28.08.1915
Neðri deild: 45. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 366 í B-deild Alþingistíðinda. (1207)

108. mál, fjárlög 1916 og 1917

Guðmundur Hannesson:

Jeg skal fyrst byrja á, að fara nokkrum orðum um fjárveitingar þær, er snerta kjördæmi mitt. Jeg hefi heyrt því fleygt, að Húnavatnssýslu væri ætlað óhæfilega mikið fje í fjárlögunum. Það er auðvitað satt, að flutningabrautir kosta mikið, en ef að er gáð, þá er upphæðin hin sama og vant er að veita til flutningabrauta, sem verið er að leggja, 15000 kr. á ári. Að eins lendir óhjákvæmlegur aukakostnaður á fyrra árinu, því að þá verður að byggja brú yfir Vatnsdalsá. Síðara árið er fjárveitingin einar 15000 kr.

Eins og sjá má á frumv. stjórnarinnar, telur bæði hún og landaverkfræðingur Langadalsveginn nauðsynlegan, en fjárlaganefndin vill lækka upphæðina sem svarar fjárveitingunni til hana. Aftur hefir hún fallist á skoðun stjórnarinnar um nauðsyn vegarins, enda getur engum, sem þekkir til, blandast hugur um hana. Landsverkfræðingurinn er ekki heldur svo bruðlunarsamur á fje, að hann hefði lagt með veginum, ef ekki hefði verið full ástæða til þess.

Um fjárveitinguna til Langadalsvegarins hafa komið fram tvær brtt., og fer önnur í þá átt, að fella fjárveitinguna líka síðara árið. Jeg álít að það muni verða skammgóður vermir, þótt feld sje burtu fjárveitingin síðara árið, því bráðlega verður að fullgjöra þessa braut.

Það hefir komið til tala að breyta póstleiðinni og leggja hana yfir Kolugafjall til Sauðárkróks. Þessi breyting væri mjög haganleg fyrir Skagfirðinga, og skiljanlegt, að þeir sjeu henni fylgjandi, en þó mun vera úti lokað að sú leið verði farin, því landsverkfræðingurinn hefir látið í ljós við mig, að sjer hefði aldrei komið til hugar að vegurinn yrði lagður yfir Kolugafjall.

Þá hefir því og verið kastað fram, að leiðin yfir Kolugafjall væri styttri. Jeg hefi mælt þetta svo nákvæmlega sem jeg hefi átt kost á, á góðum uppdrætti, og hefi rekið mig á, að svo er ekki. Leiðin yfir Kolugafjall er sem sje hjer um bil 3 dönskum mílum lengri, ef mælt er frá Blönduósi að Öxnadalsheiði.

Jeg skal ekki fjölyrða um Blönduósbryggjuna að þessu sinni, en að eins geta þess, að nýlega hefir mjer borist símskeyti norðan af Blönduósi, þar sem sagt er frá því, að nú nýlega hafi Vesta orðið að snúa aftur með miklar vörur, sem legið hafa í henni síðan í vor, vegna þess að þeim varð ekki komið í land. Tvisvar hafði legið nærri, að bátshöfnin á uppskipunarbátnum hefði druknað. Ætti þetta að nægja, til þess að sýna, hvert alvöru- og nauðsynjamál bryggjan er.

Um vörina við Ingólfshöfða er það að segja, að verkfróður maður hefir látið í ljós við mig, að ómögulegt verði að ryðja hana svo, að hún komi að nokkru gagni, og þykir mjer því nauðsynlegt að fjárveitingin sje því skilyrði bundin, að landsverkfræðingur álíti, að verkið geti komið að tilætluðum notum.

Um hækkunina til Kennaraskólana hefi jeg ekki annað að segja, en alt hið besta. Jeg veit það af eigin reynslu, að Sigurður Guðmundsson er ágætur kennari, og mjer sýnist það vera fullkomin sanngirniskrafa, að hann fái í þetta sinn nokkurt fje til uppbótar.

Þá hefir komið fram tillaga um að veita fje til lögreglueftirlits með bannlögunum. Ef það gæti orðið að gagni, myndi jeg ekki sjá eftir því, en jeg tel það mjög vafasamt, að slíkt eftirlit, sem hjer er um að ræða (vörður í skipum), sje framkvæmanlegt. Það ætti heldur að gjöra gangskör að því, að hafa betra eftirlit með þeim mönnum, sem öllum er vitanlegt að selja vín.

Samúel Eggertsson hefir sótt um fje til að gjöra landslagsuppdrátt af Íslandi. Vitanlega er þetta hlutur, sem enginn getur leyst af hendi, nema hann hafi lært uppdráttagjörð. Þessi maður hefir ekki lært að gjöra landsuppdrætti og ekki er mjer kunnugt um, að hann hafi sjerþekkingu á landfræði Íslands. Nú er búið að mæla upp mikið af landinu, og ef menn vildu fá slíkan uppdrátt, sem hjer um ræðir, þá er það ofur einfalt mál. Ekki er annað en snúa sjer til þeirra manna, sem hafa fengist við mælingarnar, og kunna að vinna þetta verk. Þeir hafa til þess áhöldin, og það myndi verða tiltölulega ódýrt hjá þeim, en engin leið að gjöra þetta, nema með góðum áhöldum. Þó þetta sje mætur maður,og listfengur á marga lund, þá er ekki von að hann kunni það, sem hann hefir aldrei lært.