28.08.1915
Neðri deild: 45. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 381 í B-deild Alþingistíðinda. (1212)

108. mál, fjárlög 1916 og 1917

Björn Kristjánsson:

Jeg á fáeinar brtt., er jeg vil minnast á.

Það er þá fyrst brtt. á þgskj 531, þar sem farið er fram á, að veitt sje síðara árið á næsta fjárhagstímabili 3900 kr. til brúargjörðar á Bleikdalsá í Kjósarsýslu. Jeg hefi flutt þetta mál þing eftir þing. Fyrst flutti jeg það 1909, og var þá lögð fram áætlun um kostnaðinn, er fyrirtækið hefði í för með sjer, gjörð af landsverkfræðingi. (Matthías Ólafsson : Þetta hefir verið samþykt á öllum þingum síðan). Ekki öllum, en gildar ástæður hafa verið færðar fyrir þessu máli. Eins og kunnugt er, er á þessi á póstleið eða þjóðbraut, en beiðnin um fjárveitingu til þessarar brúargjörðar hefir sjerstaklega komið fram vegna þess, að áin er á læknisleið. Við 2. umr. fjárlaganna lýsti jeg þeim örðugleikum, sem Kjósarhreppsbúar hefðu við að stríða, er þeir leituðu læknis, en þá var feldur hjer í háttv. deild lítilfjörlegur styrkur til þess að gjöra mönnum það ljettara.

Á sumardegi er áin lítil, en á haustin bólgnar hún upp, og er hlákur gjörir, er hún tæplega reið, jafnvel stundum ófær með öllu.

Landsverkfræðingur hefir lagt til í , athugasemdum við tillögur um fjárveitingar til vegabóta árin 1916–17, sjá A. bls. 80, að brúargjörð á Bleikdalsá yrði látin ganga á undan flestum öðrum.

Þess vegna er það ekki ósanngjarnt, að fara fram á, að brúin verði nú gjörð síðara árið, því vitanlega ætlast landsverkfræðingur til, að þetta verði gjört á næsta fjárhagstímabili.

Þetta virðist því síður vera ósanngjarnt, þar sem styrkurinn, til að gjöra mönnum ekki eins erfitt að vitja læknis í Kjósarhreppi, var feldur, og því fremur virðist vera ástæða til þessa fyrir þingið, þar sem þessi sýsla fjekk ekkert fjárframlag í síðustu fjárlögum og á enga fjárframlagsvon í núverandi fjárlögum, nema ef það kynni að verða þessi fjárhæð. Borið saman við aðrar sýslur er ólíku saman að jafna. Jeg vonast því til, þar sem svo margt mælir með þessu, að það verði samþykt.

Á þgskj. 623 á jeg aðra brtt. við tillögur strandferðanefndarinnar, er skoða má sem viðaukatillögu. Hún er um það, að þeir strandferðabátar, sem hafa fasta ferðaáætlun, sjeu skyldir að láta Stjórnarráðið vita, hvar þeir hafi verið staddir á hverjum tíma í lok hvers mánaðar, meðan þeir ganga eftir ferðaáætlun. Þetta gjöri jeg vegna þess, að það hefir reynst þannig, að þeir hafa oft og einatt ekki haldið áætlun, en það reynst mönnum afar bagalegt. Hefir það ekki lítinn kostnaðarauka í för með sjer, er menn verða að bíða tímum og dögum saman. Við það eyða menn peningum beinlínis og óbeinlínis, og verður ekkert úr þeim tíma, sem beðið er.

Ef strandferðaskipunum er gjört að skyldu að láta stjórnarráðinu í tje skýrslu um það, hvar þau eru stödd á hverri stundu og degi, hefir stjórnarráðið sannanir í höndunum, ef kæra kemur á höndur skipunum, og getur því fremur skorið úr því máli. Væri þessu þannig háttað, yrði líka síður hætt við þessu, og skipin gættu sín betur en annars að halda áætlun. Jeg er því sannfærður um, að það væri til bóta að samþykkja þessa tillögu.

Sama tillaga hefir komið fram á þgskj. 590 við fjárlögin, en jeg tek hana aftur nú.

Þá kem jeg að brtt., sem jeg á á þgskj. 539.

Meiri hluti háttv. fjárlaganefndar vildi láta stjórnina útbýta styrknum til skálda og listamanna. En þó hefir hún í nefndarálitinu tiltekið þær upphæðir, er henni fundust hæfilegar, og ætlast til þess, að stjórnin fari eftir því. Nú er deildinni kunnug skoðun hæstv. ráðherra á þessu, að hann skoðar þessar upphæðir sem minsta styrk og bindur sig ekki við þær að öðru leyti. Þar sem þessu er þannig farið, að ráðherra telur sig óbundinn af tillögum nefndarinnar, þá finst mjer ekki ástæða til að taka styrkinn út úr fjárlögunum, og legg jeg því til að hann sje aftur tekinn upp í þau sem áður.

Aðalástæðan fyrir því, að þetta var tekið út úr fjárlögunum, er víst það, að mönnum hefir þótt leitt að tala um einstaka menn í umræðum á þingi. En þar sem menn eru nefndir á nafn við ýmsar aðrar fjárveitingar, þá er ekki ástæða til að taka hina undan, ekki síst þar sem þeir hafa haft styrkina lengi, og því ólíklegt, að mikið verði um þá deilt.

En ástæðan fyrir því, að jeg vil að fjárveitingar þessar standi í fjárlögunum, er sú, að þessir menn þurfa að vita á hvað mikinn styrk þeir mega byggja, og það sem fyrst, jafnvel áður en þingi er slitið. Ekki síst vegna þess, að margir þessara manna eru fátækir, og kemur því mjög bagalega, ef styrkurinn verður ekki eins hár og þeir bjuggust við. Jeg vil því vonast til að þessar fjárveitingar verði teknar aftur upp í fjárlögin.

Jeg skal geta þess í þessu sambandi, að ágreiningur er um, hvort gjöra eigi upp á milli Guðmundar Guðmundssonar og Guðmundar Magnússonar. Það átti að lækka styrk Guðmundar Magnússonar, en jeg legg til, að styrkur Guðmundar Guðmundssonar verði hækkaður, svo báðir hafi jafnt. Tillögur mínar í þessu efni fara því fram á, að báðir hafi 1200 kr. á ári. — Guðmundur Guðmundsson sje hækkaður um 200 kr. — En fáist það ekki fram, þá kem jeg fram með varatillögu um, að báðir fái 1000 kr. á ári. Styrkur Guðmundar Magnússonar. sje lækkaður um 200 kr. Enda gjöri jeg ráð fyrir, að hann beri meira úr býtum fyrir rit sin, þar sem hann skrifar aðallega sögur, en hinn er lyriskt; skáld.

Út af því því, sem háttv. 2. þm. Eyf. (St. St.) sagði um efnahag aðstandenda Einars Hjaltested, skal jeg geta þess, að hann hefir þar skakt fyrir sjer. Mjer er þar kunnugra um en öðrum, og jeg veit, að þeir geta ekki hjálpað honum um fje honum til styrktar áfram, svo að hann verður að hætta söngnámi, ef þingið tekur ekki beiðni hans til greina.