyrst.

Jeg sje, að háttv. þm. Mýr. (J. E.) á eina breytingartillögu, sem reyndar hefir ekki nein áhrif á útkomu fjárlaganna, eða upphæð þá, er fjárlaganefndin hefir ætlað til mælinga á skipaleiðinni til Borgarness. Tillagan fer einungis fram á, að upphæðin verði veitt fyrra árið í stað þess síðasta. Jeg hafði nú haldið, að betra væri, að fjárveitingin væri bundin við síðara árið, svo að betri tími væri til þess að fá dönsku mælingamennina til þess að mæla þetta, en vel má vera, að þetta komi í sama stað niður.

Að því er snertir aðrar styrkbeiðnir, sem hjer liggja fyrir, þá verð jeg að segja, í stuttu máli, að jeg mun greiða atkvæði með sumum þeirra, en sumum ekki, án þess að jeg gefi mjer tíma til að gera nánari grein fyrir því, fyrr en við atkvæðagreiðsluna.