23.08.1915
Neðri deild: 40. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 277 í B-deild Alþingistíðinda. (1188)

108. mál, fjárlög 1916 og 1917

Björn Kristjánsson:

Það er svo ástatt um mig, að jeg á enga brtt. við fjárlögin. Er það ekki af því, að jeg hefði ekki þurft á því að halda, vegna míns kjördæmis, að fá einhverjum styrkveitingum framgengt, en jeg var svona ákaflega kurteis, vegna þess, að jeg vann í fjárlaganefndinni, að koma ekki með neina tillögu ofan í nefndina, þó hún væri ófáanleg til að leggja með nokkurri ákveðinni fjárveitingu til míns kjördæmis.

Jeg vildi nú að eins leyfa mjer að minnast á sárfá atriði. Okkur kom vel saman í nefndinni, og það var minn fasti ásetningur, að víkja ekki hársbreidd frá því, sem hún hafði sett sjer. En nú hefi jeg sjeð, að sumir fjárlaganefndarmennirnir hafa vikið frá því við atkvæðagreiðsluna, þá sem liðin er.

Þess vegna ætla jeg að leyfa mjer að minnast á tvær brtt. nefndarinnar, sem jeg er ekki ánægður með. Annað er styrkurinn til brimbrjóts í Bolungarvík. Nefndin hefir sett það skilyrði fyrir styrkveitingunni, að sýslan legði eins mikið til og landssjóður. Það er ekki hægt að ætlast til þess, að sýslan geti lagt svo mikið af mörkum, og þess vegna hallast jeg að tillögu háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.), að styrkurinn verði bundinn því skilyrði einu, að verkið verði unnið eftir fyrirsögn verkfróðs manns. Auðvitað vil jeg halda fast við upphæðina, að hún fari ekki fram úr 10000 kr. Þetta er þá mín athugasemd við þenna lið, og vænti jeg að fjárlaga- nefndin afsaki það.

Svo var hitt atriðið, sem jeg felli mig ekki við hjá fjárlaganefndinni. Jeg er mjög hlyntur öllum nauðsynlegum bryggjugjörðum og bátahöfnum, og hálfkynoka mjer því við að greiða atkvæði móti bryggjunni á Blönduósi, fyrir þá sök, að mjer er kunnugt um, hve brýn nauðsyn er á henni. Jeg hefi komið þangað og sjeð, að þar er algjör landtökuleysa, svo að lífsómögulegt er að afgreiða þar skip, ef eitthvað er að veðri. Nú er það kunnugt, að stærri póstskipin og vöruflutningaskipin koma þar við, og sjá þá væntanlega allir, hvílíkt mein það er, ef þau geta ekki fengið sig afgreidd, og verða að fara burt aftur með vörurnar. Jeg tel hina brýnustu nauðsyn á, að þarna verði bygð viðunanleg hafskipabryggja sem allra fyrst, og verð jeg því í þessu tilfelli að brjóta þá reglu, sem jeg hefi sett mjer, og greiða atkvæði með því, að 1/3 hluti kostnaðarins við þessa bryggjugjörð verði greiddur úr landssjóði.

Þá vil jeg enn minnast örlítið á einn styrk, sem fjárlaganefndin hefir ekki tekið afstöðu til. Það er styrkurinn til Einars Hjaltested, til þess að ljúka sönglistarnámi erlendis. Mjer er kunnugt að þessi maður er kominn mjög langt í sinni grein, sönglistinni og tel hann líklegan til að verða þjóðinni til sóma. Jeg vil þess vegna greiða atkvæði með því að þessi styrkur verði veittur í eitt skifti fyrir öll. Mjer er það ljóst að við lifum ekki á einu saman brauði. Það er ekki nóg, að sjómaðurinn fiski vel og landbóndinn búi góðu búi. Landið okkar verður ekki þekt út á við fyrir það eitt. En það eru listamennirnir sem gjöra garðinn frægan. Þess vegna gjöri jeg mjer von að þingmenn gjöri landinu þægt verk með því að greiða atkvæði með þessum styrk. Og öldungis eins er það með Einar Jónsson.

Mjer líkaði það illa hjá háttv. 2. þm. S:-M. (G. E.), þegar hann var að andmæla því, að bygður yrði skúr yfir myndir Einars Jónssonar sem hann hefur fært landinu að gjöf. Það er rangt, að láta þessi listaverk liggja úti í Kaupmannahöfn og það ætti að vera landinu ný hvöt til að flytja þau heim, að nærri lá að þau færust í eldsvoða í sumar, Hjer þyrfti að koma upp yfir þau sæmilegu húsi þar sem myndasmiðurinn sjálfur gæti haft athvarf framvegis og unnið að listasmíðum sínum .

Svo kem jeg þá loks að brtt. á þgskj 378. Jeg stóð einn uppi í fjárlaganefndinni á móti þessari fjárveitingu og hafði skilið mjer rjett til að bera fram brtt. um að fella hana burtu ef enginn annar gjörði það. En nú hefir háttv. 2. þmþ Sþ-M. (G. E.) tekið af mjer ómakið, með því að koma með þessa breytingartillögu á þgskj. 378. Hún fer fram á að fella niður fjárveitinguna til rannsóknar á járnbrautarstæði 1800 krónur fyrra árið. Þetta er stærsta málið, sem nokkru sinni hefir komið inn á þingið svo stórt, að þjóðin ætti fulla heimtingu á, að fá það skýrt sem best, áður en hún legði einn eyri til þess, umfram þessar 20 þús. kr., sem búið er að verja til þeirra rannsókna. Það er ekki fyrir hvöt frá þjóðinni, að þetta mál er komið á dagskrá, heldur fyrir áhrif einstakra manna hjer í Reykjavík, sem vita ekki betur, hvar skórinn kreppir en þjóðin öll. Það fyrsta, sem hefði átt að liggja fyrir, þegar um járnbrautarlagningu er að ræða, er það, hvað viðkomandi hjeruð vildu kosta til hennar, en þess hefir ekki verið leitað hjer.

Jeg las fyrir nokkrum árum skýrslu um það, hvernig farið var að í Ungverjalandi, þegar strjálbygt hjerað bað um járnbraut. Þetta hjerað hafði vegi eins og við, en þar voru líka menn, sem ýttu undir og töldu fólkinu trú um, að það væri mesta hnoss fyrir það, að fá járnbraut lagða til sín. Hjeraðsbúar bitu á agnið og fengu járbrautina., en eftir nokkur ár báðu þeir þingið um að taka við henni aftur og láta sig hafa vegina gömlu. Þetta lá í því, að ríkið hafði sett það upp, að hjeraðið bæri reksturskostnaðinn. En tekjuhallinn varð svo mikill, að hjeraðið gat ekki risið undir honum.

Það hefir verið ritað mikið um þetta mál, og meira en um ýms önnur mál, en margt er þó ósagt enn. Það væri því eðlilegast, að láta málið bíða og gefa þjóðinni tóm til að athuga það betur. Jeg hefi skrifað dálitla ritgjörð um járnbrautir á Íslandi, og hefi tekið þar fram ýms atriði, er snerta skilyrðin fyrir járnbrautarþörfinni. Jeg skal, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp dálítinn kafla úr þessari ritgjörð minni, því að jeg vil að það sjáist í þingtíðindunum, enda geymist það þar betur til seinni tímanna, heldur en á lausum blöðum. Um járnbrautarþörfina segi jeg svo: »Það, sem knýr hin stærri lönd til að leggja járnbrautir, er einkum þetta:

1. að löndin eru stór

2. að flest lönd liggja í samhengi við önnur lönd.

3. að þau hafa hernaðarskyldu,

4. að þau hafa námur,

5. að þau hafa skóga,

6. að þau hafa akuryrkju,

7. að þau vegna gífurlegra vegalengda, verða að hraða póstflutningi,

8. að þau hafa iðnað,

9. að vegalengdirnar frá hafnarstað eru oft svo miklar, að flutningur á nauðsynjavörum og fólki væru ókleifir án járnbrauta, eða með öðrum orðum sagt: Flutningsþörfin svo mikil að henni yrði alls ekki fullnægt á annan hátt.

Þessar munu vera aðalástæðurnar. En auk þeirra vil jeg nefna:

að fyrir getur komið að smálönd leggi brautir af fordild, til þess að þau verði ekki talin eftirbátar annara, og

að þau leggi járnbrautir í blindni, fyrir áeggjan fjárgróðamanna, sem koma vilja ár sinni sem best fyrir borð til eigin hagsmuna.«

Þetta vildi jeg gjarnan að stæði í þingtíðindunum, vegna þess, að það eru ástæður, sem verðar að taka til greina, þegar talað er um járnbrautarlagningu. Um kostnaðinn við byggingu járnbrautar hefi jeg líka skrifað nokkuð, en um hann get jeg ekki sagt neitt með vissu. En ef önnur lönd eru tekin til samanburðar, t. d. Noregur og nokkur fylki í Þýskalandi, þá munu menn sannfærast um, að ekki mun vera hægt að leggja járnbraut hjer fyrir minna en um 60 þús. kr. hvern km. Jeg skal enn nefna nokkur dæmi um járnbrautarlagningarkostnað annars staðar:

Í Baden kostar hver km. 68,084.50 kr.

Í Preuszen-Hessen 62,870.49 —

Í Sachsen 89,194.88 —

Í Würtemberg 61,906.63

Ef maður gjörði lagningarkostnaðinn hjer 60000 kr. á hvern km., og það mun vera hæfilega áætlað, þá kæmu þessir 112 km. til að kosta 6,720,000 kr. Vextir og afborgun af því láni, teknu til 30 ára, ætti að vera 560,000 á ári, fyrst í stað, fyrir utan reksturskostnað.

Ef maður miðar járnbrautarrekstur hjer við fólkstölu annars staðar, verður útkoman þessi:

Í Þýskalandi koma 10,3 km. járnbrautar á hverja 10000 íbúa. Eftir því ættum við að leggja um 22 km. járnbrautarspotta hjer austur á bóginn, ef talið er að þjóðarauðurinn sje sá sami og þar, og flutningamagn og verslunarmagn hið sama. Í Austurríki og Ungverjalandi koma 8,8 km. á 10000 íbúa. Eftir því ættum við að leggja um 20 km., og eina er um Bretland og Írland. Í Rússlandi eru það að eins 5,5 km., sem koma á hverja 10000 íbúa. Miðað við það ættum við að leggja um 12 km. Í Ítalíu eru það 5,1 km. og í Portugal 5 km., og eftir . því ættum við að leggja 11 km. Og ef miðað er við Serbíu, þar sem að eins 2,4 km. koma á hverja 10000 íbúa, ættum við að leggja 5 km.

Jeg álít óþarft að nefna fleiri dæmi, því að jeg býst við, að allir geti sjeð af þessu, að þótt þjóðarhagurinn og þjóðarauðurinn hjer, og fjör í verslun og viðskiftum, væri eina og í öðrum löndum, þá ættum við ekki að leggja meira að tiltölu við þau lönd, sem jeg nefndi, miðað við fólkstölu.

Ef litið er til flutningaþarfarinnar og flutningsmagnsins, má benda á það, að árið 1905 nam vöruflutningurinn á Þýskalandi 8994 lestum (tonn) á hvern km. í járnbrautarlengdinni. Þess má og geta, að með öllum þessum flutningi varð hagurinn það ár að eins 5,8%. Eftir þessu ætti að flytja með 112 km. járnbraut 1,007,338 lestir. Á sama tíma nam fólksflutningurinn þar 22,753 manns á hvern km. járnbrautarinnar. Eftir því ættum við að flytja á 112 km. járnbraut 2,548,336 menn, eða hjer um bil 29 sinnum alla þjóðina.

Mjer finst það liggja jafn ljóst fyrir eins og 2+2 eru 4, að Íslendingar geti ekki að sinni lagt út í að leggja járnbraut. Á því máli þarf ekki frekari rannsókn en þá, sem hver maður getur komist yfir með athugunum sínum, ef hann nennir því. Þar af leiðandi er fullkominn óþarfi, og mjer liggur við að segja glapræði, að veita nokkurn styrk til slíkra rannsókna.

Jeg skal nú ekki þreyta deildina með langri ræðu hjeðan af, því það er orðið nokkuð áliðið. Jeg gjöri mjer von um, að þessi styrkur verði ekki samþyktur, en þjóðinni gefist kostur á, að fá málið skýrt hlutdrægnislaust, og Íslendingar afli sjer gagna til næsta þings, sem skýri það enn betur, hve ótiltækilegt það er, að ráðast í að leggja járnbraut, meðan öll skilyrði vantar til þess, að hún geti borið sig.

Vil jeg svo að lokum leyfa mjer að minnast stuttlega á örfá atriði, er snerta ýmsar fjárveitingatillögur, sem fram hafa komið.

Mjer þótti það leitt, hvað háttv. 2. þm. S.-Múl. (G. E.) var önugur við fjárlaganefndina út af þessum litla styrk til Goodtemplarafjelagsins, 1000 kr. hvort árið. Jeg hefi verið stuðningsmaður þess mála, sem þetta fjelag berst fyrir, frá því fyrsta, og mjer finst ekki vera kominn tími til að sú Regla leggist niður. Jeg veit, að hún hefir kostað miklu fje til, og sjálfsagt meira en hún hefir ráð á. Jeg fyrir mitt leyti væri miklu ánægðari með að sjá, að þessi styrkur væri 2000 kr. hvort árið, eins og verið hefir undanfarið.

Háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) vildi ekki leggja til varar við Ingólfshöfða. Jeg er honum ekki samdóma um það, því að mjer er kunnugt um, að nauðsynin er mjög brýn. Auk þess er búið að veita styrk til rannsóknar þessa fyrirtækis áður, en því hygg jeg að háttv. þm. hafi gleymt. Því fje væri sama sem fleygt í sjóinn, ef nú væri hætt við að veita styrkinn.

Jeg er ekki samdóma meiri hluta nefndarinnar um það, að styrkurinn til skálda og listamanna eigi að vera á valdi stjórnarinnar að mestu leyti. Jeg lít svo á, að það sje ekki rjett, að fjárlaganefndin ein gjöri tillögur til stjórnarinnar um úthlutun þessa styrks, heldur eigi þingið alt að ráða fram úr því. Það liggur næst mjer að koma með brtt. til 3. umr. um, að þessi styrkur verði látinn standa í fjárlögunum eins og áður hefir verið. Hæstv. ráðherra tók það fram, að hann skoðaði tillögur fjárlaganefndarinnar svo, að þær upphæðir, sem þar eru til greindar, skuli vera það minsta, sem veita megi. Þessa skoðun kvaðst hann mundu hafa á málinu og hegða sjer samkvæmt henni, ef enginn mótmælti. Nú vil jeg leyfa mjer að mótmæla þessum skilningi, því að jeg skildi fjárlaganefndina svo, að þessir styrkir ættu að vera ákveðnir, eins og til er tekið í nefndarálitinu, en ættu alls ekki að skoðast sem lágmark. Annars kynni jeg betur við, að þessir styrkir stæðu sundurliðaði eins og áður hefir verið í fjárlögunum, því að það getur verið, að Ed. mæli með öðrum mönnum og öðrum upphæðum. Og eftir hverju á stjórnin þá að fara? Jeg er hræddur um, að með þessu móti geti orðið ógagn eitt úr þessari styrkveitingu.

Jeg er nú orðinn nokkuð langorður, enda skal jeg ekki þreyta deildina með lengri ræðu.