28.08.1915
Neðri deild: 45. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 375 í B-deild Alþingistíðinda. (1210)

108. mál, fjárlög 1916 og 1917

Björn Hallsson :

Jeg held að það nálgist, að jeg tali yfir tómum bekkjum nú; mönnum eru auðsjáanlega farnar að leiðast umræður í fjárlögunum, og er það að vonum, því að þær eru orðnar langar. En jeg hefi ekki lengt hjer óþarfar umræður og vona, að menn hlusti því með þolinmæði á þau fáu orð, sem jeg ætla að segja. Jeg segi óþarfar umræður, af því að jeg lít svo á, að langar ræður breyti ekki afstöðu einstakra manna til málanna og sjeu því gagnslausar. .

Jeg hefi ekki flutt áður nema eina brtt. við fjárlögin, ásamt háttv. 2. þm. N.-M. (J. J.). En hún fann ekki náð fyrir háttv. deild.

Nú hefi jeg ekki við þessa umræðu flutt neina brtt., beint, en óbeint á jeg eina, er jeg vil minnast á. Jeg skrifaði háttv. fjárlaganefnd um að hækkaður yrði styrkur til búnaðarskólans á Eiðum. Undanfarið hefir styrkurinn verið 2500 kr., en meðan hann er svo lágur, samsvarar hann ekki því fje, sem rekstur skólans kostar, og á skólinn því einlægt við þröngan fjárhag að búa. Nú hefir fjárlaganefndin verið svo sanngjörn, að taka þessa styrkhækkun til greina. Ástæður fyrir þessari umsókn tók jeg fram í brjefi mínu til nefndarinnar, eins og háttv. framsm. fjárlaganefndar (P. J.) tók fram, og skal jeg taka þær hjer upp í örfáum dráttum.

Á síðasta vori var samþykt ný reglugjörð fyrir skólann; var hún sniðin eftir reglugjörð bændaskólanna. Þessi nýja reglugjörð hefir í för með ser talsverð aukin útgjöld við skólahaldið. Þannig hækkar kaup kennara að mun, enda var það sanngjarnt, því kaup þeirra var lágt og þeir eru góðir kennarar og standa því vel í stöðu sinni. Hefðu þeir annars farið frá skólanum, og hann því tapað góðum kenslukröftum, því að eins og eðlilegt var, báru þeir laun sín saman við laun kennaranna við bændaskólana, en þau voru talavert hærri en á Eiðum.

Það er ýmislegt fleira, sem reglugjörðin gjörir ráð fyrir, er hefir aukin fjárútgjöld í för með sjer, svo sem námsstyrkur bæði fyrir bóklegt og verklegt nám, sem hefir ekki verið áður nema við verklegt nám.

Það virðist ekki vera ósanngjarnt, bæði borið saman við bændaskólana, eins og jeg hefi drepið á, og einnig borið saman við kvennaskólana, að styrkurinn til Eiðaskóla verði hækkaður. Enn fremur má benda á það, að sumum þessara skóla hefir nú verið veitt styrkuppbót, vegna hins afarháa kolaverðs, sem nú er. Jafnframt vil jeg benda á það, að háttv. Alþingi ætti ekki að þurfa að vaga í augum þessi styrkur til Eiðaskóla, þar sem hann er sú eina skólastofnun, sem er á Austurlandi, fyrir utan unglinga og barnaskóla í kaupstöðum. Þess vegna virðist öll sanngirni mæla með því, að hann sje styrktur verulega úr landssjóði.

Hins vegar er mjer fullkunnugt um, hversu fjárhagur skólans er erfiður, því að jeg er í skólanefndinni og fjehirðir skólasjóðs. En á hinn bóginn er mönnum þar eystra mjög mikið áhugamál, að halda skólanum áfram, því að nýlega hefir verið reist þar vandað og risulegt skólahús, sem kostaði allmikið fje, og auk þess vilja menn ekki missa þá einu skólastofnun, sem til er á Austurlandi.

Hjer er einungis farið fram á, að styrkurinn sje færður úr 2500 kr. í 3000 kr., og er því ekki nema um 500 kr. hækkun að ræða.

Jeg skal svo ekki fjölyrða um þetta, en þykist hafa ástæðu til að vonast til þess, að háttv. deild taki þessari málaleitan vel.

Jeg ætla mjer ekki að fjölyrða um allan þann mikla fjölda af brtt., sem hjer eru fyrir hendi, enda væri það til þess að æra óstöðugan, að fara að rekja þær allar. Yfirleitt hallast jeg að tillögum fjárlaganefndar. Jeg vil gjarna spara og vil ekki fara í kapphlaup um að ná sem mestu úr landssjóði fyrir mitt kjördæmi.

Það er þó hjer brtt. á þgskj. 594, er jeg vil minnast á. Hún er um styrk til að vinna kol. Þetta er vandræðamál; upphæðin er allhá, en fjárhagur tæpur. Þó er það engum vafa bundið, að hjer er um þýðingarmikið mál að ræða. Sýnishorn af kolunum, sem hjer eru fyrir hendi, bera það með sjer, að þótt hjer sje ekki um bestu kol að ræða, þá eru þau samt vel brúkleg.

Annara er miklum erfiðleikum bundið að geta hagnýtt sjer þessar kolanámur; lending er afarslæm þarna vestur við Breiðafjörð; væri því óumflýjanlegt að gjöra þar bryggju og jafnvel höfn, en það hefði gífurlegan kostnað í för með sjer.

Þó að jeg sje málinu hlyntur, get jeg samt ekki greitt þessari brtt. atkvæði mitt, vegna þess, að málið er illa undir búið, svo ómögulegt er að giska á, hver kostnaðurinn yrði.

Jeg tek undir með háttv. 2. þm. Eyf. (St. St.), þar sem hann hefir komið fram með brtt. viðvíkjandi 3000 kr. styrk til Einars Hjaltested og vill færa hann niður í 1000 kr.

Við 2. umræðu fjárlaganna var hjer haldin mjög gyllandi ræða fyrir styrk til þessa manns. Jeg hefi síðan grenslast eftir ástæðum hans, og eftir þeim upplýsingum, sem jeg hefi fengið, fylgi jeg að sjálfsögðu lækkuninni, frá háttv. 2. þm. Eyf. (St. St.), þó jeg vildi helst, að styrkurinn væri alveg feldur, því að þótt þörf geti verið á að stykja listamenn til náms, má þó ofmikið af öllu gjöra og misjafnar ástæður manna.

Jeg ætla að efna loforð mitt, um að þreyta ekki um of háttv. deild með langri ræðu, en mun sýna afstöðu mína til annara brtt. með atkvæði mínu, er þar að kemur.