23.08.1915
Neðri deild: 40. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 312 í B-deild Alþingistíðinda. (1195)

108. mál, fjárlög 1916 og 1917

Sigurður Eggerz:

Klukkan er nú orðin æði margt. Jeg sá að einn háttv. þingmaður var sofnaður hjer í deildinni áðan. En úr því að umræðunum er haldið áfram, þá vildi jeg biðja menn að vaka eins vel og þeir geta vakað.

Jeg stend aðallega upp til þess að minnast á brtt. á þgskj. 438, um að 14. liður 16. gr. falli burtu. En sá liður er um 500 kr. fjárveitingu hvort árið til að gefa út landsyfirrjettardóma 1800–1873. Jeg vil gjöra mitt ítrasta til að koma sem bestu samkomulagi á milli beggja þingmanna Árnesinga (S. S. og E. A.). Þeir hafa deilt um þetta atriði. Háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) hefir borið það á hæstv. ráðherra, að hann hafi farið þess á leit við mig, þegar jeg var ráðherra en hann prófessor við lagadeild Háskólans, að jeg ljeti hann hafa þenna styrk, til þess að gefa sjálfur út dómana.

Mjer er ljúft að styrkja hæstv. ráðherra, þegar jeg get það. Mjer er ljúft að vitna það, að Einar prófessor Arnórsson fór aldrei fram á, að hann fengi sjálfur að gefa út þessa dóma. (Sigurður Sigurðsson: Það hefi jeg heldur aldrei sagt). Hann skrifaði stjórnarráðinu í vetur, og ljet í ljós, að nauðsynlegt væri að fá dómana út gefna. Jeg leitaði álits justitiariusar við yfirrjettinn málinu, og hann lýsti því yfir, að hann teldi það í alla staði heppilegt, að u væri komið í framkvæmd. Tók jeg þá þetta upp í fjárlögin.

Hæstv. ráðherra lýsti því yfir áðan; að hann mundi vilja fela háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) að sjá um útgáfuna. (Ráðherra: Nei; jeg sagðist mundi trúa honum fyrir því, ef hann væri lögfræðingur). Jeg vildi að eins segja það, að ef jeg byggist við því, þá mundi jeg vera býsna deigur að greiða atkvæði með fjárveitingunni. Og segi jeg þetta ekki til þess gjöra lítið úr háttv. 1. þingm. Árn. Jeg álít það að eins ekki liggja undir hans verkshring.

Þá vildi jeg minnast lítillega á brtt. nefndarinnar um að frk. Laufey Valdimarsdóttir fái námsstyrk, til þess að halda áfram námi sínu við Kaupmannahafnar háskóla. Þar sem þessi vel gefna stúlka getur ekki fengið Garðstyrk, tel jeg sjálfsagt að samþykkja þessa till. Vil jeg mæla eins vel með því og jeg get.

Viðvíkjandi listamannastyrknum vil jeg geta þess, að þegar jeg tók það ráð, að hafa hann í einu lagi í fjárlögunum, eftir bendingu fjárlaganefndarinnar og þingsins í fyrra, þá vakti það fyrir mjer að útvega nefnd, til þess að gjöra tillögur til stjórnarinnar um styrkveitingarnar. Jeg hafði hugsað mjer að gjöra tillögu um slíka nefnd. En þegar jeg ljet af ráðherraembættinu og afhenti núverandi hæstv. ráðherra fjárlagsfrumv., hafði jeg ekki áttað mig á, hvernig nefndin skyldi skipuð og henni fyrir komið. Mjer er ljóst, að að er talsverðum vandkvæðum bundið. Ef til vill leyfi jeg mjer að bera fram brtt. snertandi þetta atriði til 3. umræðu. Stjórninni væri það miklu betra, að hafa þess háttar nefnd sjer við hlið, einkum ef í henni ættu sæti þeir menn, sem sjerstaklega hefðu vit á fögrum listum. Því að vel má búast við því, hversu rjettlát sem stjórnin vill vera í þessu efni, að hún fái ákúrur í líka átt, sem háttv. þm. N: Þing. (B. S.) gjörði ráð fyrir, að hún gerði menn að stjórnarskáldum o. s. frv. (Sigurður Sigurðsson: Þá verður þessu valdi kipt af henni). Það getur verið of seint að byrgja brunninn, þegar barnið er dottið ofan í hann.

Að því er snertir þá till. nefndarinnar, þar sem hún mælir með ýmsum skáldum og listamönnum, þá vil jeg sjerstaklega taka í sama strenginn og háttv. þingm. Dal. (B. J.), viðvíkjandi Einari Jónssyni myndhöggvara. Nefndin ætlast til, að hann fái 1500 kr. styrk á ári. Jeg verð að líta svo á, að þessi styrkur sje í rauninni alt of lítill. Bæði er það, að þessi listamaður hefir nú gefið landinu mjög stórhöfðinglega gjöf, sem að öllum líkindum verður því til mikillar sæmdar í framtíðinni, og auk þess hefir hann þegar gjört landinu svo mikinn sóma, að það verður ekki til peninga metið. Þó að hann hafi verið svo óheppinn, að geta ekki selt neitt af listaverkum sínum, þá hefir hann samt sem áður hlotið mikinn orðstír, þar sem talað hefir verið um hann og honum hrósað í frægum tímaritum, bæði í Frakklandi, Englandi og víðar. Oss er því skylt að styrkja hann betur en nefndin ætlast til. Og því fremur vil jeg mæla með því, þar sem Einar Jónsson er sjerstaklega óframfærinn að útvega sjer styrk. Hann er svo skapi farinn, að hann vill heldur svelta en biðja um hjálp. Jeg þykist ekki hafa gjört mikið að því, að segja frá einkamálum manna, sem jeg fjekk vitneskju um í stjórnartíð minni, en jeg get þó ekki látið vera að skýra frá nokkru,, sem fór á milli mín og Einars Jónssonar. — Eins og menn muna, voru 2000 kr. veittar í núgildandi fjárlögum, til þess að kaupa fyrir listaverk af íslenskum listamönnum. Jeg áleit rjett, að kaupa fyrir alla upphæðina af Einari Jónasyni. kallaði jeg hann á minn fund og skýrði honum frá því. Þakkaði hann mjer fyrir. En næsta dag kemur hann til mín og segir: Er þetta rjett? Eru ekki einhverjir aðrir, sem eins mikla þörf hafa á að selja verk sín og jeg? Á ekki heldur að skifta styrknum? — Jeg segi þetta til dæmis um það, hvað maðurinn er ákaflega óeigingjarn. (Sigurður Sigurðsson: Það er satt). Svo óeigingjarn, að jeg hefi aldrei þekt annað eins.

Jeg vænti að háttv. deild, þegar hún hefir skoðað málið frá öllum hliðum, mæli með því, að þessum listamanni verði veitt svo mikil árleg laun, að hann geti lifað af þeim. Væri vel, ef hann þyrfti nú ekki lengur að búa við jafnerfið kjör og hann hefir átt við að búa í Kaupmannahöfn í langan aldur.

Háttv. þm. N.-Þing. (B. S.) mintist á, að ekki væri ástæða til að veita Jóhanni skáldi Sigurjónssyni styrk, þar sem hann væri nú orðinn frægur maður og hefði nóg fje til umráða. Það er satt, að Jóhann Sigurjónsson er mjög frægur orðinn, svo frægur, að ekkert skáld er til í Danmörku nú, sem honum er jafnfrægt. En hitt er jafnvíst, að tekjur hans eru ekki miklar; þær eru þvert á móti alveg ótrúlega litlar. Auk þess hafa þær minkað mikið nú upp á síðkastið, vegna ófriðarins. Þegar jeg var í Kaupmannahöfn síðast, átti jeg tal við hann um þetta atriði. Vegna ófriðarins hefi ekkert orðið úr því, að ýms leikhús stórborga álfunnar keyptu leikrit hans, sem þau annars hefðu gjört. Ísland hefir þegar hlotið stórsóma af þessum manni. Og jeg, sem þekki hann; er sannfærður um, að þó að hann hafi nú skrifað þau verk, sem hafa gjört hann stórfrægan, þá eigi hann þó eftir að skrifa verk, sem gjöra hann enn frægari.

Þá er hjer brtt. á þgskj. 416 um 3000 kr. hvort árið til dr. Guðm. Finnbogasonar, til þess að endurbæta vinnubrögð í landinu. Það voru hjer langar umræður um þetta mái í dag — eða í gær, sem nú má segja. Er því síst ástæða til að fjölyrða mikið um það nú. Jeg vildi þó geta þess, að jeg ber nokkurn kvíðboga fyrir því, að þó að þessi styrkur væri veittur þessum vísindamanni, og góða manni, þá gæti hann varla orðið honum til mikils gagns. Þó að gengið væri út frá því, að þessi vinnuvísindi væru þannig, að þau gætu orðið að stórmiklu gagni hjer á landi, þá er tíminn svo stuttur, sem doktornum er ætlaður til tilraunanna, að hann getur ekki, þess vegna, sýnt og sannað að svo sje. Til þess að rannsaka annað eins mál, þarf miklu lengri tíma. Auk þess geng jeg út frá því, að ef nokkur veruleg alvara á að vera í þessum rannsóknum, þá þurfi doktorinn að hafa fjölda manns, til þess að gjöra tilraunir með. Það er óhugsandi, að rannsóknirnar verði að nokkru gagni, nema hann hafi tækifæri til að gjöra hvað eftir annað rannsóknir á sömu mönnunum. Nú skulum við gjöra ráð fyrir, að hann fái flokk manna hjá landsverkfræðingnum, til þess að gjöra tilraunir með. Segjum svo, að hann veldi úr þeim flokki verklagnasta manninn. Þá analyserar hann öll hans handtök, en þegar það hefir verið gjört, þá þarf, til þess að fá enn betri árangur, að fella burtu öll óþörf handtök. Mjer skilst nú, að til þess að gjöra þessar tilraunir, nægi ekki að hafa heimspeking einan, sem analyserar, heldur þurfi einnig að hafa verkfróðan mann og praktiskan, til þess að sjá óþörfu handtökin. Enda mun það vera svo, að í Ameríku, þar sem þessar tilraunir hafa verið gjörðar, hafa ekki eingöngu fengist við þær heimspekingar, heldur einnig praktískir menn og verkfróðir. Jeg held sem sagt, að þessi styrkur, eins og honum er fyrir komið, verði aldrei að því gagni, sem er tilætlun og vilji þessa góða manns. Jeg mun því greiða atkvæði á móti þessari tillögu. En jafnframt vil jeg taka það fram hjer í deildinni, að enginn má skilja mitt nei svo, að jeg vantreysti svo mjög þessum góða og mikilsvirta heimspekingi. Allra manna best gæti jeg unnað honum þess, að hann hefði tækifæri til að leggja stund á námsgrein sína, heimapekina. En þegar á að fara að draga heimspekina inn í þessa grein, sem hjer er um að ræða, þá er jeg hræddur um, að það verði, því miður, ekki að þeim notum, sem ýmsir ef til vill ímynda, sjer nú.

Brtt. á þgskj. 338 við 29. lið 15. gr., um að hækka styrkinn til dr. Helga Pjeturss., get jeg eftir atvikum mælt með.

Brtt. á þgskj. 338 um 1000 kr. styrk til Goodtemplarareglunnar hefir sætt andmælum. Þau andmæli hafa ekki verið á rökum bygð. Jeg lít svo á, að Templarareglan hafi unnið mikið og gott verk fyrir þetta land. Og jeg skoða þenna styrk sem lítilsháttar umbunun fyrir þau verk. Þó að í nefndarálitinu standi, að hún eigi að fá styrkinn til þess að vernda bannlögin, þá ber það vitanlega ekki að skilja svo bókstaflega, að hún eigi að fara að blanda sjer í starf lögreglunnar, heldur er hitt auðsjáanlega meiningin, að hún á að skapa betri opinion fyrir bannlögunum en nú er.

Eins og kunnugt er, liggur aðalhættan fyrir bannlögin ekki í því, hvernig þau eru sniðin í sjálfu sjer, heldur einkanlega í því, að margir þeirra manna, er standa í efstu tröppum mannfjelagsins, hafa snúist á móti þessum lögum. Þeir skapa »móðinn«, en þeir, sem eru enn þá lítilsigldari, fara í kjölfarið.

Hjer liggur fyrir tillaga um það, að styrkurinn til búnaðarfjelaga verði látinn halda sjer óbreyttur. Jeg hlýt að mæla með þessari tillögu. Jeg verð að líta svo á, að þessi fjelög hafi gjört það gagn, að fje til þeirra sje vel varið. Út um land er mjer kunnugt um, að menn hafa sett allmikið traust til þessa styrks. Háttv. fjárlaganefnd hefir lagt það til, að hann væri feldur burtu. Jeg get ekki fallist á það. Það mundi vekja óánægju um alt land, ef þessi styrkur, sem hefir verið lyftistöng undir margar og mikilsverðar framfarir í landinu, yrði nú alt í einu afnuminn, öllum að óvörum. Vitanlega er gott að spara — og jeg er sjálfur sparnaðarmaður — en það er hrein og bein eyðslusemi að spara styrk til jafn þarflegra stofnana og búnaðarfjelaganna. Jeg gjöri ráð fyrir, að jeg þurfi ekki að mæla betur fyrir þessari tillögu, en jeg nú hefi gjört. Jeg vænti þess fastlega, að hún verði samþykt.

Um styrkinn til Miklavatnsáveitunnar hefir verið talsvert rætt. Jeg er því meðmæltur, að brtt. sú, er að honum lýtur, verði samþykt. Enda þótt eitthvað hafi mishepnast við fyrirtækið í fyrstu, þá getur slíkt komið fyrir á bestu heimilum, og það tjáir ekki að kippa að sjer hendinni þegar byrjað er á fyrirtækinu. Það verður að veita nægilegt fje til þess, að það geti orðið að tilætluðum notum.

Þá er hjer tillaga um fjárveitingu til áframhalds brimbrjótsins í Bolungarvík. Strax og þetta mál var borið fram hjer á þinginu, þá skildist mjer það, að hjer væri um fyrirtæki að ræða, sem þinginu væri skylt að styðja. Háttv. nefnd hefir sett það sem skilyrði fyrir fjárveitingunni, að hjeraðið leggi fram jafn mikið fje og landssjóður. En þetta skilyrði gæti orðið til þess, að fyrirtækinu yrði siglt í strand. Það er ekki hægt að búast við því, að fátækir sjómenn geti lagt svo mikið fje af mörkum. Jeg mun því greiða atkvæði með tillögu þeirri, er fer fram á það, að fjeð verði veitt skilyrðislaust, enda sje jeg það líka í frv. stjórnarinnar, að hún hefir lagt það til.

Þá er brtt. á þgskj. 338, er fer fram á 5000 kr. fjárveitingu til þess að ryðja vör við Ingólfshöfða. Jeg vil eindregið mæla með þessari brtt. Jeg er kunnugur staðháttum þar eystra. Öræfin liggja milli Breiðamerkur- og Skeiðarársands, og að þeim liggja ill vötn yfirferðar og oft ófær. Kæmi þessi vör við Ingólfshöfða, þá mundi það geta ljett ákaflega mikið alla aðflutninga.

Jafnframt ber þess að gæta, að fiskisælustu mið landsins liggja þarna fyrir landi, og væri það ekki lítill fengur fyrir sveitirnar, að geta stundað fiskveiðar þar. Jeg tel þessa brtt. eina af hinum allra sjálfsögðustu.

Háttv. 1. þm. Húnv. (G. H.) hefir oft minst á Jökulsárbrúna. Jeg ætla mjer ekki að fara að blanda mjer í öll ónotin, sem farið hafa á milli hans og háttv. 2. þm. S.-Múl. (G. E.). Þau eru mjer óviðkomandi. En mig tekur það sárt, að háttv. þm. (G. H.) skuli alt af vera að smásenda hnútur í þetta mikla mannvirki, sem jeg er sannfærður um að verður þinginu til mikils sóma, ef það nær fram að ganga nú. Það gæfi fjárlögunum miklu meiri svip en ella. Og jeg lít svo á, að það ætti að vera hugsjón hvers þinga, að skapa á hverju fjárhagstímabili eitthvert mannvirki, er stæði lengi sem vottur um vaxandi menningu. Þegar menn ríða austur um sveitir, hvað er það þá, sem þeir helst reka augun í? Það eru brýrnar á Ölfusá og Þjórsá. Og jeg er viss um það, að líti háttv. 1. þm. Húnv. (G. H.) á fortíðina og beri hana saman við nútímann, þá kannast hann við, að þessi mannvirki, Ölfusár- og Þjórsárbrú, sjeu einn af ríkusta vottum um vaxandi menningu í landinu. Jeg tel óþarfa að fara frekari orðum um þetta mál nú. Það er svo margsýnt fram á nauðsynina til verksins, og þau rök standa enn óhrakin.

Að því er snertir fjárveitinguna til rannsóknar á járnbrautarsvæðinu austur um sýslur, þá skal jeg játa það, að jeg býst við, að sú komi tíðin, að þessi járnbraut verði lögð. En þegar jeg lít á allar horfur nú, þá gjöri jeg ekki ráð fyrir, að hægt verði að leggja hana fyrstu árin. Þess vegna virðist mjer óþarft að veita þetta fje að þessu sinni. Aftur á móti finst mjer það eðlilegt og sjálfsagt, að haldið sje áfram snjómælingum á þessum stöðvum á hverjum vetri, svo að fáist sem glegst vitneskja um það, hvar snjóþyngslin sjeu mest, og þetta kostar heldur ekki mikið fje. En að öðru leyti gjöri jeg ráð fyrir því, að ófriðurinn valdi því, að við getum ekki hugsað til þess, að koma þessu fyrirtæki í verk á næstu árum.

Jeg hefi þá athugað helstu brtt., sem fyrir liggja, og hefi reynt að vera eins stuttorður og mjer var unt, en væntanlega gefst mjer kostur á að bæta það upp næst er jeg tek til máls.