28.08.1915
Neðri deild: 45. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 389 í B-deild Alþingistíðinda. (1214)

108. mál, fjárlög 1916 og 1917

Sigurður Gunnarsson:

Jeg á hjer eina breytingartillögu á, þgskj. 585, en aðrar tvær ásamt með háttv. þm. Dal. (B. J ) á þgskj. 618 og 591.

Um brtt. á þgskj. 585 skal jeg fyrst geta þess, að eins og kunnugt er, hafði hæstv. stjórn lagt það til í fjárlagafrv. sínu, að veittar yrðu 8000 kr. hvort árið til Stykkishólmsvegar, en háttvirt fjárlaganefnd kom með þá breytingartillögu, að fella niður þenna styrk síðara árið, og náði hún fram að ganga hjer við 2. umræðu. enda þótt fjárlaganefndin legði enga sjerstaka áherslu á þetta. Nú legg jeg það til í brtt. minni, að síðara árið verði þó veittar 6000 kr. til áframhalds vegarins, og vona að hv. deild taki þessu vel. Ástæðurnar til þessa eru þær, að fyrst og fremst hefir stjórnin og verkfræðingurinn mælt í fremstu röð með þessum vegi, og hefir landaverkfræðingurinn leitt rök að því, að hann eigi að ganga fyrir öllum öðrum þjóðvegum, eins og jeg gat um við 2. umr. Enda tekur nú við sá kaflinn sem verstur er yfirferðar, og vantar ekki nema herslumuninn, eins og landsverkfræðingurinn hefir lýst ítarlega í ástæðum fyrir fjárlagafrumv. Og í öðru lagi vil jeg benda á það, að til þess að framkvæma þetta verk, þarf ekki að kaupa nein útlend efni, sem nú eru margfalt dýrari en venjulega. Þess vegna eiga nú vegagjörðir síst að falla niður af öllum verklegum framkvæmdum, þar sem við eigum líka menn til slíkra verka, sem eru dýrir landinu hvort sem er.

Jeg vil líka benda á það, að í þessu kjördæmi er engin flutningabraut og enginn annar þjóðvegur, sem landið styrkir, og jeg hefi sjeð það, bæði við 2. umræðu og nú, að fram hafa komið ekki svo fáar tillögur um brýr, sem þó er lakara að koma upp nú í dýrtíðinni, þar sem til þeirra þarf mikið af útlendu efni. Jeg segi ekki þetta af því, að jeg hafi á móti fjárveitingum til þeirra í sjálfu sjer, heldur af því, að mjer finst þó að vegirnir ættu að standa betur að vígi nú.

Skal jeg svo ekki fara fleiri orðum um þetta, en vona að þessi hóflega tillega, sem færð hefir verið niður um 2 þús. kr., finni náð fyrir augum háttv. deildar.

Þá skal jeg minnast á tillöguna, sem við háttv. þingm. Dal. (B. J.) eigum á þgskj. 618, um hækkun á styrk til flóabáts á Breiðafirði, og heyrði jeg að hv. formaður fjárlaganefndar (S. B.) mintist á það mál nokkrum orðum.

Jeg skal fyrst geta þess, að þetta hefir verið vandræðamál fyrir Breiðfirðinga um mörg undanfarin ár. Það hefir eigi tekist enn, að útvega almennilegan bát til þessara ferða, heldur hafa menn orðið að bjargast við óhentugan bát, sem ein útlend verslun hefir átt. Þetta hefir leitt til einveldis um áætlanir og fargjöld, og hefir það fyrirkomulag orðið dýrt, og þó langt frá því að vera fullnægjandi. Því var það, að sýslunefndirnar í Dala- og Snæfellanessýslum tóku sig saman, og nefnd manna var skipuð í fyrra, til þess að undirbúa innlent hlutafjelag, til að láta byggja og gjöra út bát, sem tæki að sjer þessar ferðir framvegis. Háttv. formaður fjárlaganefndar (S. B.) gat þess, að beiðni um styrk hefði legið fyrir fjárlaganefnd, en til allrar ólukku fylgdu þar með þær upplýsingar, sem ekki eiga lengur við, eins og málið horfir nú við. Báturinn á sem sje að verða 50 smál. að stærð og hafa 70 hesta afl og meira lestarrúm og þægindi öll en sá, er áður var, og það er ætlast til, að hann taki að sjer alla viðkomustaði kring um Breiðafjörð, frá Hellissandi og inn úr, kring um Hvammafjörð o. s. frv. Enn fremur er ætlast til, að hann fari stundum vestur í Barðastrandarsýslu og hingað til Reykjavíkur, og getur hann þá flutt útlendu vöruna beint vestur, sem er alveg nauðsynlegt. Og á sama hátt á hann að koma innlendu vörunum frá þeim auðugu hjeruðum, sem hjer er um að ræða, til Stykkishólms, og er því auðsjeð að þessi bátur; sem á að hafa svo mikla yfirferð, muni verða að margvíslegu gagni.

Nú kann einhver að segja, að þegar litið sje á strandferðaáætlunina, sem sje sú sama og í fyrra, þá sje óþarfi að styrkurinn sje svo hár, sem við viljum leggja til.

En það er athugandi, að strandferðirnar geta alls ekki fullnægt viðskiftaþörfinni, og allra síst gætu strandbátarnir komið á alla þá staði, er flóabáturinn myndi og þyrfti að koma á.

Sje eitthvað óljóst í því, er jeg hefi tekið fram, þá mun háttv. þm. Dal. (B. J.) skýra það, þá er hann tekur til máls.

Í sambandi við breytingartillöguna á þgskj. 591, þar sem við, hv. meðflutningamaður minn og jeg, förum fram á að landasjóður veiti 10000 kr. lán til bátskaupanna, eða rjettara sagt ábyrgð fyrir 10000 króna láni, þá skal jeg taka það fram, að tilætlunin er auðvitað sú, að sú ábyrgð sje veitt gegn þeirri tryggingu, er stjórnin tekur gilda. En að hinu leytinu þá ætlar hlutafjelagið að ná í það, sem á vantar með hlutafjársöfnun og viðbótarláni á einn eða annan hátt, og hlutaðeigandi sýslur hafa þegar samþykt þátttöku í þessu fyrirtæki og leggja fram 3000 kr. hvor, eða 6000 kr. alls. Hlutafjársöfnun byrjaði seint í vetur og hefir haldið áfram í vor, og ber ekki á öðru en að hún gangi ágætlega, enda er áhugi manna mikill á málinu og allir hlutaðeigendur vænta þess, að þinginu muni sýnast rjett, að rjetta nú fram höndina, til þess að styrkja þetta innlenda hlutafjelag og sýna þar með, að það vilji ekki draga kjark úr mönnum til nytsamlegra framkvæmda. Út í allar þær brtt., er nú liggja fyrir, dettur mjer ekki í hug að fara; það væri einungis til þess að tefja tímann. En jeg vil geta þess, að jeg er í mjög mörgum atriðum samþykkur fjárlaganefndinni um tillögur hennar. Jeg er og samþykkur því, að nema í burtu ýmsa þá styrki, er nefndin leggur til að afnumdir sjeu sökum þessara erfiðu tíma, sem nú eru. Jeg mun ekki fjölyrða um hinar sjerstöku ástæður til þess, en mun með atkvæði mínu sýna, að mjer er full alvara með þetta.