28.08.1915
Neðri deild: 45. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 392 í B-deild Alþingistíðinda. (1215)

108. mál, fjárlög 1916 og 1917

Framsögum. (Pjetur Jónsson):

Jeg ætla að leyfa mjer að minnast á nokkrar af brtt. þeim, er fyrir liggja frá ýmsum þm.

Á þgskj. 597 hefir komið fram tillaga um, að bætt skuli inn í 11. grein 5000 kr. hvort árið til lögreglueftirlits bannlaganna. Nefndin hefir ekki getað orðið sammála um þessa brtt., og leggur því ekkert til nje frá um samþykt á henni. Jeg fyrir mitt leyti er tillögunni ekki fylgjandi, þó auðvitað sje eftirlitið ekki nægilegt eins og það er ná. En jeg gjöri ráð fyrir því, að þetta yrði svo afarlítil bót á því, og gæti ekki orðið annað en byrjun til eftirlits, er myndi kosta tugi þúsunda fyrir landið og þó illa ná tilgangi sínum. Þetta stafar af því, að jeg álít lögin, ef ekki alveg óframkvæmanleg, þá að minsta kosti ofvaxin íslenskri lögreglu og okkur um megn.

Þá er brtt. á þgskj. 584 við 13. gr. Það er athugasemd, sem háttv. Dal. (B. J.) vill að sje gjörð við vegi, alveg sams konar og athugasemdin við símana, að stjórninni sje heimilað að fresta framkvæmdum á vegalagningu, jafnvel algjörlega, ef hún álíti nauðsynlegt. Mjer þótti þessi tillaga frá háttv. þm. Dal. (B. J.) harla undarleg. En reynd ar veit jeg að þetta hefir komið í fleiri manna, jafnvel í fjárlaganefndinni, en meiri hluti hennar áleit, að varhuga. verðast af öllu væri að fresta vegagjörðum. Það er þess vegna, að mestur kostnaður við vegagjörð gengur til vinnulauna, en minst til efniskaupa, og að það gæti haft truflandi áhrif á atvinnuna landinu, að taka þannig vinnu af mönnum í eitt eða tvö ár, og taka svo þeim mun fleiri menn til vegavinnu síðar meir. Vegna þess arna hafði meiri hluti nefndarinnar á móti því, að nokkur frestur væri gefinn í þessu efni.

Háttv. þm. Dal. (B. J.) hefir bæði nú og áður flutt allmargar brtt., sem jafnan hafa miðað til hækkunar, svo að munað hefir allmiklu fje, og jeg gjöri ráð fyrir, ef allar brtt. hans hefðu verið samþyktar við 2. umræðu, að þá hefði ekki verið vanþörf á þessari athugasemd. Nú við þessa umræðu eru einnig komnar fram fjölmargar brtt. frá honum og öðrum. Mjer þykir það nú næsta undarleg fjármálapólitík, ef fresta á öllum vegagjörðum í landinu, vegna allra þeirra brtt., sem hann flytur eða leggur lið. Jeg skal minnast á það í þessu sambandi, að þá er kom til orða við aðra umræðu að fella burtu styrkinn til búnaðarfjelaganna, þá barðist háttv. þm. Dal. (B. J.) sem ákafast á móti því. Nú er það öllum kunnugt, að þessi styrkur er bútaður örsmátt niður, eins og grjónum sje kastað fyrir hænsni, svo að hann kemur að mjög litlu verulegu liði. Ætli bændum þætti nú búhnykkur að fresta bráðnauðsynlegum vegaframkvæmdum, til þess að geta fengið þessa hrognamola út um alt land? Jeg held ekki.

Þá fer og háttv. 2. þm. Eyf. (St. St.) fram á endurgreiðslu á fje því, er Hvanneyrarhreppur lagði til Siglufjarðarsímans. Nefndin getur ekki felt sig við þessa eftirgjöf. Um þetta hefir mikið verið jagast áður, og ef það fengi nú framgang, þá er hætt við, að fleiri hreppar kæmu á eftir, er vildu fá til baka framlög sín. (Stefán Stefánsson: Enginn með slíkri sanngirniskröfu). Háttv. þm. kveður engin önnur hjeruð hafa jafnmikla sanngirniskröfu. Mjer er það kunnugt og hefi orð símastjórans fyrir því, að ýmsar aðrar línur gefa hlutfallslega jafnmikið af sjer, og þó nokkur partur línunnar sje stofnlína, þá er víðar þannig ástatt, t. d. á línunni frá Húsavík að Breiðumýri. Jeg býst þó ekki við því, að Þingeyingar fari fram á endurgreiðslu, ef aðrir ganga ekki þar á undan.

Þá fer háttv. þm. Dal. (B. J.) fram á persónulega launaviðbót til fornmenjavarðarins, 700 kr. hvert ár. Nefndin getur ekki fallist á þessa tillögu, og skal jeg ekki fjölyrða um ástæðurnar þrátt fyrir þau meðmæli, sem jeg býst við að háttv. flutningsmaður hennar komi með, og sem nefndinni líka eru kunnug. — Þá eru enn tvær brtt. frá háttv. þm. Dal. (B. J.). Önnur fer fram á, að feld sje niður upphæð sú, er veitt er til Bernarsambandsins í fjárlögunum. Jeg þekki að vísu ekki vel til þessa máls, en jeg hygg þó, að þessi styrkur sje veittur til þess að vernda rjett hjerlendra rithöfunda, svo að útlendir menn geti ekki þýtt rit þeirra á ýmsar tungur í heimildarleysi. Jeg býst því við, að ekki væri heppilegt að svifta rithöfunda hjer þeirri vernd, er styrkur þessi veitir. Hin tillaga háttv. þm. Dal. er sú, að feldur sje burtu styrkurinn til landmælinga hjer á landi, 5000 kr. hvort ár. Það er nú að vísu svo, að ef stríðið heldur áfram, þá er líklegt, að ekki þurfi að grípa til þessa fjár á meðan. En nefndin vili ekki fella þessa fjár veiting burtu, heldur að þessu þarfaverki sje haldið áfram af fullum krafti, svo fljótt sem auðið er, vegna þess, að hún álítur nauðsynlegt, að það komist í fulla framkvæmd hið allra fyrsta.

Þá er að minnast á styrkinn til skálda og listamanna. Nefndin heldur fast við það, að hann sje veittur í einu lagi á þann hátt, sem stjórnin hefir áður lagt til. Hún álítur, að það sje ekki vert, að binda hendur stjórnarinnar alt of mikið. Að nefndin hefir áskilið, að nokkrir nafngreindir menn, sem hingað til hafa fengið styrk, haldi áfram að fá hann, kom ekki af því, að fjárlaganefndin vantreysti stjórninni, heldur er það gjört til þess, að þeir mætti eiga styrkinn vísan. Athugasemdin er því alls ekkert vantraust til stjórnarinnar, heldur að eins til tryggingar.

Háttv. 1. þm. G.-K. (B. K.) taldi að það væri betra fyrir þá, sem styrks verða aðnjótandi, að vita fyrirfram hvers þeir megi vænta. Jeg veit ekki. hvað hann á við með þessu. Því jeg hygg, að styrkveitingar muni síst verða hverfulli, ef stjórnin ræður, en þingið. Það hefir oft reynst hverfult í þinginu, hverjir fengju styrkveitingar, og stundum tekið fyrir það alt í einu, sem lengi hafði staðið. Og eitt er að minsta kosti víst, að það er hægra fyrir stjórnina að veita styrk eftir verðleikum, heldur en þingið. Hjer á þingi koma menn sjer aldrei saman í smáatriðunum.

Háttv. sami þingmaður var að gjöra samanburð á þeim skáldunum, Guðmundi Magnússyni og Guðmundi Guðmundssyni, og skal jeg ekki fara út í það mál. Jeg vil þó að eins benda á að skáldsagnagjörð er að minsta kosti ekki ljettari en ljóðagjörð. Ljóðagjörð hjá okkur hefir verið þannig, að skáldin hafa ort meira sjer til dægrastyttingar en af því, að lóðagjörðin gefi nokkuð af sjer, enda hefir það verið svo, að okkar bestu ljóðaskáld hafa haft eitthvað annað en ljóðagjörð að aðalstarfi. Um skáldsagnagjörðina er það að segja, að hún útheimtir mikinn tíma og mikinn lestur. Háttv. þm. V.-Sk. (S. E.) vill láta stjórnina veita styrkinn með ráði 3 manna nefndar, og sje einn kosinn af Háskólanum, annar af Bókmentafjelaginu og þriðji af Stúdentafjelaginu í Reykjavík. Fjárlaganefndin hefir ekki tekið neina afstöðu til þessarar tillögu.

Þá eru hjer 2 tillögur, önnur um að veita Brynjólfi Þórðarsyni 1000 krána styrk fyrra árið, til að stunda málaralist, og hin um veita Theodór Árnasyni 1000 kr. styrk hvort árið, til að fullkomna sig í fiðluspili. Þeir af nefndarmönnum, sem vilja að styrkurinn til skálda og listamanna sje veittur í einu lagi, geta ekki verið með þessum tillögum.

Þá er brtt. frá háttv, þm. Dal. (B. J.) um að veita Jakobi Jóhannessyni 600 kr. hvort árið til að safna til og semja íslenska setningafræði. Nefndin hafði áður haft til meðferðar erindi frá þessum manni um þetta efni og ekki viljað fallast á það.

Þá er ný till. frá háttv. þm. N. Ísf. (Sk. Th.), um að veita Einari skrifstofustjóra. Þorkelssyni 800 kr. styrk hvort árið, til að semja sögu landsfjórðunga og hjeraða á Íslandi, til vara 600 kr. hvort árið. Það er fráleitt, að nefndin hafi nokkuð á móti þessum manni. Hún vildi víst fremur unna honum styrks en mörgum öðrum. Hún þekkir dugnað hans og elju. En þar sem í fjárlögunum eru ekki svo litlar fjárveitingar, sem lúta að söguritum og rannsókn, þá hefir nefndin ekki getað fallist á þessa fjárveitingu þar til viðbótar.

Háttv. þm. Dal. (B. J.) hefir komið fram með till. um að fella burtu. fjárveitinguna til Miklavatnsáveitunnar í 16. gr. Nefndin var dálítið hikandi við, að þetta fje gæti komið að tilætluðum notum, eins og bent er til í nefndarálitinu, Nefndin getur þó ekki verið með því, að fella fjárveitinguna burtu, en hún hefir á sínum tíma lagt til að bæta þeirri athugasemd aftan við liðinn, að verkið verði því að eins framkvæmt, að landsverkfræðingur áliti að það komi að tilætluðum notum.

Þá er tillaga frá háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) um að hækka styrkinn til Fiskifjelags Íslands upp í 20 þús. kr., gegn því, að fjelagið haldi uppi kenslu á Ísafirði handa skipstjóraefnum á smáskipum. Það er ekki hægt að segja annað en að fjárlaganefndin hafi verið rífleg við Fiskifjelagið, ekki lengra en það er á veg komið, og ekki betri en samheldnin er meðal sjómannastjettarinnar, til að efla fjelagið. Lakari voru undirtektir Alþingis við Búnaðarfjelagið þegar það var í uppvexti, og var það þó lengra á veg komið en Fiskifjelagið

nú. Jeg ræð til að láta við svo búið standa. Fiskifjelagið á vöxt í vændum og styrkurinn til þess verður hækkaður á næstu árum, en að þessu sinni má við svo búið standa.

Formaður fjárlaganefndarinnar (S. B.) hefir flutt tillögu um að veita 15 þús. kr. fyrra árið og 10 þús. kr. síðara árið, til kolanámurannsókna á Vestfjörðum. Nefndin hafði þetta mál til yfirvegunar, en hún gat ekki sjeð, að tök væru á því að veita fje til þess að sinni. Það skal fúslega játað, að hjer er um þarfamál að ræða, og að nauðsynlegt er, að komast að raun um sem fyrst, hvað hægt er að hafa upp úr kolanámum hjer á landi. En nefndinni þótti ekki heppilegt að leggja til svo mikið fje nú þegar, sem þurfa mundi til rækilegrar rannsóknar. Þingið þyrfti fyrst að fá að vita, hve mikið slík rannsókn kostaði, svo að hún yrði ekki neitt kák.

Þá flytur háttv. 2, þm. Eyf. (St. St.) brtt. við 18. gr., um að veita Benedikt Þorkelssyni barnakennara 100 kr. styrk á ári. Nefndin hefir ekki getað fallist á hana, og er varla tilefni til að orðlengja um það mál. Jeg get ekki verið með því, að fjölga þeim stjettum, sem settar eru í fjárlögin. Flutningsmaður kom með þessi venjulegu meðmæli, að hjer ætti góður maður í hlut, kominn á efri ár, fjelaus, og þætti sárt að leita til sveitar. Þetta er það sama og segja má um svo margan manninn. En mjer er spurn. Er það ekki að leita til sveitar, að fá 100 kr. í 18. gr. fjárlaganna? Svo virðist mjer. Jeg segi fyrir mig, að heldur vildi jeg fara á minn hrepp, þar sem jeg hefi gjört eitthvert gagn, heldur en að lenda á landssjóði, sem ósjálfbjarga maður.

Háttv. 1. þm. Rvk. (S. B.) flytur brtt. um, að stjórninni veitist heimild til að lána Hjálpræðishernum alt að 25 þús. kr. úr viðlagasjóði til að byggja gistihús í Reykjavík. Lánbeiðni þessi lá fyrir fjárlaganefndinni, og vildi hún ekki sinna henni að neinu. Henni er þetta þó ekki neitt kappsmál, enda þýðingarlítið að heimila þessi lán, þar sem fje er væntanlega ekki fyrir hendi.

Þá er hjer heill hópur af brtt., sem jeg les ekki upp, enda veltur á minstu hvað nefndin leggur þar til málanna; um þær eru meira og minna skiftar skoðanir í nefndinni. Það er auðvitað, þegar þetta moð af brtill. er komið fram, að þá fer alt á ringulreið. Það er ekki hægt að búast við því, þegar öllu er ruglað, sem nefndin vill, að við í nefndinni verðum þá stöðugir í rásinni. Afstaða okkar breytist eftir því, hver niðurstaða verður um einstakar brtt.

Þá vil jeg minnast á þær brtt., sem jeg tel mesta þýðingu hafa. Það eru brtt. strandferðanefndarinnar. Fjárlaganefndin hefir ekki tekið strandferðamálið fyrir til rækilegrar athugunar, af því að strandferðanefndin hafði það til meðferðar. Yfirleitt mun nefndin halda sjer að tillögum strandferðanefndar. Þær till. eru í sparnaðaráttina og tryggja yfirleitt landinu sæmilegar atrandferðir. Jeg ætla mjer ekki að fara inn á einstaka liði, en vil að eins skýra frá afstöðu minni til brtt. á þgskj. 618, um hækkun á styrk til Breiðafjarðarbátsins. Það er í ráði að kaupa bát til ferða á Breiðafirði, og þótti nefndinni það fallega hugsað og óskaði því máli framgangs. Fyrir strandferðanefndinni lá áætlun um verð og reksturskostnað bátsins, og fór hún eftir þeirri áætlun í tillögum sínum. Nú hefir komið í ljós á síðustu stundu, að í ráði er að stækka bátinn mikið, og því er farið fram á meiri styrk. Strandferðanefndin hefir ekki tekið afstöðu til stækkunarinnar og fjárlaganefndin ekki heldur. Ef stækka á bátinn, tel jeg það meira vafamál en áður, hvort fyrirtækið muni bera sig. Upprunalega var búist við því, að hlutafjeð yrði um 14 þús. kr. og báturinn 35 þús. krónur. En nú er áætlað, að kostnaðurinn verði 40 þúsund krónur eða meira, og tel jeg þá nauðsynlegt, að hlutafjeð sje aukið að sama skapi og báturinn stækkar. Það er sannreynt um þau fjelög, sem leitað hafa til landasjóðs, að þau hafa farið illa, af því að hlutafje þeirra hefir verið of lítið. Það þyrfti því að setja skilyrði um, að hlutafje þessa fjelaga væri hæfilega mikill partur af stofnfjenu.

Á þgskj. 591 er komin fram tillaga um, að landsstjórninni veitist heimild til að taka á sig ábyrgð á alt að 10 þús. kr. láni til Flóabátsfjelags Breiðafjarðar, og var meiri hluti nefndarinnar fullkomlega hlyntur þeirri tillögu, en þegar það kom til athugunar, að hlutafje fjelagsins er ekki nema rúmlega 1/3 af bátsverðinu, þótti nefndinni viðurhluta mikið að fallast á tillöguna óbreytta, og hefir hún því komið fram með viðaukatillögu á þgskj. 634, svo hljóðandi: »Þó svo, að hlutafje fjelagsins nemi eigi minna en 45% af verði hins fyrirhugaða vjelbáts». Þetta skilyrði ætti að vera til tryggingar bæði fyrir fjelagsskapinn sjálfan og fyrir lánardrottin, hvort sem það er landssjóður eða annar. Væntanlega geta hjeruðin tekið hærri hluti í fjelaginu, svo að þetta skilyrði ætti ekki að vera því til fyrirstöðu, að lánið fengist.

Jeg ætla nú ekki að tala meira um till. strandferðanefndarinnar, heldur víkja að till. hins svo kallaða minni hluta fjárlaganefndarinnar — »minni hluti« er eiginlega ekki rjettnefni, því að fjárlaganefndin hefir ekki og getur ekki klofnað. — Jeg á hjer við brtt. okkarháttv. 2. þm. Rang. (E. P.), um að lækka styrkinn til Eimskipafjelags Íslands úr 80 þús. kr. ofan í 60 þús. kr., þannig, að fyrra árið fái fjelagið 35 þús. kr., en síðara árið 25 þús. kr. Það er vitanlegt, að þegar þingið veitti 40000 kr. til stofnunar fjelagsins 1913, var ekki meiningin, að fjelagið ætti ekki að halda uppi ferðum milli landa nokkurn veginn stuðningslaust af landsfje, heldur var hjer aðallega stofnunarstyrkur til fjelagsins. Við, sem flytjum þessa brtt., lítum svo á, eina og hinir samnefndarmenn okkar, að ekki sje heppilegt að kippa styrknum af fjelaginu. En aftur á móti, að byrjunarstyrkur þessi eigi að fara smálækkandi.

Háttv. þingm. V.-Sk. (S. E ) talaði um; að ekki mætti hlaupa undan bagga með fjelaginu. Þetta og sams konar tal um brtt. okkar slær alveg röngum blæ á hana. Við viljum ekki leggja neitt slíkt til, heldur einungis að styrkurinn lækki lítils háttar. En það er líka hægt að styrkja fjelagið með ýmsu móti, og fjelaginu er öflugur styrkur að því, að samningar eru komnir á milli landsstjórnarinnar annars vegar og fjelagsins hina vegar um strandferðirnar. Felaginu er það stór styrkur, geti það rekið strandferðirnar á kostnað landssjóðs. Því ætti þá að vera svo mikil stoð í því að hafa strandferðirnar, að í raun og vera ætti það að nægja. Það er ekki sagt, að fjárstyrkurinn þurfi að vera svo eða svo hár, til þess að koma fjelaginu að haldi, heldur fer það eftir því, hvað heimtað er á móti styrknum. Það er hægt fyrir þing og stjórn og landsmenn að heimta svo mikið af fjelaginu, að því væri betra að hafa engan styrk, og vera slíkum kvöðum óháðara.

Jeg skal benda á það t. d., ef fjelagið, í stað þess að halda uppi fastbundnum ferðum milli Íslands og útlanda alt árið, samkvæmt núgildandi ferðaáætlunum þess, hefði tiltekið tímabil skip sín í frjálsum ferðum, þar sem flutningsgjöld væru hærri. Þetta þyrfti ekki mikið að baga oss, en gæti munað fjelagið meira en þessi lækkun á styrknum. Þá eru það þessar fjórar Hamborgarferðir, sem fjelagið hefir í áætlunum skipanna. Thorsfjelagið hafði á sínum tíma 10 þús. kr. á ári úr landssjóði til þessara 4 ferða, og þóttist ekki skaðlaust af því. Nú hefi jeg sannanir fyrir því, að þótt landssjóður hefði borgað flutning til Kaupmannahafnar eða Leith á öllum þeim Hamborgarvörum, sem komu til landsins í þessum fjórum ferðum, þá hefði það verið ljettara. Sjest þá glögt, hvaða fjárhagslegur skaði hefir orðið að slíkum ferðum. Hann sýnist mjer vert að spara Eimskipafjelaginu, og leggja því ekki fje til slíkra ferða á þessu ári.

Jeg nenni ekki að orðlengja þetta frekar, þótt margt mætti segja og, ef til vill, margar upplýsingar væri hægt að gefa um ýms atriði, sem ekki er víst, að öllum háttv. þm. sjeu ljós.