23.08.1915
Neðri deild: 40. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 275 í B-deild Alþingistíðinda. (1187)

108. mál, fjárlög 1916 og 1917

Jón Magnússon:

Við háttv. 1. Húnv. (G. H.) eigum saman brtt. á þgskj. 417. Það er styrkurinn til Boga Th. Melsted. Hæstv. ráðherra hefir mælt með tillögunni og sömuleiðis háttv. þm. Dal. (B. J.), og kann jeg þeim báðum þakkir fyrir. Jeg get ekki sjeð neina ástæðu til þess, að fella þenna styrk niður, og það því síður, sem Bogi hefir áður haft styrk í fjárlögunum. Sú eina ástæða, sem hugsanleg væri til þess, að rjett væri að fella styrkinn niður, er sú, að Bogi hefði gjört sig óverðan styrksins, síðan hann var settur aftur inn í fjárlögin. En það er langt frá því, að svo sje. Hann hefir einmitt síðan gefið út mikið rit og gott. Það er um siglingar fornmanna. Það gengur að vísu svo, að misjafnir eru dómar manna um þenna mann, eins og alt af á sjer stað. Sjálfur er jeg ekki fyllilega fær til að dæma um sögurit hans, en jeg get vitnað til manna, sem vit hafa á slíku, til þeirra prófessoranna Finns Jónssonar og Þorvalds Thoroddsen. Þeir hafa báðir lokið lofsorði á vísindalega starfsemi Boga Th. Melsted.

Jeg skal svo ekki orðlengja frekar um þessa tillögu. En jeg treysti því, að hún fái að ganga fram.

Um styrkveitinguna til dr. Guðmundar Finnbogasonar þarf jeg ekki að ræða nú; það var gjört svo rækilega um daginn. Tveir háttv. þm. hafa minst á fjárveitinguna, en ekkert hefir nýtt komið fram í ræðum þeirra; alt saman sama tuggan og um daginn.

Háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) gat um, að hann væri ekki á móti fjárveitingingunni, ef hún væri veitt í einu lagi. Jeg get frætt háttv. þm. á því, að það er tilgangslaust að veita þetta í einu lagi, því að dr. Guðmundur Finnbogason mundi aldrei taka þetta að sjer, ef hann hefði ekki tvö ár til rannsóknanna. Háttv. 2. þm. S.-M. (G. E.) talaði um, að þetta væri stærsti og versti bitlingurinn, sem þingið hefði veitt. Þetta er mjög illa sagt. Hjer er ekki um neinn bitling að ræða, heldur um laun fyrir starfa, sem öllum kröftum er varið til. Jeg skal líka benda háttv. þm. á, að dr. Guðmundur Finnbogason græðir ekkert á að taka þetta starf að sjer. Hann hefir nú 2700 kr. í fastar tekjur, og jeg veit um, að hann hefir hitt, sem á vantar, í aukatekjur, eða meira. Það er mjög rangt að segja, að þetta auki útgjöldin um 6000 kr.; það eykur þau ekki einu sinni um 5000 kr., því að minsta kosti 1200 kr. ganga frá.

Jeg ætlaði ekki að minnast á fleira. En úr því jeg er á annað borð staðinn upp, vil jeg minnast lítillega á skáldastyrkinn.

Það er nýmæli, að láta stjórnina útbýta fjenu. En mjer finst þessi ráðstöfun bæði viturleg og eðlileg. Það er ekkert við því að segja, þó að fjárlaganefndin komi fram með tillögur um það, hvernig fjeð sje veitt. En fjárlaganefndin stingur upp á, að stjórnin fái 9000 kr. til umráða, en svo skiftir hún sjálf upp 7100 kr., og bætir við tveimur mönnum, sem varla er hægt að veita minna en 2000 kr. báðum. Þetta verður að laga, ef vel á að fara.

Þess vegna vona jeg, að tillaga háttv. þm. Dal. (B. J.) verði heldur tekin en tillaga fjárlaganefndarinnar. Að minsta kosti getur varla verið um annað að ræða en að hafa styrkinn eitthvað riflegri en fjárlaganefndin hefir sett hann. Skal jeg svo ekki lengja umræðurnar meir.