28.08.1915
Neðri deild: 45. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 371 í B-deild Alþingistíðinda. (1209)

108. mál, fjárlög 1916 og 1917

Stefán Stefánsson:

Jeg hefi leyft mjer að koma fram með þrjár brtt., sem jeg vil minnast á með örfáum orðum.

Fyrsta tillagan er, að 5000 kr. verði gefnar eftir af 10000 kr. tillagi, sem Skagafjarðarssýsla og Eyjafjarðarsýsla hafa, lagt til símalínunnar milli Sauðárkróks og Siglufjarðar. Þessa hefir verið leitað áður, þótt það hafi verið undir nokkuð ólíku formi, en alt af árangurslaust. Háttv. 2. þm. Skagf. (J. B.) hefir farið fram á það í Ed., að þessi símalína yrði tekin í 1. flokk, en það var felt með öllum atkvæðum gegn atkvæði flutningsmannsins eins. Jeg hefi því litið svo á, að það hefði enga þýðingu, að flytja slíka tillögu hjer, en í stað þess hefi jeg leyft mjer að flytja þessa tillögu, sem fer fram á það, að helmingur tillagsins verði gefinn eftir, en að öðru leyti engin breyting gjörð á því, í hvaða flokki línan telst, og ekki heldur farið fram á neina breytingu á því, hver kostaði stöðvarreksturinn á Siglufirði. Ástæðan til þessarar brtt. minnar er sú aðallega., að þessi símalína borgar árlega svo geysimikið fram yfir allan kostnað, að það er ósanngjarnt í mesta máta að heimta allar tekjurnar og auk þess, að sýslurnar borgi þessar 10000 kr. Til dálítillar skýringar skal jeg gefa þær upplýsingar, að þessi lína frá Vatnsleysu í Skagafirði til Siglufjarðar kostaði tæpar 30000 kr. En í stað þess, að leggja að eins þá línu, var líka lögð lína í framhald af henni frá Vatnsleysu til Sauðárkróks. Þessi vegalengd, sem er 15–16 km., er því aðallínunni óviðkomandi, en hún kostaði um 6000 kr. Upphaflega var ekki óskað eftir öðru, en að línan lægi frá Siglufirði til Vatnaleysu í Skagafirði, svo að í stað þess, sem hún þurfti ekki að kosta nema tæpar 30000 kr., hefir hún kostað 35264,34 kr. Þegar Skagafjarðarsýsla og Eyjafjarðarsýsla gengust undir það, að greiða 10000 kr. af öllu þessu fjárframlagi, var það álit manna, að línan myndi ekki gefa eins mikið af sjer eins og raun er á orðin. Reikni maður að línan hafi kostað 30000 kr. frá Siglufirði til Vatnsleysu, þá er hún nú fullkomlega borguð, því að árlega hefir hún gefið af sjer um 20%, auk vaxta og alls kostnaðar við rekstur stöðvanna og viðhald línunnar. Það væri því harla eðlileg krafa, að þessi lína yrði tekin upp í 1. flokk, eða með öðrum orðum að alt framlag hjeraðanna yrði endurgreitt og stöðvarkostnaður borgaður af símanum; en þar sem krafan kemur nú fram í þessu milda formi, þykist jeg mega vænta þess, að þingið veiti þessa mjög svo sanngjörnu eftirgjöf. Þegar jeg tek það fram, að línan gæfi af sjer 20% árlega, þá eru að eins teknar til greina þær tekjur, sem fást fyrir útfarin simasamtöl og símskeyti, en innkomin samtöl og símskeyti alls ekki talin með. Það mætti því að líkindum telja tekjurnar helmingi meiri. Jeg skil nú ekki að þingið geti gengið fram hjá þessari hóflátu kröfu, sjerstaklega þegar litið er til þess, að Vestmannaeyjalínan var þegar í byrjun tekin upp í fyrsta flokk og allur kostnaður greiddur af landssjóði. Jeg skal svo ekki fara frekari orðum um þetta atriði. Jeg hefi í örfáum dráttum leitast við að lýsa því, hversu eðlileg þessi ósk Skagfirðinga og Eyfirðinga er. Málið hefir verið rætt í báðum sýslunum á þingmálafundum, og þykir öllum það vera of langt gengið, að heimta svo mikið fjárframlag af línu, sem gefur jafnmikið af sjer í hreinar tekjur árlega.

Þá á jeg aðra brtt. á þgskj. 568, og skal jeg ekki vera margorður um hana. Við 2. umræðu fjárlaganna var samþ. að veita Einari Hjaltested 3000 kr. styrk til sönglistarnáms. Mjer virtust þingmenn þá greiða atkvæði í hugsunarleysi um styrk þenna, og hefir það líklega stafað af því, að þeir hafi ekki þekt ástæður þessa manns. Jeg hefi síðan leitað mjer upplýsinga um fjárhagslega aðstöðu þessa manns, og fengið að vita, að aðstandendur hans eru góðum efnum búnir. Mjer finst því, að þótt hann fengi ekki nema 1000 kr, þá ætti það að vera góður styrkur fyrir hann með því fje, sem hann má vænta frá aðstandendum sínum hjer í Rvík. Þegar svo er að menn sinna ekki ýmsum almennum nauðsynjamálum, virðist það fremur hjáleitt, að veita fje til einstakra manna í mörgum þúsundum. Mjer er nú forvitni á að vita, hvernig menn greiða atkvæði um þessa tillögu, þegar það má, telja sem víst, að þessi maður fær nægilegt fje annarsstaðar frá. Það er sannarlega til nógu mikils mælst, að veita þessum manni 1000 kr. styrk, en þó hefi jeg sett til vara 1500 kr., ef deildarmönnum skyldi þykja 1000 kr. of smávægileg fjárveiting.

Þá er þriðja brtt. mín á þgskj. 569, um að veita Benedikt barnakennara Þorkelssyni 100 kr. ellistyrk. Hann er bláfátækur maður, sem hefir stundað barnakenslu í 30–40 ár, en er nú orðinn heilsulítill og getur ekki sint öðrum störfum. Hann hefir áður sótt um ellistyrk í viðurkenningarskyni fyrir starf sitt, en fjekk þá enga áheyrn. Þessa tillögu hefi jeg flutt eftir beinni ósk hans, og af því að jeg hefi þekt manninn og starf hans frá því jeg var unglingur, þá get jeg með ljúfu geði gefið honum mín bestu meðmæli. Háttv. fjárlaganefnd hefir ekki treyst sjer til að taka upp styrkveitingu til þessa kennara, og stafar það kann ske af því, að umsókn hans hafa að þessu sinni ekki fylgt nein meðmæli frá einstökum mönnum, og kemur það til af því, að á þinginu 1913 lágu fyrir meðmæli ýmsra mætra manna með styrkbeiðni hans. Jeg man vel eftir því, að hann sýndi mjer þá vottorð frá mörgum velmetnum mönnum, og skal jeg af þeim nefna síra Jónas Jónasson og síra Helga Árnason prest í Ólafsfirði. Þessi kennari hefir unnið að sínu kennarastarfi bæði í Skagafjarðar- og Eyjafjarðarsýslum, en er þó fjelaus með öllu. Hann varð fyrir því óhappi fyrir nokkrum árum að tapa því fje, sem hann hafði smátt og smátt aurað saman til elliáranna, lánaði það kunningja sínum, í þeirri góðu trú auðvitað, að fá það aftur, en reynslan hefir orðið sú, að hann hefir ekki fengið einn eyri. Það væri því einkar vel til fallið, ef þingið sæi sjer nú fært að styrkja þenna gamla og fátæka mann, sem er búinn að slíta kröftum sínum í nytsömu starfi í þarfir fósturjarðarinnar, með því að veita honum þenna litla styrk árlega, því, eins og jeg tók fram, er hann nú ekki orðinn vinnufær, en þykir hina vegar sárt að verða að leita til sveitarinnar með framfæri sitt á gamals aldri. Jeg vil því enn leyfa mjer að mæla hið besta með þessari litlu fjárveitingu, og læt jeg svo máli mínu lokið í þeirri von, að háttv. deild sjái sjer fært að verða við þessum mjög svo eðlilegu tilmælum hans.