04.09.1915
Efri deild: 52. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 31 í B-deild Alþingistíðinda. (12)

108. mál, fjárlög 1916 og 1917

Guðmundur Ólafsson:

Jeg stend ekki upp af því, að jeg eigi brtt. við þenna kafla fjárlaganna. En það eru nokkrar af breytingartillögum hv. nefndar, sem jeg vildi minnast á. Eins og hv. framsögumaður tók fram, hefir frumv. að því leyti tekið bótum hjá nefndinni, að tekjuhallinn hefir lækkað, en með þá stefnu, sem nefndin hefir tekið, er jeg ekki ánægður, því að mjer finst hún einmitt hafa lækkað þær fjárveitingar sem síst skyldi, og einmitt þessar fjárveitingar snerta mitt kjördæmi. Af flutningabrautunum hefir hún tekið flutningabraut okkar Húnvetninga eina út úr og lagt til að henni mætti fresta, ef fyrirsjáanlegt er að tekjur landsins hrökkva ekki til lögskipaðra útgjalda. Þetta er auðsjáanlega ekki sanngjarnt, og jeg hefi ekki sannfærst af ástæðum háttv. framsögumanns. Hann sagði að sú athugasemd, sem nefndin leggur til að samþykt verði stafi af því, að hún vilji helst fresta því, sem mikill efniskostnaður er við, og nefndi hann í því sambandi brúna á Jökulsá á Sólheimasandi, og svo þá brú, sem hjer er um. að ræða á Húnvetningabrautinni. Jeg skal játa að það er mikið fje, sem sparast við að fella brúna á Jökulsá. En brúin á Hnausakvísl er ekki sú næsta, að því er kostnað snertir; það er brúin á Hjeraðsvötnum, og leggur þó háttvirt nefnd ekki til að fjárveiting til hennar sje feld. Verkfræðingurinn hefir áætlað að brúin á Hnausakvísl muni kosta um 20 þús. kr., og er það ekki mikið fje. Nefndin bar verkfræðinginn fyrir því, að vegurinn kæmi ekki að notum, ef að eins yrði unnið að honum fyrra árið. Jeg hefi talað við verkfræðinginn, og skildi jeg hann ekki svo; er líka nægilega kunnugur þarna til þess að geta dæmt um það, og háttvirtur framsögumaður nefndarinnar hefir svo mikinn kunnugleik á þessu, að hann hlýtur að vita að jeg fer hjer með rjett mál. Ef veitt er fje til vegarins fyrra árið, kemst vegurinn yfir kvíslina, og gjörir þá minna til þó frestað verði áframhaldi hans seinna árið. Ef nauðsynlegt er að fresta einhverju, finst mjer að Húnvetningum sje ekki gjört beint ranglæti, ef fyrra árs veitingin er látin standa. Jeg játa að það þarf að spara, en jeg get ekki samþykt að taka einstakar fjárveitingar þannig út úr. Menn verða að gæta að því, að þetta er löng braut og nýlega byrjað að leggja hana, og þar að auki má geta þess, að fje það, sem veitt hefir verið til hennar undanfarandi, hefir ekki verið unnið upp. Mjer var auðheyrt að háttv. fjárlaganefnd hefir ekki góða samvisku af þessari tillögu, af því að hv. framsögumaður sá ástæðu til að forsvara hana sjerstaklega, og jeg vona að hv. deild komist ekki að þeirri niðurstöðu, að rjett sje að láta annað gilda um þennan veg en aðra vegi.

Þá vildi jeg minnast á Langadalsveginn.

Honum voru ætlaðar 7 þús. kr. hvort árið í frumv. stjórnarinnar, og hann kom frá neðri deild með 7 þús. kr. annað árið, en nefndin hjer hefir lagt til að hann verði lækkaður niður í 5 þús. Háttv. frams. maður mintist ekki á þetta, enda er ilt að forsvara það. Þetta er póstvegur, mjög fjölfarinn og oft lít fær, og ekki er hjer að ræða um útlent efni, sem þarf að spara. Háttv. 2. kgk. (Stgr. J.), sem hefir farið þarna um oft, vjek nokkrum orðum að nauðsyn þessa vegar, og mjer heyrðist hann ekki líta svo á, að tilhlýðilegt væri að takmarka þessa fjárveitingu svo mjög.

Um aðrar breytingartillögur mun jeg sýna með atkvæði mínu hvernig jeg lít á þær, og mun yfirleitt verða meir fylgjandi fjárveitingum til verklegra framkvæmda en öllum þessum bitlingum og guðsþakkafje til einstakra manna. Jeg ætla að eins að geta þess, að jeg er mótfallinn lækkun til sýsluvega, og er jeg þar á sama máli og og hv. 2. kgk., en get ekki fallist á breytingartillögu nefndarinnar.